Dagblaðið Vísir - DV - 24.07.2020, Blaðsíða 40

Dagblaðið Vísir - DV - 24.07.2020, Blaðsíða 40
40 FÓKUS 24. JÚLÍ 2020 DV Fjölskylduhornið Sérfræðingur svarar Kristín Tómasdóttir hjónabandsráðgjafi svarar spurningum lesenda um málefni er varða fjölskylduna, börnin og ástina í Fjölskylduhorni DV. Að þessu sinni svarar Kristín spurningu lesanda sem hefur áhyggjur af skjátíma dóttur sinnar. DÓTTIR MÍN ER ALLTAF Í IPADNUM É g held að dóttir mín sé með alvarlega skjá-fíkn. Hún vill helst vera í símanum eða iPadn- um frá hún vaknar og þar til hún fer að sofa. Ég skal viðurkenna að þetta vanda- mál er að hluta til okkur for- eldrunum að kenna því við vorum greinilega ekki nógu ströng á skjátíma og þetta hefur því þróast áfram í þetta. Stelpan okkar er tólf ára og það er farið að vera mjög erfitt fyrir hana að vakna á morgnana. Í vetur leyfðum við henni því stund- um að fá iPadinn upp í rúm til að hún vaknaði frekar, og nú vaknar hún helst ekki án hans. Hún er alveg dugleg að hitta vinkonur og vera úti þegar það er gott veður, en þegar hún er heima vill hún bara vera á TikTok eða á YouTube. Okkur for- eldrunum finnst samband okkar við hana því vera að versna því við erum að fjarlægjast hana. Er þetta kannski bara hluti af því að verða táningur? Okkur finnst við þurfa að stíga inn með skýrum reglum en finnst við svolítið hafa klúðrað því að hafa ekki verið með þær frá upphafi. Hvernig er best að byrja á slíku? Væri gott að vera með verðlaunakerfi, og þá hvernig verðlaunakerfi? MYND/GETTY Áhugamál eða fíkn? Sæl og takk fyrir spurning- una. Þetta vandamál er eitt- hvað sem margir nútíma- foreldrar kannast því miður of vel við og ef það væri til einföld lausn þá væru allir að nota hana. Það fyrsta sem mér dettur í hug er hvort hægt sé að vekja áhuga á einhverju öðru en Ipad og síma? Getur verið að stelpunni ykkar leiðist eða að önnur áhugamál geti dregið úr skjátímanotkun? Þið nefnið TikTok og YouTube, þar er t.d. að finna dans og tónlist. Er það eitthvað sem hægt er að virkja á öðrum vettvangi? Þegar stelpur eru spurðar hvað það er sem framkallar helst hjá þeim jákvæða sjálfs- mynd þá nefna þær eitthvað sem tengist áhugamálunum þeirra. Sem dæmi má nefna: góð í fótbolta, flink að syngja eða gaman að lesa og teikna. Ástæðan er sennilega sú að þarna finna þær fyrir for- skoti á jafningja sína, finna til sín og vita að þær eru sterkar á ákveðnu sviði. Þetta er mjög mikilvægt, en okkur fullorðna fólkinu hættir til að ákveða að áhugamál séu bara eitthvað sem börn æfa milli kl. 15–17 á virkum dögum. Þar gætir ákveðins misskiln- ings því áhugamál geta tengst einhverju sem þær búa yfir mikilli þekkingu á og hafa kynnt sér vel. Það getur verið áhugamál að safna frímerkj- um eða servíettum. Sömuleið- is getur það verið áhugamál að vita mikið um nútímatón- listarsögu eða kunna að út- búa sykurmassaskreytingu á köku. Um allt framangreint er hægt að afla sér þekk- ingar á YouTube. Getur verið að þið getið aðstoðað hana við að verða virkari, vekja hjá henni áhuga á einhverju í raunheimum, einmitt með að- stoð þess sem hún elskar hvað mest þ.e. YouTube? Í þessu samhengi velti ég því fyrir mér hvort það geti verið ráð að ákveða hvort þið viljið leggja áherslu á minnk- aðan skjátíma eða uppbyggi- legan skjátíma. Má hún vera í Ipadnum eða síma ef hún er að sinna heimanámi? Kynna sér eitthvað efni sem hún hefur áhuga á? Er hún sterk í félagslegum samskiptum? Nýtir hún símann í þau og gerið þið þá undantekningu á skjánotkun? Væri s.s. hægt að nýta áhuga hennar á sím- anum til þess að hún afli sér þekkingar sem raunverulega getur nýst henni, styrkt hana og eflt? Þarna reynir einmitt á ykkur foreldrana og sam- band ykkar við dóttur ykkar sem þú nefndir að hafi dofnað í tengslum við skjánotkun. Er hægt að snúa þessu við og efla ykkar tengsl með því að blanda ykkur inn í líf hennar á skjánum? Jákvæð styrking Mér er mjög minnisstætt viðtal sem ég horfði á fyrir nokkru við norskan föður fatlaðs drengs. Drengurinn var með hrörnunarsjúkdóm og hafði verið rúmliggjandi í mörg ár. Hans eina afþreying var í gegnum tölvu en hann var virkur í tölvuleiknum World of Warcraft. Foreldrar hans höfðu miklar áhyggjur af skjánotkun hans, en fötlun- arinnar vegna var ekki mikið annað í boði. Því miður lést drengurinn þeirra rúmlega tvítugur að aldri. Þegar það gerðist fór foreldrum hans að berast samúðarskeyti frá hinum ýmsu heimshornum. Í jarðarförina mættu vinir hans, mörg hver með flug- vél frá fjarlægum löndum. Á þessu augnabliki áttuðu foreldrar hans sig á því að strákurinn þeirra var virkur þátttakandi í fremur fordóma- lausu samfélagi þar sem hann átti vini og kærustu, þar sem hann var samþykktur og laus við allar sínar hamlanir. Ein mesta eftirsjá foreldra hans sneri að því að þau höfðu ekki kynnt sér hvað hann var að gera í tölvunni. Aftur á móti mættu þau á hvern einasta handboltaleik hjá dóttur sinni, þekktu allar stelpurnar í lið- inu hennar, foreldra þeirra og þjálfarann. Líf sonarins var þeim algjörlega óþekkt og í viðtalinu hvöttu þau foreldra til þess að fylgjast með og kynna sér, reyna að taka þátt í því sem börnin þeirra eru að gera í tölvunni. Þetta er að sjálfsögðu dálítið ýkt dæmi- saga en þetta minnir okkur á að í tækninni felst líka fram- tíðin og við foreldrar þurfum að kynna okkur hana vel til þess að geta verið virkir þátttakendur í lífi barnanna okkar. Nú svo er það margsann- að að rammi, mörk, jákvæð styrking og skýr skilaboð reynist börnum frekar vel. Öll óvissa getur kallað á kvíða, við hræðumst það sem við þekkjum ekki. Ef barnið ykkar er óvisst með hvað ann- að hún getur gert eða hversu langur skjátíminn hennar raunverulega er, þá getur það einmitt hvatt hana til frekari skjánotkunar. Ef börn halda að þau séu að fara að missa skjátíma þá nota þau þann tíma sem þau hafa í skjáinn. Í jákvæðri styrkingu felst að það sem barninu ykkar finnst eftirsóknarvert er notað sem verðlaun í stað refsingar. Að stelpan ykkar fái skjátíma þegar hún er búin að sýna hegðun sem er æskileg. Sem dæmi má nefna að ef hún fer fram úr, borðar morgunmat, burstar tennur og býr um rúmið sitt, er þá í boði að fá skjátíma? Ef um refsingu væri að ræða þá yrði skjátím- inn minnkaður yfir daginn ef hún myndi grípa í símann um leið og hún vaknar. Fyrri möguleikinn er líklegri til árangurs en sá seinni. Kynnist barninu betur Ég skil áhyggjur ykkar vel, kæru foreldrar, en mín hvatning til ykkar snýr að því að snúa vörn í sókn. Reynið að beina hegðun dóttur ykkar í jákvæðari farveg með því að gefa henni það sem henni finnst eftir- sóknarvert (skjátíma) þegar hún hefur sýnt þá jákvæðu hegðun sem þið viljið sjá. Kynnið ykkur hvað hún er að fást við og hvort hægt sé að efla hana á sömu sviðum í raunheimum. Endilega verið skýr, setjið ramma og munið að þið eruð foreldrarnir sem megið draga mörk. Að lokum, þetta er landlægur vandi og það eitt hvað þið hafið miklar áhyggjur af þessu gefur mér merki um að þið eruð að gera eitthvað rétt. Haldið áfram að vanda ykkur svona og þá verður þetta allt í lagi. n Við hvetjum lesendur til að senda spurningar og vangaveltur sínar til Kristínar í tölvupósti á: hjonabandssaela@gmail.com. Spurningunum verður svo svarað hér í Fjölskylduhorninu, að sjálf- sögðu nafnlaust og í fullum trúnaði.

x

Dagblaðið Vísir - DV

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.