Morgunblaðið - 27.06.2020, Blaðsíða 24

Morgunblaðið - 27.06.2020, Blaðsíða 24
24 UMRÆÐAN MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 27. JÚNÍ 2020 Íslendingar búa svo vel að geta lesið forngrísku harmleikjaskáldinÆskýlos, Sófókles og Evrípídes í hátignarlegum þýðingum HelgaHálfdanarsonar. Hér er kórljóð úr leikritinu Antígónu eftir Sófókles;stuðlar og höfuðstafir eru viðbót þýðandans að íslenskum sið: Margt er undrið, og mun þó víst maðurinn sjálfur undur stærst. Þar sem ólgandi hrímgrátt haf hrannast úfið í vetrar byl, ristir hann kembdan kólgu-skafl kili traustum á viðsjálsleið. Móður guðanna, gömlu Jörð gróskuríka, svo aldrei þverr, markar hann sér til sáðs hvert vor, svörðinn skárar með klári og plóg. Helgi þýddi ekki úr beint úr frummálinu; það gerði aftur á móti Grímur Thomsen en eftir hann liggur mikið þýðingarstarf úr grísku. Grímur snaraði þessu sama erindi svo – og notar ekki aðeins stuðla heldur líka endarím þannig að bragurinn verður rammíslenskur: Margt er undrið; manneskjunni meira finnst ei neitt; svalar fer hún yfir unnir, yfir hafið breitt; þó að storma belji bræði, bláan ljósti og ýfi græði, henni allt er eitt. Móður allra meir ei vægir, maðurinn ótæpt holdið plægir járni jarðar feitt. Gamanleikjaskáldið Aristófanes eignaðist verðugan umboðsmann á Íslandi í Kristjáni Árnasyni, bókmenntafræðingi, sem þýddi leikritin Lýsiströtu og Þingkonurnar beint úr grísku. Lýsistrata merkir ‘sú sem leysir upp her’ – titill- inn er dreginn af nafni aðalpersónunnar – og fjallar af afkáralegri kímni um kynlífsverkfall aþenskra kvenna í því skyni að knýja karlana til að semja um frið í Pelópseyjarstríðinu þar sem Aþeningar börðust við Spartverja. Þingkon- urnar leiftra kannski ekki af sömu sprúðlandi snilld en leikritið er engu að síð- ur áhugavert fyrir samtíma okkar. Þar taka konurnar í Aþenu völdin af karl- mönnum í stjórn borgríkisins og innleiða stjórnarhætti í anda róttæks kommúnisma. Þeir Helgi og Kristján þýddu líka forngrískan ljóðrænan skáldskap með mikilli hind. Sýnishorn af þýðingarlist þeirra er smáljóð eftir skáldkonuna Saffó frá Lesbos. Hún var upp á sitt besta um 600 f. Kr. og hefur verið kölluð „elsta kvenrödd Vesturlanda sem varðveist hefur“. Helgi þýðir svo: Sjöstjarnan horfin, og hniginn/er máninn í miðnætur-húmið: langþráða stundin er löngu/liðin, – ég vaki þó ein. Í meðförum Kristjáns fáum við hins vegar næstum orðrétta þýðingu úr grísku: Siginn er máni í sæinn/og Sjöstirnið horfið á miðri nóttu. Nú er á förum/stundin, og enn ligg ég ein. Hér skiptir hæg hrynjandi og hárfín þögn á réttum stöðum ekki síður máli en orðin sjálf. Lengi er von á einum. Nýlega þýddi Þorsteinn Vilhjálmsson nokkur ljóðbrot eftir Saffó sem fundust í fornum ruslahaugi í Egyptalandi, þar á meðal þetta: Aftur skekur mig þráin sem losar limi – ljúfsárt, ósigrandi skriðdýr. Þannig bætist smám saman við í þýðingaforðann úr klassískum bók- menntum. Viðureignin við forna texta heldur áfram að auðga og styrkja ís- lenska tungu. „… ljúfsárt, ósigr- andi skriðdýr“ Tungutak Þórhallur Eyþórsson tolli@hi.is Skáld- konan Saffó: Tíunda söngva- gyðjan. Átímum sem þessum opnast möguleikar á rót-tækum breytingum til hins betra …,“ sagðiHalldóra Mogensen, þingmaður Pírata, í eldhúsdagsumræðum á Alþingi sl. þriðju- dagskvöld. Þetta er rétt hjá þingmanninum. Það er einmitt á tímum sem þessum, sem jarðvegur skapast fyrir þjóð- félagslegar umbætur. Fólk sér veikleikana í samfélag- inu í skýrara ljósi og er opnara fyrir breytingum. Og þar sem þingkosningar verða í síðasta lagi á næsta ári er ekki ólíklegt að þær kalli á einhverja upp- stokkun á því sem er. Það fer ekki á milli mála, að það eru mörg tilefni til breytinga í okkar samfélagi. Meðferð á sameiginlegum eignum þjóðarinnar er enn eins og opið sár á þjóðarlík- amanum og gengur svo nærri fólki, að það er óhjá- kvæmilegt að þar verði breytingar á. Þeir sem reyna að spyrna við fótum gegn breytingum á þeim vettvangi dæma sjálfa sig úr leik. Alaskaleiðin, sem Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi formaður Alþýðuflokksins, vakti athygli á fyrir skömmu, er athyglisverð. Í Alaska er meðferðin á sameig- inlegum auðlindum sú, að gjald er greitt fyrir nýtingu þeirra og það lagt í sérstakan sjóð. Hver einasti íbúi Alaska fær ár hvert senda ávísun, sem er hlutdeild í ávöxtun sjóðsins. Þetta er einföld aðferð, skýr og skiljanleg og mundi stuðla að sáttum í okkar samfélagi vegna nýtingar á auðlindum hafsins. Gjald- takan sjálf er þegar til staðar, þótt enn sé deilt um upp- hæðir. Á næstu árum munum við kljást við efnahagslegar af- leiðingar kórónuveirunnar. Þótt okkur og nágranna- þjóðum okkar hafi tekizt vel að ná tökum á henni er hún í fullu fjöri í öðrum heimshlutum, bæði á meginlandi Ameríku og í Asíu. Hættan á að hún vakni á ný hér er augljóslega yfirvofandi. Kostnaður þjóðarbúsins vegna veirunnar, sem hefur lagt heila atvinnugrein að velli, er gífurlegur. Og sá kostnaður mun ganga nærri okkur á næstu árum. Þess vegna þurfum við að bregðast við. Eitt af því sem við blasir er að „yfirbyggingin“ á okkar litla samfélagi er orðin of mikil og of dýr. Og vegna þess að við göngum til forsetakosninga í dag vill greinarhöfundur ítreka þá skoðun, sem áður hefur verið sett fram, að við eigum að leggja forsetaembættið niður. Við þurfum ekki á sér- stökum „þjóðhöfðingja“ að halda. Alþingi er sú stofnun sem stendur djúpum rótum í okkar samfélagi og spratt upp úr því. Við þurfum ekki á einhvers konar ígildi dansks kóngs (eða drottningar) að halda. Forseti Alþingis hverju sinni getur sinnt þeim störfum. Þar er á ferðinni alíslenzkt embætti sem á sér langa sögu. En jafnframt eigum við að nota það tækifæri sem Halldóra Mogensen bendir á að er að opnast til þess að skera utan af yfirbyggingu samfélags okkar þann óþarfa kostnað, sem orðið hefur til og alltaf verður til í opinberum kerfum. Þá er að sjálfsögðu ekki átt við heilbrigðisþjónustu eða velferðarþjónustu svo að dæmi séu nefnd, heldur þann óþarfa kostnað sem verður til í þeim kerfum sem ekki þurfa að hugsa um hvaðan tekj- urnar eiga að koma til að standa undir kostnaði. Kerfið kann að hækka skatta, þegar þörf er á. Þetta á ekki bara við um ríkið, heldur sveitarfélögin líka. Nú er töluvert talað um sameiningu sveitarfélaga og það af eðlilegum ástæðum. Í sveitarfélögum, stórum og smáum, verður til óþarfa kostnaður ekki síður en hjá ríkinu. Og þau eiga hægt um vik að hækka útsvar eða fasteignaskatta, ef nauðsyn krefur. En það er eftirtektarvert í þeim umræðum, hversu lítið er talað um sameiningu sveitarfélaga á höfuð- borgarsvæðinu. Athyglin virðist öll beinast að sveitar- félögum á landsbyggðinni. Áratugum saman hefur blasað við að hægt er að spara stórar upphæðir af al- mannafé með því að sameina sveitarfélög á höfuðborgarsvæð- inu. Þar hafa orðið til margföld kerfi, sem í grundvallaratriðum veita sömu þjónustu. Á höfuðborgarsvæðinu eru sex sveitarstjórnir, sex borgar- og bæjarskrifstofur og af- leiddar stofnanir með öllum þeim kostnaði, sem því fylgir, þótt augljóst sé að þeim er hægt að fækka og ná fram með því mikilli hagræðingu. Sennilega er of langt gengið að sameina þessi sex sveitarfélög í eitt en það er hægt að hugsa sér samein- ingu Reykjavíkur, Kópavogs, Seltjarnarness og Mos- fellsbæjar í eitt sveitarfélag og Hafnarfjarðar og Garða- bæjar í annað. Á landsbyggðinni er augljóst að sum núverandi sveitarfélaga eru svo fámenn að þau hafa af þeim sök- um ekki burði til að standa undir margvíslegri þjónustu sem krafizt er af sveitarfélögum. Og þegar af þeim ástæðum er tilefni til að sameina þessi litlu sveitarfélög í stærri einingar. Þetta er fyrsta verkefnið sem takast ætti á við á næstu misserum og árum og mundi spara mikið fé, sem er nauðsynlegt vegna faraldursins og kostnaðar við hann. Hjá ríkinu ætti fyrsta verkefnið að vera að horfast í augu við að örríki eins og okkar, sem hefur nákvæm- lega engin áhrif í samskiptum þjóða á alþjóðavettvangi, þarf ekki á þeirri útblásnu utanríkisþjónustu sem hér hefur verið byggð upp að halda. Við eigum að fækka sendiráðum í öðrum löndum verulega og þar með þeim embættum sem þau kalla á og sníða okkur stakk eftir vexti í þeim efnum. Þau „hagsmunaöfl“ sem eru til staðar í þessum kerf- um öllum munu berjast um á hæl og hnakka til að koma í veg fyrir svo sjálfsagðar breytingar. En þau hagsmunaöfl er hægt að brjóta á bak aftur eins og önnur hagsmunaöfl með sameiginlegu átaki þjóðarinnar allrar. „Yfirbyggingin“ er of mikil og of dýr Sameining sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu ætti að verða fyrsta verkefnið. Af innlendum vettvangi … Styrmir Gunnarsson styrmir@styrmir.is Almannaveitur upplýsinga, einsog óhætt er að kalla Facebook, Twitter og Amazon, eru teknar upp á því ritskoða fólk, vegna þess að það er talið hafa fráleitar eða ógeð- felldar skoðanir, þótt ekki sé að vísu alltaf full samkvæmni í þeirri rit- skoðun. Full ástæða er til að spyrna hér við fótum. Frelsið er líka frelsi til að hafa fráleitar eða ógeðfelldar skoðanir. Um þetta orti gamli Grundtvig: Frihed lad være vort Løsen i Nord, Frihed for Loke saavel som for Thor. Frelsið sé lausnin í Norðri: frelsi Loka ekki síður en Þórs. Loki var sem kunnugt er blendið goð, slæg- viturt, en illgjarnt. Þór var hins vegar hreinn ás og beinn. Til dæmis hefur einn samkennari minn, Þorvaldur Gylfason, látið að því liggja á Facebook, að þeir Richard Nixon og George H. W. Bush hafi verið viðriðnir morðið á Kennedy Bandaríkjaforseta. Hann hefur á sama vettvangi sagt hæpið, að Stórhýsið 7 World Trade Center við Tvíburaturnana í New York hafi hrunið vegna elda í hryðjuverka- árásinni 11. september 2001, en ýmsar samsæriskenningar eru á kreiki um, að það hafi verið sprengt upp. Ég tel þessar kenningar fráleit- ar, en frelsið er líka frelsi Þorvaldar til að halda þeim fram. Þorvaldur hefur enn fremur skrif- að á Facebook: „Sjálfstæðismenn sem tala um lýðræði orka nú orðið á mig eins og nasistar að auglýsa gas- grill.“ Auðvitað er þessi samlíking hans ógeðfelld og til þess fallin að gera lítið úr hinni hræðilegu helför. En frelsið er líka frelsi Þorvaldar til að komast ósmekklega að orði. Við bönnum ekki áfengið út af rónanum, þótt við ráðum hann vitan- lega ekki til að afgreiða í vínbúð. Og við tökum ekki málfrelsið af fólki, þótt sumir láti í ljós fráleitar eða ógeðfelldar skoðanir. Við erum ekki að samþykkja þessar skoðanir með því að umbera þær eða þola. Virða ber frelsi Loka ekki síður en Þórs. Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar Hannes H. Gissurarson hannesgi@hi.is Fróðleiksmolar úr sögu og samtíð Frelsi Loka ekki síður en Þórs Hamraborg 12 200 Kópavogur 416 0500 www.eignaborg.is ÁRANGUR Í SÖLU FASTEIGNA Faxafen 12 og Síðumúli 15, 108 Reykjavík Hringið og pantið skoðun Upplýsingar gefur Óskar Bergsson lgfs. sími 893 2499, oskar@eignaborg.is Til leigu eða sölu: • Í Faxafeni er rýmið á einni hæð í suðurenda hússins næst Miklubraut. Kerfisloft með góðri lýsingu, nýlegt harðparket á verslunarrými og teppi á lager. Stórir gluggar. Lofthæð 3,4 m. Rýmið skiptist í verslun og lager. • Í Síðumúla eru 200 m2 lausir á annarri hæð og 100 m2 á þriðju hæð. Stærðir 100 - 200 fm

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.