Morgunblaðið - 01.10.2020, Qupperneq 33
33
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 1. OKTÓBER 2020
Hálka Ökumenn lentu víða í vanda á suðvesturhorninu í gærmorgun, þegar lúmsk hálka myndaðist á vegum. Þannig varð umferðaróhapp á Suðurlandsvegi, skammt frá Hádegismóum.
Árni Sæberg
Veljum íslenskt því aukin inn-
lend framleiðsla skapar meiri
verðmæti og minni sóun til fram-
tíðar. Með því að velja íslenskar
vörur og þjónustu efla Íslend-
ingar samfélagslega ábyrgð sína
til frekari uppbyggingar ís-
lenskra atvinnugreina og auka
samkeppnishæfni landsins til
framtíðar. Aukin framleiðsla inn-
anlands kallar á fleiri vinnandi
hendur sem felur í sér aukna inn-
lenda verðmætasköpun sem eyk-
ur velferð þjóðarinnar. Með auknum við-
skiptum á innanlandsmarkaði bæta landsmenn
lífskjör sín horft til framtíðar og efla atvinnu á
Íslandi. Mikil sóun og flutningur á vörum milli
landa sem auka mengun og óhollustu mun eiga
þyngra undir fæti horft til framtíðar. Matvæli
sem ekki eru framleidd með sjálfbærum hætti
munu eiga erfiðan róður. Íslensk framleiðsla
eflir atvinnustig, verkkunnáttu, vöruþróun og
samfélagslega ábyrgð á Íslandi. Á Íslandi er
fólk í fremstu röð á sviði hugvits, hönnunar,
handverks, lista og matvælaframleiðslu. Verk-
kunnátta iðnaðarfólks er framúrskarandi á
mörgum sviðum. Íslenskur landbúnaður hefur
getið af sér afurðir á heims-
mælikvarða eins og íslenska
lambakjötið, kjúklingaafurðir,
nautakjötið, skyrið, osta og aðrar
mjólkurafurðir.
Íslenskur landbúnaður á mikið
inni í hreinni og ómengaðri fram-
leiðslu og sjálfbærni. Ylrækt getur
orðið stóriðja 21. aldar á Íslandi ef
hugarfar og stolt þjóðarinnar er
rétt. Verð og eftirspurn eftir heil-
næmum íslenskum landbúnaðar-
afurðum á einungis eftir að aukast
á næstu árum og mikil sóknarfæri
eru í ylrækt með endurnýjanlegri
orku. Mikilvægi innlendrar framleiðslu og auk-
innar innlendrar verðmætasköpunar mun
skipta sköpum í samkeppnishæfni landsins þar
sem aukin áhersla verður lögð á innlenda fram-
leiðslu og minnka þannig mengun í lofti og á
hafi.
Skattalegir hvatar til uppbyggingar í ylrækt
eru mikilvægir til að ná að byggja upp atvinnu-
grein sem eykur sjálfbærni. Á næstu árum mun
íslensk matvælaframleiðsla eiga möguleika á að
taka forystu í hreinum og sýklalausum land-
búnaðarafurðum sem verður að teljast sérstaða
í heimi þar sem mengun, sýklamengaðar kjöt-
vörur og afurðir úr ríkisstyrktum landbúnaði í
Evrópu og annars staðar munu eiga undir högg
að sækja enda gæði íslenskrar framleiðslu fram-
úrskarandi.
Hugarfar og stolt af íslenskri
framleiðslu auðveldar árangur
Umhverfisvernd, náttúruvernd, minni sóun
og betri meðferð og nýting náttúruauðlinda
munu verða leiðarljós forystu í fyrirtækja-
rekstri og stjórnmálum heimsins á 21. öldinni
þannig að stjórnlaus neysluhyggja og sóun valdi
ekki óafturkræfu tjóni á jörðinni. Heimurinn er
að mörgu leyti búinn að veðsetja framtíð okkar
fyrir skammtímahagnað og græðgi sem mun
hafa víðtækar afleiðingar horft til framtíðar. Ís-
land er í kjörstöðu til að taka forystu á mörgum
sviðum sem munu verða eftirsóknarverð á
næstu áratugum með hreint vatn, endurnýj-
anlega orku, ómengaðar landbúnaðarafurðir,
sjálfbærar fiskauðlindir og stefnumarkandi
staðsetningu landsins.
Á Íslandi er einstakt tækifæri til að auka út-
flutningstekjur með lækkun skatta, hagræð-
ingu í ríkisrekstri með afgerandi hætti og fram-
tíðarsýn sem eykur verðmætasköpun með
snjöllum hugmyndum í tengslum við fram-
leiðslu á sjálfbærum afurðum. Hreint vatn, end-
urnýjanleg orka og sjálfbærar fiskauðlindir eru
grunnur að mikilli sókn fyrir Ísland á nýrri öld
umhverfismála og náttúruverndar. Með því að
velja íslenskt er hægt að efla verðmætasköpun,
hækka atvinnustig og ná meiri stöðugleika í
efnahagsmálum sem er ávinningur fyrir alla.
Upprunamerking matvæla er mikilvæg
þannig að Íslendingar geti notið þess besta sem
Ísland hefur upp á að bjóða og valið um að
styðja við íslenska matvælaframleiðslu og
stuðla þannig að innlendri verðmætasköpun til
hagsbóta fyrir alla Íslendinga. Hugarfar og
stolt yfir íslenskri framleiðslu og afurðum eflir
aðrar atvinnugreinar og veldur margföldunar-
áhrifum í öðrum atvinnugreinum til hagsbóta
fyrir alla landsmenn. Íslensk framleiðsla skap-
ar mörg atvinnutækifæri og því mikilvægt að
keyra í gang íslenska framleiðslu um allt land.
Veljum íslenskt fyrir Ísland.
Eftir Albert Þór Jónsson » Íslensk framleiðsla eflir
atvinnustig, verkkunnáttu,
vöruþróun og samfélagslega
ábyrgð á Íslandi.
Albert Þór Jónsson
Höfundur er viðskiptafræðingur með
MCF í fjármálum fyrirtækja og
30 ára starfsreynslu á fjármálamarkaði.
albertj@simnet.is
Veljum íslenskt fyrir Ísland
Fyrir skömmu kynnti rann-
sóknarstofnun UNICEF á Ítalíu
skýrslu sem ætlað er að leggja
mat á velferð barna í efnameiri
ríkjum heims með hliðsjón af
heimsmarkmiðum Sameinuðu
þjóðanna um sjálfbæra þróun.
Birtur er samanburður milli fjöru-
tíu og eins ríkis OECD og Evrópu-
sambandsins. Í skýrslunni kemur
fram að þrátt fyrir að hafa tiltæk
úrræði og þjónustu eru mörg ríki
ekki að framfylgja stefnu sinni til
fulls og ná þess vegna ekki að veita öllum börn-
um tækifæri til þess að þroska hæfileika sína.
Það veldur áhyggjum að staða íslenskra
barna er mun lakari en hefði mátt vænta því Ís-
land lendir í sæti 24 af 38 með tilliti til andlegrar
líðanar, líkamlegrar heilsu og náms- og félags-
færni. Við erum þar talsvert á eftir þeim ríkjum
sem við viljum helst bera okkur saman við, má
þar nefna að aðrar Norðurlandaþjóðir eru allar
á meðal tíu efstu ríkja listans. Eins og við er að
búast stendur Ísland vel í tilteknum mælingum
er lúta að líkamlegri heilsu, s.s. aðgengi að
hreinu vatni og bólusetningum. Þá er fátækt
barna hér minni en í mörgum samanburðar-
löndum. Aftur á móti er staða íslenskra barna
hvað varðar færni í námi og félagslífi mun lakari
en þar lendir Ísland í 34. sæti. Þetta ætti að vera
öllum þeim sem vinna að málefnum barna veru-
legt áhyggjuefni.
Læsi
Skýrslan sýnir að hlutfall ís-
lenskra barna sem hafa viðunandi
færni í lestri og stærðfræði er með
því lægsta meðal samanburðar-
landanna eða 62% miðað við 79% í
Eistlandi sem er í efsta sæti. Á
undanförnum árum hefur mikil
áhersla verið lögð á læsi meðal ís-
lenskra barna og efnt hefur verið
til margvíslegra átaksverkefna.
Þrátt fyrir þetta virðist staða ís-
lenskra barna frekar versna ef
eitthvað er. Mennta- og menning-
armálaráðherra kynnti fyrir skemmstu áform
um breytingar á viðmiðunarstundatöflu grunn-
skóla sem hafa m.a. það að markmiði að fjölga
kennslustundum í íslensku á kostnað valgreina.
Ofangreindar tölur benda til að vandinn sé
djúpstæðari en svo að aukinn tími í íslensku
komi til með að bæta þessa stöðu.
Vanlíðan barna
Þá eru geðheilbrigðismálin sérstakt áhyggju-
efni. Ítrekað hafa kannanir bent til þess að ís-
lensk börn og ungmenni glími í miklum mæli við
andlega erfiðleika eins og kvíða. Margoft hafa
fulltrúar barna og ungmenna bent á mikilvægi
aukins aðgengis að geðheilbrigðisþjónustu þar á
meðal sálfræðiþjónustu. Hefur í því sambandi
verið lögð sérstök áhersla á að boðið sé upp á
slíka þjónustu innan skólans, bæði í grunn-
skólum og framhaldsskólum. Skýrsla UNICEF
sýnir að sjálfsvíg í aldurshópnum 15-19 ára eru
með því mesta hér á landi miðað við samanburð-
arlönd, eða 9,7%. Samkvæmt upplýsingum frá
Hagstofu Íslands féllu sextán einstaklingar á
aldrinum 15-19 ára fyrir eigin hendi á árunum
2014 til 2019, þar af voru 13 börn á aldrinum 15-
18 ára. Þetta eru mjög sláandi tölur og mikil-
vægt að sérstaklega verði hugað að forvarn-
arstarfi sem nái til barna og ungmenna.
Félagsfærni
Það er áhyggjuefni hversu hátt hlutfall ís-
lenskra barna glímir við félagslega erfiðleika
samanborið við börn í öðrum ríkjum. Aðeins
70% íslenskra barna telja sig geta auðveldlega
myndað vinatengsl en 83% rúmenskra barna
sem eru í fyrsta sæti í þessum efnum. Það er al-
varlegt að ekki hafi náðst betri árangur í því að
tryggja félagslega færni barna á Íslandi. Í
skýrslu UNICEF er ekki fjallað sérstaklega
um stöðu viðkvæmra hópa eins og fatlaðra
barna eða barna af erlendum uppruna, svo
nefndir séu tveir hópar sem vitað er að standa
oft höllum fæti. Þá verður að gera fyrirvara við
ýmsar tölur skýrslunnar þar sem í mörgum
landanna eru ekki til samanburðarhæf gögn. Þá
er vert að taka fram að tölulegar upplýsingar
segja auðvitað ekki alla söguna en gefa þó mik-
ilvægar vísbendingar um stöðu mála.
Gagnaskortur
Í skýrslunni kemur fram að í mörgum til-
fellum hafi úrval gagnasafna verið takmarkað.
Áberandi skortur var á upplýsingum um and-
lega heilsu og má sem dæmi nefna að nið-
urstöður kannana eða rannsókna um lífsham-
ingju barna hafi aðeins verið aðgengilegar hjá
33 af 41 ríki. Þá er einnig skortur á samanburð-
arhæfum alþjóðlegum gögnum um andleg veik-
indi barna. Þar var notast við sjálfsmorðstíðni
en hjá mörgum ríkjum voru slíkar upplýsingar
aðeins tiltækar til ársins 2015. Jafnframt tókst
ekki að finna samanburðarhæfa vísa um upplif-
anir barna af ofbeldi eða af þjónustu barna-
verndar. Í skýrslunni kemur fram að í alþjóð-
legum könnunum sé almennt ekki fjallað um
reynslu barna af þátttöku, hvort hlustað sé á
þau og hvort þau fái að taka sjálfstæðar ákvarð-
anir. Áhersla er lögð á það að stjórnvöld sem og
alþjóðafræðasamfélagið beini athygli sinni að
þessum sviðum til þess að hægt sé að fylgjast
með stöðu barna. Þá er það ekki síður mikil-
vægt að brugðist verði við þeirri óheillavænlegu
þróun sem skýrslan gefur vísbendingar um en
það er verkefni sem allar stofnanir samfélagsins
þurfa að koma að.
Eftir Salvöru Nordal » Staða íslenskra barna er
mun lakari en hefði mátt
vænta því Ísland lendir í sæti
24 af 38 með tilliti til andlegrar
líðanar, líkamlegrar heilsu og
náms- og félagsfærni.
Salvör Nordal
Höfundur er umboðsmaður barna.
Staða íslenskra barna í alþjóðlegum samanburði