Bændablaðið - 08.02.2018, Blaðsíða 30

Bændablaðið - 08.02.2018, Blaðsíða 30
30 Bændablaðið | Fimmtudagur 8. febrúar 2018 Hundruð þúsunda kjúklingabúa í Bandaríkjunum framleiða milljarða kjúklinga á ári hverju sem renna ofan í svanga Ameríkana og ferðamenn sem þangað koma. Á árinu 2016 voru til að mynda framleiddir nærri 9 milljarðar kjúklinga sem skiluðu hagnaði upp á 26 milljarða dollara, samkvæmt tölum landbúnaðarráðuneytis Bandaríkjanna. Sá böggull fylgdi þó skammrifi að við þessa framleiðslu var notað óhemju magn af fúkkalyfjum. Samkvæmt umfjöllun á vefsíðu Live Science væri óframkvæmanlegt að framleiða alla þessa kjúklinga og jafn mikið magn af kjúklingakjöti og gert er nema að nota fúkkalyf sem vaxtarhvata. Var fúkkalyfjum þá m.a. blandað í fóður og vatn fuglanna. Með lyfjunum verða kjúklingarnir ekki eins viðkvæmir fyrir ýmiss konar sýklum og vaxa mun hraðar með minni fóðurkostnaði en þeir gerðu við eðlilegar aðstæður. Ekki væri heldur hægt að ala eins mikinn fjölda kjúklinga í hverju búi án fúkkalyfjagjafar því áhættan af hraðri útbreiðslu smits í svo miklu þéttbýli alifugla er gríðarleg, samkvæmt skrifum vísindablaðamannsins Maryn McKenna. Þannig olli sýklalyfjanotkunin byltingu í kjúklingarækt í Bandaríkjunum og víðar. Ofnotkun sýklalyfja skapaði gríðarlegt vandamál Þessi mikla notkun fúkkalyfja hefur þó með tímanum skapað gríðarlegt vandamál sem er nú að koma í bakið á mannfólkinu. Sýklar, sem áður var auðvelt að vinna á með fúkkalyfjum, hafa þróað með sér ónæmi fyrir lyfjunum. Hafa þar orðið til ofursýklar eða „superbugs“. Því þarf sífellt meira af fúkkalyfjum og sterkari efni til að vinna á þeim og smám saman hafa verið að þróast sýklar sem nær engin lyf ráða við. Vegna þessa vinna menn nú baki brotnu við að endurmeta allt kjúklingaeldið í viðleitni við að finna leiðir til að geta ráðið við þessa ofursýkla. Í langan tíma hafa sérfræðingar í faraldsfræðum við Landspítalann á Íslandi haft miklar áhyggjur af þessu, ekki síst vegna vaxandi krafna um innflutning á hráu kjöti frá útlöndum. Telja sérfræðingarnir að aukin tíðni sýkinga af völdum lyfjaónæmra sýkla geti kostað íslenska heilbrigðiskerfið gríðarlegar upphæðir. Þá hefur það verið metið íslenskum landbúnaði til tekna hversu lítið er notað af sýklalyfjum í greininni hér á landi. Þar erum við í sérflokki á heimsvísu ásamt Norðmönnum. Hefur íslensk kjúklingarækt ekki síst vakið athygli út fyrir landsteinana fyrir hvernig henni tekst að komast hjá smitsjúkdómum án notkunar sýklalyfja í stórum stíl. Hér eru heldur engin eiginleg verksmiðjubú í rekstri og teljast flest smábú í samanburði við risabúin sem starfrækt eru víða erlendis. Stóri kjúklingurinn Maryn McKenna ritaði bók um stöðu þessara mála í Bandaríkjunum á síðasta ári sem ber titilinn „Stóri kjúklingurinn“ eða „Big Chicken“ og er með undirtitilinn: „Ótrúleg saga af hvernig fúkkalyfin sköpuðu nútíma landbúnað og breyttu neyslumynstri heimsins.“ Í viðtali við Live Science um hvað það væri við kjúklingana sem hafi valdið því að hún fór að skrifa bók um málið, sagði McKenna meðal annars: „Ég var að skoða notkun fúkkalyfja í landbúnaði eftir að hafa lesið bók um sýklalyfjaónæmi [Superbug: The Fatal Menace of MRSA sem kom úr 2011]. Í framhaldi af því skoðaði ég tölur í Bandaríkjunum sem sýndu að við seljum fjórum sinnum meira af sýklalyfjum fyrir dýr en notuð eru til að takast á við sýkingar í fólki. það ýtti líka við mér að hafa talað við fólk sem þurfti lífsnauðsynlega á sýklalyfjum að halda og hafði áhyggjur af áhrifum af ofnotkun sýklalyfja á sama tíma og verið var að gefa dýrum sýklalyf í tonnatali. Eftir því sem ég kafaði dýpra í málið áttaði ég mig á því að þessi saga um sýklalyfjaónæmi og notkun sýklalyfja í landbúnaði var í raun grunnurinn að því hvernig við stundum kjúklingaeldi. Kjúklingar voru fyrstu dýrin sem voru gefnir vaxtarhvetjandi skammtar af sýklalyfjum. Líklega mun kjúklingaræktin líka einnig verða fyrsta greinin í próteinframleiðslu Bandaríkjanna til að [sem neyðast til] hætta notkun sýklalyfja. Mér sýndist að allt það sem við höfum gagnrýnt við kjúklingaræktina og í raun varðandi alla dýraframleiðslu á iðnaðarskala, megi rekja til notkunar fúkkalyfja.“ Verksmiðjubúskapur ekki framkvæmanlegur án sýklalyfjanna „Án notkunar fúkkalyfja hefðum við aldrei getað framleitt dýr á jafn skömmum tíma og gert er nú. Við hefðum ekki heldur haft þann hvata sem nauðsynlegur er til að ala dýr í miklum þrengslum í húsum og fóðrunarstöðvum [feed lots]. Sýklalyfin gerðu mönnum kleift að verja dýrin gegn sjúkdómum sem þéttbýlið orsakaði. Sýklalyfin sköpuðu þann stöðugleika sem nauðsynlegur var til að mæta vaxandi eftirspurn með lágmarks tilkostnaði og framleiða ódýrt prótein. Síðan hefur eftirspurnin eftir unnu kjúklingakjöti aukist hröðum skrefum eins og kjúklinganöggum og öðru. Þannig áttaði ég mig á að kjúklingaeldið var dæmigerð saga um nútíma dýraeldi á iðnaðarskala með mikilli og meiri framleiðni en hægt var að finna í nokkurri annarri grein.“ Menn héldu að sýklalyfjanotkun gæti ekki valdi skaða McKennan var einnig spurð að því með hvaða hætti þeir sem mörkuðu stefnuna hafi brugðist við öllum þeim rauðu flöggum sem komin voru á loft og sýndu að verndun dýra gegn sjúkdómum með fúkkalyfjum væri að hafa skaðleg áhrif fyrir mannfólkið. Hún sagði m.a. að í upphafi hafi fáum komið til hugar að notkun fúkkalyfja við dýraeldi gæti haft einhverjar neikvæðar hliðar. Á árunum eftir 1940 og 1950 hafi menn einfaldlega talið að ef lyfjaónæmi kæmi upp þá væri umsetningin svo hröð í eldinu að áhrifin þurrkuðust út með hverri kynslóð. Þá myndu menn fljótt verða varir við neikvæð áhrif sýklalyfjanotkunar þar sem það myndi draga úr vaxtarhraða dýranna og að þau yrðu veik. Þeim datt ekki í hug að það þyrfti að skoða málið lengra og horfa á möguleg áhrif á fólk sem neytti afurðanna [human effect]. Hefði mátt selja mjólkina sem sýklalyf „Fyrsta merkið um að það væri eitthvað að fara úr skorðum varðandi notkun sýklalyfja í landbúnaði, finnst mér sérstakt, því það var svo fáránlegt. Það var snemma á sjöunda áratugnum að fólk fór að kvarta yfir því að börn þeirra væru að þróa ofnæmi fyrir sýklalyfjum af mikilli mjólkurdrykkju. Ástæðan var að svo mikið penicillin var notað í mjólkurkýr að það hefði mátt selja sem lyf mjólkina úr kúm í Bandaríkjunum og Bretlandi sem innihélt þá líka mikið af penicicillini. Í kjölfarið fóru ostagerðarmenn að kvarta yfir því að þeir gætu ekki lengur framleitt ost úr mjólkinni. Hún innihélt svo mikið af sýklalyfjum að þau drápu gerlaflóruna sem nauðsynleg var til að hægt væri að búa til osta. Þetta var upphafið að þeim faraldri fæðuborins sýklalyfjaónæmis sem ollu sýkingafaröldrum af völdum salmonellu og kamfílóbakteríu í þeim mæli sem aldrei hafði áður sést. Faraldrar af þessum toga sem ekki voru svæðisbundnir voru eitthvað nýtt og þeir orsökuðust af sýklalyfjaónæmi.“ Tilraunin sem opnaði augu manna fékk ekki pólitískan stuðning McKenna segir að athyglin hafi svo verið dregin að Bandaríkjunum árið 1979 þegar sérfræðingur í sýklalyfjum, dr. Stuart Levy hjá Tufts-háskólanum, settu upp tilraun á búgarði í útjaðri Boston. Þar fékk hann nýútungaða kjúklinga úr framleiðslulotu sem settir voru í einangrun hver frá öðrum. Hann réð heimilisfólk af búgarðinum svo til að gefa hluta kjúklinganna fóður sem fúkkalyfjum hafði verið blandað í. Síðan fylgdist hann með hvort í þessum kjúklingum kæmu fram sýklalyfjaónæmar bakteríur. Einnig hvort þær kæmu fram í hinum fuglunum og heimilisfólkinu. Þetta var í fyrsta sinn sem sýnt var fram á að sýklalyf sem gefin voru dýrum á búgarði framkölluðu sýklalyfjaónæmi í bakteríum í þörmum fuglanna. Í saur frá kjúklingunum bárust sýklalyfjaónæmu bakteríurnar svo út í umhverfið, í önnur dýr og einnig í fólk. Á grunni þessarar vitneskju reyndi Matvæla- og lyfjastofnun Bandaríkjanna árið 1977 að setja reglur til að draga úr sýklalyfjanotkuninni við dýraeldi í Bandaríkjunum, á svipaðan hátt og gert hafði verið með pólitískum ákvörðunum í Bretlandi. Pólitísk áhrif unnu þó gegn þessum áformum í Bandaríkjunum, allt þar til ríkisstjórn Barack Obama koma reglunum loks í gegn árið 2010. Erum komin í stórkostlega hættu McKenna var einnig spurð að því hvort komið væri að einhverjum hættumörkum varðandi baráttuna við lyfjaónæmar bakteríur sem hafi þegar þróað með sér ónæmi fyrir ofurlyfjum. „Við erum komin í stórkostlega hættu vegna þess að bakteríur eru að verða svo fjölónæmar og eru þegar orðnar ónæmar fyrir öflugustu vopnunum sem við höfum í lyfjabúrinu. Landbúnaðurinn ber líka ábyrgð á þessu, ekki einn og sér, heldur er einnig nauðsynlegt að hafa í huga að það er líka um að ræða misnotkun og ofnotkun sýklalyfja í mannalækningum. Það eru vísbendingar um að ef við hættum að nota þessi sýklalyf þá fari sýklalyfjaónæmið einnig niður á fyrra stig,“ sagði Maryn McKenna. FRÉTTASKÝRING Maryn McKenna er höfundur bókarinnar „Stóri kjúklingurinn“ sem segir breyttu neyslumynstri heimsins. Hörður Kristjánsson hk@bondi.is Bók um stóru kjúklingana sem breyttu neyslumynstri heimsins: Ofnotkun sýklalyfja framkallaði ofursýkla sem erfitt er orðið að berjast við – Mannfólkið er komið í stórkostlega hættu vegna fjölónæmra baktería að mati höfundar
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.