Bændablaðið - 08.02.2018, Blaðsíða 22
22 Bændablaðið | Fimmtudagur 8. febrúar 2018
Mengun frá skipum verður vel
sýnileg við vissar aðstæður
Skip sem sigla þvers og kruss
um Atlantshafið brenna miklu
eldsneyti og skilja þar af
leiðandi eftir sig talsvert stór
umhverfisspor. Þetta er ekki alltaf
sýnilegt, en við vissar aðstæður
getur útblásturinn verið áberandi.
Á vef bandaríku geimferða-
stofnunarinnar NASA var birt
MODIS-mynd fyrir skömmu
sem sýnir útblástur frá skipum
undan ströndum Portúgals og
Spánar, sem þeir nefna skipsför
í þunnri skýjabreiðunni í lægri
loftlögum. MODIS stendur fyrir
„Moderate Resolution Imaging
Spectroradiometer“ sem er búnaður
um borð í gervihnettinum Aqua
og var myndin tekin 16. janúar
síðastliðinn.
Þá var á þessum slóðum
uppgufun frá sjónum og við þessar
aðstæður hlaða ákveðnar agnir í
skipsreyknum á sig raka í lægri
loftlögum og verður útblásturinn
þá mjög sýnilegur. Eru droparnir
í þessum skýjarákum sagðir vera
minni en í ómenguðum skýjum þar
í kring.
Slóðirnar sem í sumum tilfellum
teygja sig yfir hundruð kílómetra
er að sjá grennst næst skipunum en
breiða síðan úr sér eftir því sem fjær
dregur. Þetta er ekki ósvipað því
sem gerist þegar útblástur frá þotum
teiknar rákir á himininn. /HKr.
AUÐLINDIR&UMHVERFISMÁL
Áhrif hlýnunar loftslags:
Horfur á uppskerubresti hjá Quechua-
indíánum í Andesfjöllum
Áhrif hlýnunar loftslags
verða stöðugt meira áberandi.
Vísindamenn umhverfisstofnunar
Miami-háskóla hafa komist að því
að áhrifanna gætir m.a. í minni
kartöflu- og maísuppskeru hjá
Quechua-indíánum sem lifa hátt
í Andesfjöllunum í Perú.
Ritað var um málið í vefútgáfu
Science Daily nýverið. Þar kemur
fram að Kenneth Feeley, sem er
yfirmaður í trjálíffræði hjá Miami
háskóla, hefur notið aðstoðar
líffræðingsins Richard Tito sem er
innfæddur Quechua-indíáni, en hann
er einnig aðalhöfundur skýrslu um
málið. Helsta niðurstaðan er að fram
undan séu erfiðir tímar hjá fólki í
dreifbýli Andesfjalla sem lifað hafi
á ræktun ákveðinna afbrigða af
kartöflum og korni mann fram af
manni.
Rækta afbrigði sem þrífast illa
í auknum hita
Gerðu rannsakendur tilraunir með
þau afbrigði sem indíánarnir hafa
nýtt til ræktunar á korni og kartöflum
hátt í Andesfjöllum. Við ræktun á
þeim afbrigðum í hlýrra loftslagi
neðar í fjöllunum, kom í ljós að
þau þrifust illa. Þar var jarðvegurinn
reyndar öðruvísi samsettur en hærra
í fjöllunum.
Kom í ljós að við það að
lofthitinn hækkaði aðeins um 1,3
til 2,6 gráður á Celsíus drápust
nær allar kornplönturnar sem
prófaðar voru. Ástæðurnar voru
margvíslegar. Þær þoldu m.a. ekki
árásir frá skordýrum sem lifðu
við þær aðstæður. Niðurstöðurnar
varðandi kartöflurnar voru jafnvel
enn verri. Flest kartöfluafbrigðin
drápust og þau sem lifðu af voru
svo ræfilsleg og skiluðu svo lélegum
kartöflum að þær voru ekki hæfar til
markaðssetningar.
Vísindamennirnir skoðuðu líka
hvort mögulegt væri að flytja þá
ræktun sem indjánarnir stunda enn
hærra í fjöllin samfara hlýnandi
loftslagi. Niðurstaðan var að slíkt
stæði yfirleitt ekki til boða, þar sem
ræktun indíánanna fer víða fram
nú þegar á fjallstoppum svo hærra
verður ekki komist. Þá kom í ljós
að korn sem ræktað er hærra uppi í
fjöllunum í þynnra lofti skilar mun
rýrari uppskeru.
Treysta ekki erfðatækni, eitri né
aukaefnum
Ræktunarsvæði Quechua-indíán-
anna er í um 3.000 til 4.000 metra
hæð yfir sjávarmáli. Hafa innfæddir
verið því mjög mótfallnir að nota
erfðabreytt afbrigði, tilbúinn áburð
og skordýraeitur til að reyna að
auka uppskeruna. Þeir treysta
einfaldlega á móður náttúru og
gefa engan afslátt af því, enda hluti
af þeirra menningu.
Kenneth Feeley þykir þetta
mjög miður. Segir hann að
bændur á þessum svæðum
skorti margvíslega tækni til
að bregðast hratt við breyttum
loftslagsaðstæðum. Því séu þessir
bændur sjálfir í hættu sem og
milljónir manna í Andeshéruðum
Kólumbíu, Ekvador og í Bólivíu
sem reiði sig á þeirra uppskeru.
/HKr.
Mynd / Saúl M. Tito
NASA segir árið 2017 það næst-
heitasta á jörðinni síðan 1880
– Vísindamenn NOAA segja árið það þriðja heitasta síðan mælingar hófust
Árið 2017 var annað heitasta
árið á jörðinni frá því skipulegar
hitamælingar hófust um allan
heim árið 1880, samkvæmt frétt
NASA og NOAA. Heitasta árið
var 2016.
Meðalhitinn á jörðinni á
síðasta ári var 0,9 gráðum hærri
en á tímabilinu 1951 til 1980 að
sögn vísindamanna hjá Goddard
stofnun NASA sem vinna við
geimrannsóknarverkefni GISS
rannsóknarstöðvarinnar í New York.
Samkvæmt annarri ótengdri
rannsókn v ís indamanna
hjá Alþjóðlegu haf- og
loftslagsstofnuninni NOAA
(National Oceanic and Atmospheric
Administration), var árið 2017
þriðja heitasta árið. Mismunurinn
á niðurstöðum NOAA og NASA
er sögð liggja í aðferðarfræðinni
við útreikningana og staðsetningu
mælitækja. Þrátt fyrir mismuninn
er heildarniðurstaðsn keimlík og hjá
báðum hópum eru fimm hlýjustu
árin eftir 2010.
Ef allt er talið með telja
vísindamenn NASA að nákvæmni
mælinganna sé með um 95%
nákvæmni. Þar á bæ styðjast
menn við mælingar frá 6.300
veðurstöðvum á sjó og landi og
mælingar á sjávarhita með baujum
og skipum.
Vísindamenn NOAA styðjast við
mjög svipaðar mælingar, en nota
aðeins öðruvísi úrvinnsluaðferðir.
Hitabreytingarnar eru mestar
á norðurhveli jarðar og heldur
ísþekjan á norðurpólnum áfram að
minnka.
Oft heyrast þær gagnrýnisraddir
að tal um hlýnun loftslags standist
ekki þegar litið er á kólnun á sumum
svæðum jarðar. Þessu svarar Gavin
Schmidt, yfirmaður GISS hjá
NOAA, með því að í heild hafi
hitinn á jörðinni verið að hækka ört
síðustu 40 ár. Meðalyfirborðshiti
jarðar hafi hækkað um eina gráðu á
Celsíus á undanförnum 100 árum.
Það séu breytingar sem drifnar
séu áfram af aukinni losun manna
á koltvísýringi út í andrúmsloftið.
Síðasta ár sé þriðja árið síðan hitinn
hækki um meira en eina gráðu á
Celsíus miðað við meðaltalshita á
tuttugustu öldinni.
Þrátt fyrir þekkta veðuráhrifa-
valda, eins og El Niño og La Niña
sem hita og kæla lofthjúpinn á
Kyrrahafssvæðinu á víxl, þá hafi
hitinn hækkað 2017 þvert á það
sem búast mátti við vegna áhrifa af
La Niña. Var meðalhitinn á síðasta
ári mitt á milli þess sem mældist á
árunum 29015 og 2016.
Segja vísindamenn NASA að
ef áhrif af El Niño og La Niña eru
tekin út úr reikniformúlunum, þá
hefði árið 2017 verið það heitasta
í sögunni. /HKr.
Mynd / NASA/LANCE/EOSDIS
Meirihluti norska þingsins fer
þess nú á leit við ríkisstjórn
landsins að leggja áherslu á
málefni um að setja upp kornlager
með varabirgðum árið 2019 til að
mæta ófyrirséðum truflunum á
innflutningi matvæla.
Málið var tekið fyrir í
atvinnunefnd þingsins í síðustu viku
og segir formaður nefndarinnar,
Geir Pollestad, að mikill meirihluti
sé fyrir því í þinginu að byggja eigi
upp eigin lager af matkorni í Noregi
þar sem varabirgðir séu geymdar.
„Við biðjum ekki um að
ríkisstjórnin íhugi þörf fyrir
lager með varabirgðum heldur að
kostnaðargreina verkefnið, hversu
lengi við ætlum að hafa slíkan lager
og aðra hagnýta hluti sem tengjast
þessu,“ segir Geir í samtali við
Nationen.
Nils Kristen Sandtrøer hjá
Verkamannaflokknum segir
að flokkurinn leggi áherslu á
málefnið vegna loftslagsbreytinga
og almennra öryggisþátta.
Loftslagsbreytingar leiði af sér
meiri áskoranir fyrir kornrækt í
landinu og að í nánustu framtíð
verði meiri þurrkar á ákveðnum
svæðum í heiminum þar sem í dag
er stunduð mikil kornrækt. Þetta
þýði að Noregur þurfi hagnýta og
sterka stefnu sem skapi jafnframt
störf og verðmætasköpun í landinu.
Meirihluti þingsins leggur
áherslu á að matvælaöryggi í
Noregi sé tryggt með innlendri
framleiðslu, verslun og að standa
vörð um framleiðsluna. Framboð
innan matvælageirans byggist
bæði á innlendri framleiðslu og
innflutningi sem verði einnig að
vera hægt að viðhalda þegar kreppir
að. Því snýst málið ekki um að loka
á erlenda markaði því neytendur í
Noregi séu háðir því að flytja inn
mikilvæg matvæli, vélar og tæki.
/ehg - Nationen
Norðmenn hyggjast tryggja fæðuöryggið:
Vilja setja upp kornlager
með varabirgðum
– Ætlað að mæta innflutningstruflunum matvæla