Morgunblaðið - 04.01.2020, Qupperneq 42
42 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 4. JANÚAR 2020
Helgi Snær Sigurðsson
helgisnaer@mbl.is
Víóluleikarinn Ásdís Valdimarsdóttir
hefur hlotið lofsamlega gagnrýni fyr-
ir hjómplöturnar The Voice of the
Viola in Times of Oppression, Vol. I
og II, sem hún vann í samstarfi við
hollenska píanóleikarann Marcel
Worms og gefnar voru út af hol-
lenska plötuútgáfunni Zefir Records.
Hefur útgáfan verið tekin til kost-
anna af hinum ýmsu tónlistar-
gagnrýnendum, m.a. á hollensku
vefjunum Opus Klassiek og Basia
con fuoco.
Ásdís er einn fremsti víóluleikari
Íslands, hlaut meistaragráðu frá hin-
um virta listaháskóla Juilliard í New
York og lauk síðar einleikaraprófi í
Þýskalandi, árið 1987. Hún hefur
komið víða við á glæsilegum ferli sín-
um, leikið í sex heimsálfum og var um
átta ára skeið í hinum heimsþekkta
strengjakvartett Chilingirian sem
hún lék með hér á landi á Listahátíð í
Reykjavík árið 1998. Þá hefur hún
leikið í mörgum bestu tónleikasölum
heims, m.a. Carnegie Hall í New
York og Wigmore Hall í London, leitt
víóluhópinn Deutsche Kammerphil-
harmonie og unnið með fjölda
þekktra tónlistarmanna.
Stærri rödd
„Þetta er tónlist samin að mestu í
kringum millistríðsárin af tón-
skáldum sem þurftu að flýja ein-
hverra hluta vegna,“ segir Ásdís um
The Voice of the Viola in Times of
Oppression sem gefin var út á tveim-
ur diskum, sem fyrr segir, hinum
fyrri í september 2018 og hinum
seinni í apríl 2019. Á diskunum má
m.a. finna verk eftir Mieczysław
Weinberg, Dick Kattenburg, Max
Vredenburg, Dmitri Shostakovitsj og
Felix Mendehlsson.
Spurð út í hina jákvæðu dóma seg-
ir Ásdís að útgáfan hafi ratað á
nokkra lista yfir þær bestu á árinu
2018 og nefnir einnig að hollenska
tímaritið Luister, sem þýðir „hlust-
ið“, hafi gefið plötunni fullt hús stiga,
eins og fleiri miðlar.
Ásdís hefur leikið inn á margar
plötur með kammersveitum en þess-
ar eru þær fyrstu sem hún gerir með
píanista. Hún segir að mörgu leyti
skemmtilegra að vinna að plötu með
einum tónlistarmanni en mörgum.
„Þetta er meira þitt eigið,“ útskýrir
hún, „í kammermúsíkinni er ég meira
í milliröddunum sem víóluleikari en ef
maður er bara að spila sónötur hefur
maður stærri rödd, leikur stærra
hlutverk.“
Næsta hljómdisk tekur hún upp í
febrúar strengjatríói sínu, Quimias
Trio og mun hann innihalda öll
strengjatríó Beethovens. Diskurinn
verður gefinn út af sama fyrirtæki og
The Voice of the Viola in Times of
Oppression, Zefir Records, í haust.
Leikur í Hörpu 15. mars
Ásdís býr og starfar í Amsterdam
en var stödd á Íslandi þegar blaða-
maður sló á þráðinn til hennar. Hún
kennir nú við Konunglega tónlistar-
háskólann í Haag en í tæp tíu ár flaug
hún vikulega til Manchester til að
kenna þar við Royal Northern Coll-
ege of Music, einn þekktasta tónlist-
arskóla heims. Hún er önnum kafin
sem víóluleikari, leikur í einum
kammerhópi í London og tveim öðr-
um í Amsterdam, auk þess að leika
með hinum og þessum hér og þar.
„Í mars kem ég með vini mína til
Íslands að spila tvo stóra píanókvint-
etta fyrir Kammermúsíkklúbbinn,“
segir Ásdís. Tónleikarnir fara fram í
Hörpu 15. mars og verða það sjöttu
tónleikar Kammermúsíkklúbbsins á
tónleikaárinu 2019-20.
Rússneski píanóleikarinn Elisa-
veta Blumina kemur fram á tónleik-
unum ásamt fiðluleikurunum Daniel
Sepec og Konsatnze Lerbs. Sepec er
konsertmeistari þýsku kammer-
fílharmóníusveitarinnar í Bremen og
Lerbs leikur einnig þar. Eiginmaður
Ásdísar, Michael Stirling, sem leiðir
sellóin í Hollensku útvarpsfílharm-
óníunni, leikur einnig með og munu
þau flytja píanókvintett op. 18 eftir
M. Weinberg og píanókvintettinn
fræga op. 81 eftir A. Dvorák.
Saknar sundlauganna
Ásdís hefur búið erlendis frá 18 ára
aldri, allt frá því hún hélt til náms í
New York. Hún er spurð að því hvort
hún sé laus við heimþrána og segir
hún svo ekki vera. „Ég var alltaf á
leiðinni heim en alltaf kom eitthvað
spennandi upp á sem hélt mér úti
lengur,“ segir hún kímin. Nú síðast
hafi hún keypt sér rándýra flugmiða
til Íslands á síðustu stundu til að geta
heimsótt fjölskylduna og farið í sund.
„Eitt af því sem ég sakna mest frá Ís-
landi er að komast í laugarnar. Það
eru sundlaugar í Amsterdam en þær
eru bara engan veginn sambærilegar,
hafa ekki þetta íslenska heita vatn
sem er svo æðislegt. Ég kem heim
eins oft og ég get, líka næstkomandi
sumar til að vera með í Reykholts-
hátíðinni,“ segir Ásdís.
Rödd víólunnar á tímum kúgunar
Ásdís Valdimarsdóttir víóluleikari hefur hlotið lofdóma fyrir tvær hljómplötur sem hún vann með
píanóleikaranum Marcel Worms Verk eftir tónskáld sem sættu ofsóknum Leikur í Hörpu í mars
Ljósmynd/Ben Bonouvrier
Einbeitt Ásdís á tónleikum með hljómsveit sinni á International Viola Congress í Rotterdam árið 2018. Flutti hún þar sónötu eftir Weinberg og fleiri verk.
Við hlið hennar sést hollenski píanistinn Marcel Worms sem vann með henni að diskunum The Voice of the Viola in Times of Oppression.
Stórsveit Reykjavíkur fagnar nýju
ári með hinum árlegum sveiflu-
aldartónleikum sínum í Eldborgar-
sal Hörpu, annað kvöld, sunnudag
og hefjast þeir kl. 20.
Þetta verður í sjöunda sinn sem
sveitin heldur slíka stórtónleika
helgaða swing-tímabilinu eða gull-
öld sveiflunnar en svo er tímabil ár-
anna 1930 til1950 iðulega kallað, en
ný efnisskrá er flutt á hverju ári.
Í tilkynningu segir að þetta verði
glæsilegir galatónleikar þar sem
ekkert verði „til sparað við að end-
urskapa frumgerðir glæsilegustu
laga gullaldarinnar. Leikin vera
mörg af þekktustu lögum merkustu
stórsveita swing-stílsins“ svo sem
eftir Benny Goodman, Artie Shaw,
Jimmy Lunceford, Cab Calloway,
Charlie Barnet, Les Brown, Glenn
Miller, Duke Ellington og Count
Basie.
Gestasöngvarar með stórsveit-
inni á tónleikunum verða þau
Björgvin Franz Gíslason, KK og
Stína Ágústsdóttir. Einnig koma
dansarar í heimsókn.
Stjórnandi og kynnir eins og svo
oft áður verður saxófónleikarinn
og tónskáldið Sigurður Flosason.
Í frétt í blaðinu í gær var rang-
lega getið um dagsetningu tón-
leikanna og hverjir yrðu gestir á
tónleikunum. Er beðist velvirð-
ingar á þeim mistökum.
Sveiflumeistarar Meðlimir Stórsveitar Reykjavíkir á góðum degi. Þeir
flytja sívinsæla gullaldarsveiflutónlist í Hörpu á morgun.
Gullaldarsveifla
Stórsveit Reykjavíkur í Eldborg