Bændablaðið - 08.02.2018, Blaðsíða 37

Bændablaðið - 08.02.2018, Blaðsíða 37
37Bændablaðið | Fimmtudagur 8. febrúar 2018 Nafn Chicago-borgar í Bandaríkjunum er dregið af shika- kwaa, sem þýðir staðurinn þar sem villtir laukar vaxa á máli Algonquia indíána. Uppruni og saga Matlaukur er ekki þekktur í náttúrunni nema þar sem hann hefur dreifst út frá ræktun og því manngerð tegund. Ekki er að fullu ljóst um ætterni matlauksins en tegundirnar A. vavilovii og A. asarense sem finnast villtir í Íran eru taldir nánir ættingjar hans. Fjöldi yrkja, afbrigði og landsorta af matlauk eru nánast óteljandi og sagt er að það sé til laukur fyrir öll tækifæri. Laukjurta hefur verið neytt til manneldis frá ómunatíð en þeir sem láta sig slíkt varða eru ekki á einu máli um hvar ræktun á lauk hófst og greinir þar aðallega á um hvort það var í Asíu eða Persíu. Aðrir telja, og benda á fornleifarannsóknir máli sínu til stuðnings, að ræktunin hafi hafist á svipuðum tíma í Kína, Mið-Asíu og Persíu. Rannsóknir benda til að laukur hafi verið ræktaður í Kína allt að 5000 árum fyrir Krist og að hann hafi verið verslunarvara sem flutt var á milli héraða. Leifar matlauka hafa fundist við fornleifarannsóknir í bronsaldarbyggðum við botn Miðjarðarhafs frá fimmtu öld fyrir Kristsburð. Súmerskar leirtöflur frá annarri öld fyrir Krist sýna mataruppskriftir með lauk og í 4. Mósebók 11:5 segir: „Nú munum við eftir fiskinum sem við fengum fyrir ekkert í Egyptalandi, gúrkunum, melónunum, blaðlaukunum, laukunum og hvítlaukunum.“ Sem bendir til laukræktunar í Egyptalandi á tíma sem Gyðingar eiga að hafa flúið landið með Móses í broddi fylkingar. Laukur var hluti af trúarlífi og helgisiðum Egypta og í þeirra augum var lögun hans tákn um eilíft líf og laukar finnast í myndlist Forn-Egypta. Þeir voru notaðir við greftrun og fundist hafa leifar af lauk í augntóftum Ramses fjórða faraós og laukur hefur varðveist í hönd að minnsta kosti einnar múmíu í Egyptalandi. Laukur var hluti fæðu þeirra sem byggðu pýramídana og fyrsta verkfallið sem sögur fara af má rekja til þess að þeir fengu ekki sinn daglega skammt af lauk. Grikkir voru hrifnir af lauk til matargerðar og rómverskir skylmingaþrælar voru nuddaðir með lauk til þess að stæla vöðva þeirra og lengi hefur bardagahönum verið gefinn laukur fyrir hanaat til að auka styrk þeirra. Rómverjinn Pliny eldri segir í riti frá fyrstu öld frá lauk og káláti í Pompei. Hann segir einnig að Rómverjar hafi talið lauk góðan við augnsjúkdómum, svefnleysi og reyndar nánast öllu frá sári í munni, verkjum í mjóbaki til sýkinga af völdum dýrabita. Við fornleifauppgröft í borginni Pompei sem fór undir hraun árið 79 hafa fundist minjar um laukagarða svipuðum þeim sem Pliny segir frá. Í Evrópu miðalda greiddu leiguliðar landskuld með laukknippi og þeir þóttu dýrmætir til gjafa og Kristófer Kólumbus hafði með sér lauka til Ameríku 1492. Laukar voru með fyrstu nytjaplöntunum sem evrópskir nýbúar ræktuðu í Norður- Ameríku eftir landafundina þar. Indíánar Norður-Ameríku þekktu til lauka fyrir komu Evrópumanna og ræktuðu og neyttu lauks sem kallast Kanadalaukur, A. canadense, sem er algengur um alla Norður-Ameríku. Laukur þótti ástarörvi, allt frá löndum Miðjarðarhafsins til Kína, og sérstaklega þóttu fræin góð til að kveikja undir líffærum lostans. Laukurinn sjálfur var sagði góður við ristregðu og skalla karla, ófrjósemi kvenna og húsdýra og tannpínu og hægðatregðu hjá báðum kynjum og búpeningi. Laukformið þekkist í bygg- ingarlist í Austur-Evrópu, Tyrklandi og í Rússlandi eins og vel má sjá á turnum dómkirkju heilags Basil í Moskvu. Laukformið er einnig vel greinanlegt sem turn gamla Landshöfðingjahússins sem kallast Næpan og stendur við Skálholtsstíg 7 í Reykjavík. Svíinn Carl Linnaeus var fyrstur til að lýsa matlauk á prenti í bók sinni Species Planntarum, sem kom úr 1753. Laukur í matinn Þrátt fyrir að flestir sem skorið hafa lauk hafi fengið tár í augun eru vinsældir hans sem matvara miklar og laukur notaður við margs konar matargerð um allan heim. Reyndar er auðvelt að losna við augnsviðann með því að setja upp skíðagleraugu við laukskurðinn. Lauks er neytt hrás, steikts, pæklaðs og súrsaðs og það má borða hann á ýmsum þroskastigum. Einnig er hægt að fá þurrkaðan lauk í duftformi sem laukkrydd. Laukur eu um 90% vatn, 9% kolvetni og 1% vítamín og steinefni. Laukur er góður í salat og hann má hita á pönnu og hafa með flestum mat. Sjálfur vil ég pylsuna mína með tómat og sinnepi og bæði steiktum og hráum lauk. Mest er laukneysla í Líbýu og Albaníu, um 34 kíló á mann. Hafa laukar sál? Forngríski heimspekingurinn Empedokles, 490 til 430 fyrir Krist, sem þekktastur er fyrir hugmyndir sínar um frumefnin fjögur, jörð, vatn, loft og eld, hélt því fram að plöntur hefðu sál. Hann taldi engu minni synd að borða plöntur en dýr því að í báðum tilfellum væri verið að taka líf. Lærisveinum Empedokles var sérlega illa við laukát þar sem laukar líktust mannshöfðum að þeirra mati. Í Austurlöndum er laukát sagt trufla hugleiðslu. Laukur í þjóðtrú Samkvæmt þjóðtrú var gott að bera lauk í vinstri hönd til að forðast sýkingar. Einnig þótti gott að setja hráan lauk á disk væru veikindi í húsinu. Sagt er að laukurinn dragi í sig bakteríu og hreinsi loftið. Þessi trú er nokkuð lífseig og ekki fyrir löngu var sagt að fólk með kvef og flensu ætti að sofa í sokkum og með hráa lauksneið undir iljunum til að flýta bata. Því hefur verið fleygt að gott sé að setja lauksneið í diskadrif tölvu og láta liggja þar yfir nótt til að hreinsa burt vírusa úr tölvunni. Sagt er að gott sé að leggja lauk við brunasár. Til að auka gæfu sína er gott að brenna lauk. Það að dreyma lauk er sagt vera gæfumerki og vilji karlmenn sjá fyrir lífsförunaut sinn í draumi skal sofa með lauk undir koddanum aðfaranótt 20. desember. Ræktun á matlauk Vel má rækta matlauk hér á landi á skjólgóðum stað og við góðar aðstæður. Sé ætlunin að rækta lauk upp af fræi skal sá fræjum um miðjan mars og forrækta inni þar til jarðvegshiti hefur náð 6° á Celsíus. Einnig má setja útsæðislauka í jörð í lok maí með 10 til 15 sentímetra millibili. Matlaukar dafna best á sólríkum stað í vel framræstum moldríkum og eilítið súrum jarðveg með sýrustig milli 5,5 og 6,5. Laukar þurfa reglulega vökvun í þurrkatíð og sniglar eru sólgnir í þá. Samkvæmt hugmyndafræði samplöntunar fer vel að planta laukum með káljurtum og jarðarberjum auk þess sem laukar og rósir fara vel saman og eru vinir. Best er að geyma lauk á þurrum stað við stofuhita. Laukur á Íslandi og í nýlendunni fyrir vestan Ein tegund af ættkvísl Allium finnst villt á nokkrum stöðum hér á landi, A. oleraceum, og kallast villilaukur. Mestar líkur eru á að tegundin hafi verið flutt til landsins til nytja fyrir alllöngu síðan. Í Laxdælu er sagt frá laukagarði Guðrúnar Ósvífursdóttur á Helgafelli. Laxdæla er talin rituð 1250 og ekki vitað hvort laukar hafa verið ræktaðir í garðinum og líklegt að um almennan matjurtagarð hafi verið að ræða. Í tímaritinu Framfari, 1878, sem gefið var út á íslensku í Manitoba í Kanada, er grein eftir ónefndan höfund sem ætlað er að kynna Íslendingum í nýlendunni fyrir ræktun á lauk. Ekki er annað að sjá en að ræktunaraðferðin sé í fullu gildi og gagnist þeim sem vilja rækta lífrænan matlauk. „Frá ómunatíð hefir laukurinn verið ræktaður sem krydd og hafður í súpu, kjötmat o.s.frv. hjá öllum jarðyrkjuþjóðum. Auk þess næringarefnis, sem í honum er, hefir hann einnig i sjer lækningarefni, sem er einkum hollt i hósta og kvefi og yfirhöfuð fyrir brjóstveika. Þar að auki er laukur einnig ágætt varnarmeðal móti skyrbjúgi. Hann sprettur best i feitum og lausum jarðvegi, jörðin má vera nokkuð sendin og rök því laukurinn þarf mikinn hita og nokkra vætu til að spretta vel, þess vegna eru dældir milli hryggja, sem sandur hefir runnið ofan i, hentugur sáningarstaður fyrir hann. Sje jörðin mögur, og frjóvgunarefnið að miklu leyti úttæmt, þarf að bæta hana með áburði; hentugasti áburður er hin feita svarta mold (loam), sem hjer er víða i nýlendunni, eða gömul (fúin) mykja og er best að hún sje blönduð með hrossataði. Það er hæfilegt að plægja fjögurra þuml. djúpt, herfa svo yfir, og mylja moldina mjög smátt. Sá skal í grunnar rásir, með tólf eða fjórtán þuml. millibili en láta þrjá til fjóra þuml. vera á milli frækornanna í rásinni, raka svo mold yfir. Best er að sá sem fyrst a vorin, er veður og jörð leyfir, og mun hæfilegur sáningartími hjer í nýlendunni vera mánaðamótin apríl og maí. Einnig má sá laukhnúðunum sjálfum, og skal þá hafa til sáningarinnar litla eða hálfvaxna lauka frá undanfarandi ári. Tvö lóð af fræi er hæfilegt í sáðreit, sem er 24 feta langur og 5 feta breiður. Það þarf vandlega að reyta burt illgresi, og venjulegt er að reyta það þrisvar sinnum. Í fyrstu tvö skiptin, þegar illgresi er reytt skal róta jörðinni dálitið upp að plöntunum, en þegar reytt er í þriðja og síðasta sinni, skal sópa moldinni burt, svo að laukurinn verði því nær allur ofanjarðar.“ Tákn um eitthvað gott Í íslensku stendur laukur oft sem tákn un eitthvað jákvætt. Holdlaukar eru í bógum og lærum fénaðar sem eru í góðum holdum. Þannig er sá sem talinn er bera af í fjölskyldum kallaður ættarlaukurinn og sagt er að það sé einn laukur í ætt hverri. Orðasambandið að stíga í laukana þýðir að lifa í sæld og ef eitthvað er sagt vera laukrétt getur það ekki verið réttara og betra er að vera laukur í lítilli ætt en strákur í stórri. Ætluð heimsframleiðsla á matlauk í heiminum er um 85 milljón tonn á ári og hefur framleiðslan um það bil tvöfaldast á síðustu tíu árum. Neðanjarðarhlutinn er laukur, hvítur, rauður eða gulur að lit og misstór eftir yrkjum. Á átjándu öld og fram á þá nítjándu var algengt að franskir lauksalar færu
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.