Bændablaðið - 08.02.2018, Blaðsíða 21
21Bændablaðið | Fimmtudagur 8. febrúar 2018
það kann að vera að fara úr öskunni
í eldinn að bleyta upp land til að
endurheimta votlendi!“
Er verið að fara úr öskunni í
eldinn?
Ágúst heldur áfram og leggur fram
spurningarnar sem Bændablaðið
reyndi líka að fá svör við.
Nokkrar spurningar sem menn
kunna vafalítið svar við:
1. Hve mikil er árleg losun CO2
pr. hektara fyrst eftir skurðgröft
miðað við dæmigerða mýri?
2. Hvað ætli árleg losun CO2 sé
eftir 10 ár? 20 ár? 30 ár?
3. Eftir hve langan tíma frá því
skurðir voru grafnir er losun á
CO2 orðin óveruleg miðað við
það sem hún var fljótlega eftir
skurðgröft?
4. Hve mikið minnkar losun CO2
eftir bleytingu?
5. Hve mikið bindur skógur pr.
ha. sem plantað er í þurrkað
land?
6. Er víst að bleyting eða
endurheimt votlendis sé
árangursríkari en skógrækt á
sama stað?
7. Hve mikil eru áhrif útstreymis
metans frá blautum mýrum á
hlýnun miðað við útstreymi
CO2 frá þurrkuðum mýrum?
8. Getur verið, að þegar landi,
sem þurrkað hefur verið upp
fyrir nokkrum áratugum, er
breytt í mýri aftur, að þá fari
í gang losun metans sem er
skæðari valdur hlýnunar en
útstreymi koltvísýrings sem
var orðið lítið? (Sem sagt, farið
úr öskunni í eldinn).
Flestir efnaferlar varðandi niðurbrot
fylgja veldisfalli. Sama gildir um
fjölmörg fyrirbæri í náttúrunni.
Losun CO2 úr framræstu mýrlendi
fylgir væntanlega einnig veldisferli.
Losunin er mest í byrjun, en fellur
síðan nokkuð hratt.
Helmingunartími er skilgreindur
sem tíminn þar til losun á
tímaeiningu (t.d. á ári) er komin
niður í helming af því sem hún var
í byrjun. Ef helmingunartíminn
varðandi losun á CO2 úr framræstri
mýri er 10 ár, þá er árleg losun
komin niður í fjórðung eftir 20 ár,
12% eftir 30 ár og 6% eftir 40 ár.
Sem sagt, eftir fáeina áratugi er
árleg losun orðin óveruleg miðað
við að helmingunartíminn sé 10 ár.
Það er því ekki nóg að áætla
augnabliksgildið á losun CO2 úr
framræstum mýrum. Við þurfum
að þekkja það sem fall af tíma og
þar með helmingunartímann (eða
tímastuðulinn ef það hentar betur)
við dæmigerðar íslenskar aðstæður.
Þá fyrst getum við farið að ræða af
viti um það hvort vit sé í að bleyta
upp framræst land.
Helmingunartíminn er grund-
vallar atriði sem nauðsynlegt er að
þekkja nokkurn veginn, því árangur
af því að bleyta upp gamla þurrkaða
mýri er lítill sem enginn
Hver ætli helmingunartíminn sé?
Ætli 10 ár sé fjarri lagi?“
Ágúst dregur vangaveltur sínar
saman í samantekt og segir:
„Mýrar losa metan sem er 20
sinnum virkara gróðurhúsagas en
koltvísýringur sem losnar meðan
jurtaleifar í þurrkuðum mýrum rotna
og breytast í mold. Losun metans
minnkar, en losun koltvísýrings
eykst tímabundið. „Tímabundið“
er lykilatriði.
Vissulega er magn mælt í kg á
hektara metans í blautri mýri minna
en koltvísýrings í þurrkaðri mýri
fyrstu árin, en hver eru hlutfallsleg
áhrif metans í blautri mýri og
koltvísýrings meðan umbreytingin
er í fullum gangi fyrstu árin og
síðan næstu áratugi? Gleymum
ekki að taka tímann sem líður með í
reikninginn. Hver eru hlutföllin eftir
t.d. 20 ár, og síðan eftir 50 ár? (Allt
miðað við upprunalegt ástand, þ.e.
losun metans frá óraskaðri mýri).
Svæði sem þurrkuð hafa verið á
undanförnum árum eru enn að losa
koltvísýring, en
eftir því sem
tíminn líður
minnkar losunin
þar til hún verður
ekki meiri en
frá venjulegum
úthaga, þ.e.
óveruleg. Þegar það
hefur gerst hefur
bleyting landsins
þveröfug áhrif við það sem
ætlunin var vegna losunar metans
sem þá hefst. Losun hinnar öflugu
gróðurhúsaloft tegundar metans fer
þá smám saman á fullt og helst
þannig um ókomna framtíð.
Hvort er skárra: Tíma bundin
losun kol tvísýrings í fáeina
áratugi frá þurrkaðri mýri, eða
ótímabundin losun metans um alla
framtíð frá bleyttu landi?
Það er eins gott að velta þessu
aðeins fyrir sér áður en þurru landi
er breytt í mýri í stað þess að rækta
þar skóg,“ segir Ágúst m.a. í grein
sinni.
Losun CO2 ígilda úr framræstu
votlendi sögð nær 12 milljónir
tonna
Losun gróðurhúsalofttegunda úr
framræstu votlendi á Íslandi var
árið 2013 metin á 11,7 milljónir
tonna CO2 ígildi. Þessi tala byggir
á viðmiðum Vísindanefndar
loftslagssamningsins (IPCC) um
losun á flatareiningu og innifelur
þá væntanlega líka þátt metans.
Heildarlosun gróðurhúsalofttegunda
hér á landi árið 2013 var þannig metin
á 16,6 milljónir CO2 ígildistonna.
Var þessu m.a. haldið fram í viðtali
við fulltrúa Landgræðslunnar í
Bændablaðinu á síðasta ári. Þar segir
líka að jarðvegur mýrlendis sé mjög
kolefnaríkur og geymi verulegan
hluta af kolefnisforða jarðar. Einnig
að á jörðinni þeki votlendi um 3%
yfirborðs lands og geymi 20–30%
alls lífræns kolefnis á landi. Því
er dregin sú ályktun að mikill
ávinningur sé af því að endurheimta
votlendi á Íslandi. Þannig sé áætlað
að það bindi um 24,5 tonn af CO2
ígildum á hvern hektara á ári.
Spurningin er hins vegar hvort það
sé raunin ef tekið er tillit til þess að
verulegur hluti af losun mýrlendis
á gróðurhúsalofttegundum
er metangas. Allavega þótti
dr. Þorsteini Guðmundssyni,
prófessor í jarðvegsfræði, og dr.
Guðna Þorvaldssyni, prófessor í
jarðrækt, ástæða til að gera við þetta
athugasemdir.
Vatnsósa mýrar halda metangasi
ekki í skefjum
Metangas verður til við niðurbrot
jurtaleifa og rotnun. Sé t.d. litið til
Síberíu, þá hefur hlýnun loftslags
leitt til þess að frosinn jarðvegur
sífrerans bráðnar í æ meira mæli.
Eftir standa gresjur og mýrar
og frostlaus jarðvegur. Þessar
vatnsmettuðu mýrar virðast þó alls
ekki halda metangasinu í skefjum
sem áður var bundið í frosnu formi
undir yfirborðinu eða innilokað
undir frosnu yfirborði. Sýnt
hefur verið fram á svipuð dæmi á
hafsbotni þar sem metan er oft að
finna í miklu magni í föstu frosnu
formi á miklu dýpi undir miklum
þrýstingi. Hlýnun sjávar virðist
oft og tíðum hafa losað um slíkt
metangas í miklu magni. Dæmi
er um gríðarstóra gíga sem hafa
myndast á hafsbotni við slíka losun.
Nú eru menn farnir að sjá það sama
gerast í freðmýrum Síberíu, Kanada
og Alaska. Þar hafa myndast aragrúi
gíga eftir að metangas hefur losnað
úr jarðvegi.
Mikið metangasuppstreymi af
hafsbotni á norðurslóðum
Alþjóðlegt teymi vísindamanna í
SWERUS-C3 verkefni sýndi m.a.
fram á þetta með mælingum í
Laptev-hafi norður af Síberíu í júlí
2014. Þar mældu þeir 10 sinnum
meira af metani í sjó en eðlilegt gat
talist. Kom þetta vísindamönnunum
mjög á óvart þar sem þeir sigldu frá
500 metra dýpi upp á um 250 metra.
Leiddu þeir líkum að því að hlýir
hafstraumar væru að valda losun
metans. Sögðust þeir vel greina
metanlyktina sem steig upp af
haffletinum. Bentu þeir á að þá hafi
nýverið verið staðfest að hlý tunga
sjávar úr nyrsta enda golfstraumsins
í Atlantshafi hafi streymt inn á þetta
svæði og mögulega hitað upp sjóinn
á 200 til 600 metra dýpi. Á um 60 til
70 metra dýpi uppgötvuðu þeir um
100 nýja uppstreymisstaði metans.
Töldu þeir líkur á að þetta mikla
metanuppstreymi kunni að vera
mun alvarlegra í heildarsamhenginu
en losun koltvísýrings út í
andrúmsloftið.
Er skógrækt áhrifameiri en
endurheimt votlendis?
Það virðast því hvorki vera mýrarnar
í sjálfu sér né vatn eða haf sem
haldið geta metaninu í skefjum.
Eina leiðin til að binda kolefni
í andrúmsloftinu er því að beita
ljóstillífun m.a. við ræktun skóga. Þá
umbreytist kolefni í fast form. Það
gerist líka þegar grassvörður breytist
í mó í mýrunum. Sama á sér stað
við myndun gróðurþekju á þurru
landi og uppþornuðum mýrum.
Metangasið, sem er talið 20 til 30
sinnum virkari gróðurhúsalofttegund
en CO2 og verður til við rotnun
jurtaleifa, heldur hins vegar áfram
að streyma út í andrúmsloftið. Það
stoppa menn ekki með því einu
að moka ofan í skurði. Þetta getur
almenningur prófað sjálfur með því
einfaldlega að bera eldspýtu að þar
sem gasútstreymi er mikið í mýrum
og í fjörum landsins. Meira að segja
er mögulegt að þefa hreinlega uppi
slík svæði, því rotnunarlyktin sem
af metaninu stafar fer ekkert á milli
mála. Hún er keimlík hveralykt líkt
og vísindamenn í SWERUS-C3
lýstu.
Mokstur í skurði vafasöm aðgerð
Samkvæmt þessu og orðum dr.
Þorsteins og dr. Guðna sem og
ýmsum gögnum eins og ritrýndri
grein, „Greenhouse gas balances of
managed peatlands in the Nordic
countries – present knowledge and
gaps“, sem birt var 2010, hlýtur það
að orka mjög tvímælis að Íslendingar
ráðist í afar kostnaðarsamar aðgerðir
við að moka ofan í þúsundir
kílómetra af skurðum til að
endurheimta mýrar. Í þessari grein
er m.a. rætt um mýrarnar á Íslandi.
Þar kemur mjög greinilega fram að
stór göt eru í vitneskjunni. Þar segir
m.a. líka:
„Mikið útstreymi gróðurhúsa-
lofttegunda (GHG) hefur mælst
frá mýrum sem hefur verið sökkt í
vatn.“ Þarna er margítrekað hamrað
á vafaatriðunum varðandi ávinning
af endurheimt votlendis.
Það gildir einu hversu falleg
hugsunin er á bak við hugmyndirnar
um endurheimt votlendis að ef
ávinningurinn er ekki augljós, þá ber
okkur að skoða málin betur. Það má
líka benda á að slíkar framkvæmdir
kalla á gríðarlega olíueyðslu og
útblástur CO2 frá vinnuvélunum sem
til þess yrðu notaðar. Eftir stendur
að besta og skilvirkasta leiðin til að
binda kolefni væri trúlega að rækta
meiri skóg á þessu uppþurrkaða
landi. Farsælast væri trúlega að
samtvinna þetta og endurheimta
votlendi þar sem árangurinn er
augljósastur, en binda kolefni að
öðru leyti með ræktun trjáa og
gróðurþekju sem nýttist þá áfram
að hluta fyrir landbúnað.
Vertu viðbúinn vetrinum
LÉTTAR – STERKAR – TRAUSTAR
SNJÓKEÐJUR
Hafðu samband og kynntu þér
vöruúrvalið og þjónustuna
Metangasuppstreymi af hafsbotni. Myndin er úr leiðangri SWERUS-C3 í Norðuríshafinu.
Alþjóðlegt teymi vísindamanna í SWERUS-C3 verkefni sýndi m.a. fram á
losun metans af hafsbotni með mælingum í Laptev-hafi norður af Síberíu í
júlí 2014. Hér er verið að undirbúa töku sýna af hafsbotni.