Bændablaðið - 08.02.2018, Blaðsíða 26
26 Bændablaðið | Fimmtudagur 8. febrúar 2018
Það virðist vera í mikilli tísku
að tala um kolefnisjöfnun og
bindingu kolefnis til að vega á
móti koltvísýringslosun. Einn
liður sem þar hefur verið bent á er
endurheimt votlendis og að mokað
verði ofan í drjúgan hluta þeirra
skurða sem grafnir voru um
allt land á síðustu öld. Fjálglegt
tal meðal stjórnmálamanna
um kolefnisbindingu virðist
þó ekki í neinum takti við þær
staðreyndir sem lesa má um í
fjárlagafrumvörpum síðasta
áratuginn og rúmlega það.
Tveir doktorar í jarðvegsfræðum
bentu þó á það í grein í síðasta
Bændablaði og að haldbæra
þekkingu og rannsóknir skorti
fyrir fullyrðingum um þann
mikla ávinning sem sagður er af
endurheimt votlendis. Í blaðinu í dag
bendir skóræktarstjóri á að skógrækt
gæti mögulega gefið meiri ávinning
í kolefnisbindingu en endurheimt
votlendis.
Skógrækt áhrifaríkra tæki til
kolefnisjöfnunar
Talsmenn skógræktarverkefna um
land allt hafa stöðugt verið að benda
á mikilvægi skógræktar við að binda
jarðveg og ekki síður til að binda
koltvísýring í andrúmsloftinu. Um
leið sé verið að framleiða súrefni
með ljóstillífun og hráefni fyrir
íslenskan iðnað. Þrátt fyrir að margir
stjórnmálamenn hafi tekið undir þau
sjónarmið skógræktarmanna, þá er
ekki að sjá að hugur hafi þar fylgt
máli ef litið er á fjárlög íslenska
ríkisins yfir heilan áratug.
Á fjárlögum 2005 voru samtals
700,8 milljónir króna settar í
skógræktarmál og þar inni var
fjármagn til Skógræktar ríkisins upp
á 230,7 milljónir króna, en annað var
skilgreint sem landshlutaverkefni,
þ.e. Héraðs- og Austurlandsskógar,
Suðurlandsskógar, Vesturlands-
skógar, Skjólskógar á Vestfjörðum
og Norðurlandsskógar sem fengu
samtals 470,1 milljón.
Hafa ber í huga að allar tölur
eru beint úr fjárlagafrumvarpi og á
verðlagi hvers árs fyrir sig. Gengi
íslensku krónunnar var mjög hátt
á árunum 2004 til 2005 og vægi
framlags til skógræktar 2005 því mun
meira en hærra krónutöluframlag á
árunum í kringum hrun, auk þess
sem verðbólguáhrif höfðu á þeim
tíma orðið nokkur.
Á fjárlögum ársins 2008 var
landshlutaverkefnum ætlaðar 513,4
milljónir og Skógrækt ríkisins 400,7
milljónir króna. Samtals voru þetta
því 914,1 milljón til skógræktarmála.
Sem kunnugt er varð efnahagshrun á
Íslandi á haustdögum 2008.
Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2009
sem lagt var fyrir Alþingi haustið
2008 voru landshlutaverkefnum
áætlaðar 559,6 milljónir króna en
Skógrækt ríkisins var snarlækkuð
og fór í 283,8 milljónum króna.
Hekluskógar voru þar að fá 49,8
milljónir króna. Samtals var þá
gert ráð fyrir 893,2 milljónum til
skógræktarmála.
Raungildi framlagsins rýrnaði
mikið við hrun krónunnar
Verðgildi íslensku krónunnar
hrundi þann 17. mars 2008.
Hrunið þá var það mesta í sögu
krónunnar í kjölfar hæstu mælingar
á gengisvísitölu frá upphafi um mitt
sumar 2007. Verðhrun krónunnar
endaði svo með bankahruninu
haustið 2008. Verðgildi framlags
til skógræktarmála á þessum tíma
var því mun rýrara en ella.
Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2010
var landshlutaverkefnunum ætlaðar
422,8 milljónir króna (gjöld ríkissjóðs
umfram tekjur) og Skógrækt ríkisins
255,9 milljónir króna. Þá voru
Hekluskógar að fá 22,6 milljónir.
Samtals voru það 701,3 milljónir
króna.
Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2011
var landshlutaverkefnum ætlaðar
387,2 milljónir króna og Skógræktinni
234,5 milljónir króna. Þá fengu
Hekluskógar 20,3 milljónir. Samtals
gerði þetta 621,7 milljónir króna.
Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið
2012 var landshlutaverkefnum
ætlaðar 387,4 milljónir króna og
Skógræktin 239,2 milljónir. Þá voru
Hekluskógar með 20,2 milljónir.
Samtals gerði þetta 646,6 milljónir
króna.
Lansdshlutaverkefnin og
Skógræktin í umhverfis- og
auðlindaráðuneyti
Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2013 var
búið að hræra talsvert í málaflokkum
og sjávar- og landbúnaðarráðuneyti
ekki lengur til, en þar höfðu
landshlutaverkefnin verið áður. Í
staðin var komið atvinnuvega- og
nýsköpunarráðuneyti sem hýstu
m.a. landbúnaðarmálin. En þar
voru engar tölur skilgreindar sem
landshlutaverkefni í skógrækt. Þau
verkefni var þá búið að færa undir
umhverfis- og auðlindaráðuneyti
þar sem skógræktin var áfram
eins og áður. Þar mátti sjá að
landshlutaverkefnin voru að fá 387,1
milljón króna. Þá var Skógræktin að
fá úthlutað 240,4 milljónum króna
og Hekluskógar að fá 29,8 milljónir
króna. Samtals gerði þetta 657,3
milljónir króna.
Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2014
eru landshlutaskógarnir áfram undir
umhverfis- og auðlindaráðuneytinu
og fengu úthlutað 394,3 milljónum.
Þar eru líka Hekluskógar með 19,4
milljónir og Skógrækt ríkisins með
243,5 milljónir króna. Samtals gerði
þetta 657,2 milljónir króna.
Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2015
eru landshlutaskógarnir að fá 401,9
milljónir króna og Hekluskógar 19,2.
Þar fékk Skógrækt ríkisins 247,4
milljónir króna. Samtals gerir það
668,5 milljónir króna.
Í fjárlögum fyrir árið 2016 voru
landshlutaskógarnir að fá 436,3
milljónir króna og Hekluskógar 22,6
milljónir. Skógrækt ríkisins var þar
að fá 262,4 milljónir. Samtals gerir
það 721,3 milljónir króna.
Landshlutaverkefnin og
Skógræktin undir einn hatt
Breytingar urðu á skipan
skógræktarmála í landinu sumarið
2016. Þá voru landshlutaverkefnin
og Skógrækt ríkisins sett undir
einn hatt undir nafninu Skógræktin
samkvæmt lögum sem samþykkt
voru á Alþingi 2. júní 2016. Meðal
helstu verkefna Skógræktarinnar
áttu að verða skipulag og ráðgjöf
við nýræktun skóga, umhirða og
nýting, umsjón með Hekluskógum
og þjóðskógum á borð við
Hallormsstaðaskóg og Vaglaskóg,
rannsóknir í skógrækt auk fræðslu
og kynningar. Einnig átti að
styrkja starfsstöðvar í héraði, en
höfuðstöðvum stofnunarinnar var
ætlað að vera á Fljótsdalshéraði.
Í fjárlögum fyrir árið 2017 voru
landshlutaverkefnin að fá 461,1
milljón króna og Hekluskógar 27,5
milljónir. Þar var Skógrækt ríkisins
að fá 345,3 milljónir króna. Samtals
gerir þetta 833,9 milljónir króna.
Ein samtala eyrnamerkt
Skógræktinni
Í fjárlögum fyrir árið 2018 er
Skógræktin með eina samtölu
og þar inni eru þá væntanlega
landshlutaverkefnin í skógrækt sem
og Hekluskógar.
Ekki er hægt að sjá með einföldum
hætti hvort um er að ræða brúttótölu
hjá því sem áður hét Skógrækt
ríkisins eða nettótölu að frádregnum
tekjum. Miðað við samanburðartölur
í fylgisskjölum miðað við fyrri ár er
þó ekki annað að sjá en að þar sé um
brúttótölu að ræða, svo að því leyti
er það ekki marktækt í samburði við
tölurnar áranna frá 2005. Brúttótala
er 1.179.3 milljónir króna fyrir 2018,
en var 1.200,5 milljónir 2017 og
1.122,9 milljónir 2016. Miðað við
meðaltal mismunar á brúttótölum
og nettótölum áranna 2016 og 2017
ætti nettóframlag ríkisins fyrir 2018
að vera nærri 795,2 milljónir króna.
Það þýðir að framlagið til skógræktar
hefur lækkað á milli áranna 2017 og
2018 um nær 39 milljónum króna.
Samkvæmt orðum skógræktarstjóra
nemur lækkunin um 30 milljónum
króna. Er nettótalan fyrir 2018
samkvæmt því 803,9 milljónir.
Varðandi samanburð á framlagi
í nýjasta fjárlagafrumvarpinu
við framlög á árunum strax eftir
efnahagshrunið ber að geta þess
að krónan er mun sterkari nú en þá
svo krónutalan ein og sér segir ekki
endilega alla söguna. Eigi að síður
vekur athygli að krónutalan skuli
lækka á milli áranna 2017 og 2018
þrátt fyrir hástemmdar yfirlýsingar
um að Ísland eigi að vera fyrirmynd
í loftslagsmálum. Í raun hefur lítið
gerst annað í þeim efnum en að
refsað hefur verið með kolefnisgjaldi
þeim námsmönnum, fjölskyldufólki
og einstaklingum á vinnumarkaði,
öryrkjum og öldruðum sem telja sig
nauðsynlega þurfa á bifreiðum að
halda.
AUÐLINDIR&UMHVERFISMÁL
Hörður Kristjánsson
hk@bondi.is
Framlög til skógræktar ekki í neinum takt við
yfirlýsingar um aðgerðir í loftslagsmálum
Mynd /HKr.