Morgunblaðið - 21.11.2020, Side 51
VIÐTAL
Silja Björk Huldudóttir
silja@mbl.is
Grísafjörður – ævintýri um vináttu og
fjör nefnist ný skáldsaga sem fjöl-
listakonan Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir
hefur sent frá sér. Bókin fjallar um
tvíburana Ingu og Baldur sem ætla
að verja sumarfríinu sínu í að glápa á
teiknimyndir og slappa af með til-
þrifum. Fyrirætlanir þeirra fjúka
hins vegar út í veður og vind þegar
Albert, nágranni þeirra á efstu hæð
blokkarinnar þar sem þau búa, kem-
ur í óvænta heimsókn.
Aðspurð segir Lóa bókina óbeint
afsprengi af ritlistarnámi hennar á
meistarastigi við Háskóla Íslands
sem hún lauk vorið 2016. „Lokaverk-
efni mitt þar var sjálfsævisögulegar
smásögur sem aðeins voru hugsaðar
sem andleg úthreinsun en aldrei til
útgáfu. Í náminu lærði ég nefnilega
muninn á bókum sem þarf að skrifa
og bókum sem eiga að koma út og
lokaverkefni mitt var ekki ein af þeim
bókum sem eiga að koma út,“ segir
Lóa kímin.
Sum börn þurfa fleiri plástra
„Við vinnslu lokaverkefnisins
komst ég hins vegar að því hvað það
er gott fyrir sálarlífið að skrifa og það
leiddi til þess að ég fór að skrifa
Grísafjörð,“ rifjar Lóa upp og tekur
fram að góðar viðtökur Önnu Leu
Friðriksdóttur og Daggar Hjaltalín
hjá útgáfunni Sölku hafi veitt sér byr
í seglin og orðið til þess að hún ein-
henti sér í bókarskrifin. „Ég sendi
þeim nokkra kafla og þær voru
spenntar fyrir framhaldinu.“
Þar sem Lóa er hvað þekktust fyrir
teiknimyndir sínar liggur beint við að
spyrja hvort hafi komið á undan í
Grísafirði, myndirnar eða textinn.
„Það var upp og ofan,“ segir Lóa og
tekur fram að stundum búi mynd-
irnar yfir óvæntum upplýsingum sem
ekki sé beint að finna í textanum.
Dæmi um þetta sé að Inga er með
plástur á höfðinu á öllum myndum
bókarinnar. „Sum börn virðast þurfa
fleiri plástra en önnur þar sem þau
gleyma sér í leik og eigin hugsunum
og taka fyrir vikið ekki eftir staurum
fyrr en þau labba á þá. Sumar per-
sónurnar mótuðust þannig fyrst í
gegnum myndirnar,“ segir Lóa og
tekur fram að það hjálpi sér mikið í
teikningunum, hvort heldur er fyrir
bókina eða myndasögurnar, að setja
sér afmarkaða litapallettu.
Skorður virka skapandi
„Allar myndirnar í Grísafirði eru
bara í fimm litum, en lesendur upplifa
bókina samt litríkari en hún er,“ segir
Lóa. Litirnir sem hún vinnur með í
bókinni eru gulur, appelsínurauður,
ferskjulitur, dökkblár og grænblár.
„Þetta eru allt miklir uppáhaldslitir
hjá mér sem liggja nálægt frumlit-
unum, eins og notaðir voru hjá Lego
og Fischer-Price áður en farið var að
litakóða kubbana eftir kynjum. Það
að vinna með svona fáa liti í myndum
krefst úthugsunarsemi,“ segir Lóa og
tekur fram að skýrir rammar geti
virkað mjög skapandi.
„Þessir fáu litir hjálpa mér líka að
halda mér inni í heiminum. Ég hefði
ekki fattað hvað svona hömlur geta
virkað skapandi ef ég hefði ekki verið
að teikna allar þessar teiknimyndir á
árinu þar sem ég hef einmitt sett mér
skorður með vali á litapallettu,“ segir
Lóa sem frá ársbyrjun hefur teiknað
og birt á Facebook-síðunni sinni,
Lóaboratoríum, eina mynd á dag, en
verkefninu lýkur 31. desember. „Ég
er með bók í undirbúningi með þess-
um myndum þar sem ætlunin er að
birta með hverri teikningu pælingar
mínar og hugleiðingar um mynd-
efnið,“ segir Lóa og reiknar með að
bókin komi út á næsta ári.
En aftur að Grísafirði. Blaðamaður
ber það undir Lóu hvort það hafi ver-
ið meðvituð ákvörðun að gæða tví-
burana Baldur og Ingu jafn brútal
hreinskilni og raun ber vitni.
„Ég upplifi börn svona. Þú færð
ekkert að vera með svitalykt eða pip-
arkorn í tönnunum án þess að börn
ræði það. Sjálf þurfti ég að læra að
vera ekki spéhrædd nálægt börnum.
Þau eru ekki að segja þetta til að vera
leiðinleg heldur einvörðungu af því að
þau tala um það sem þau sjá og
skynja. Ég þurfti að endurskoða allt
til að þykja vænt um þennan heið-
arleika. Eftir því sem við eldumst
lærum við flestöll inn á kurteis-
isreglur samfélagsins sem fela stund-
um í sér hvítar lygar. Ég veit ekki
endilega hvort það er jákvætt. Ég er
mjög óheiðarleg í samskiptum því ég
vil alltaf að öllum líði vel, en það er
mjög óheilbrigt til lengdar,“ segir
Lóa og hlær dátt að eigin persónu-
flækjum.
„Sjálf er ég ofurmeðvituð mann-
eskja og tek eftir öllu í kringum mig.
Ég get til dæmis lýst lyktinni af
kennara árið 1988. Sem dæmi gat ég
ekki lært tónfræði og er þess vegna
bara með þriðja stig í tónfræði af því
að ég gat aldrei beðið kennarann um
aðstoð sökum þess hversu mikil og
vond salamílykt stóð út úr mann-
inum,“ segir Lóa kímin og rifjar upp
að vinna hennar á frístundaheimili
hér áður fyrr hafi komið að góðum
notum við persónusköpun tvíbur-
anna.
Hafa engan áhuga á fullorðnum
„Í eitt skiptið hljóp strákur á mig
eins og ég væri húsgagn. Svo leit
hann upp eins og hann hefði þá fyrst
séð mig í fyrsta sinn, en við vorum
búin að umgangast daglega í tvær
vikur. Við það uppgötvaði ég að börn
hafa yfirleitt engan áhuga á fullorðnu
fólki. Ég ímynda mér að þau hafi
mögulega bara áhuga á þeim sem eru
í sömu augnhæð og þau sjálf. Það er
ástæðan fyrir því að tvíburarnir í sög-
unni taka ekki eftir nágranna sínum
fyrr en hann er bókstaflega kominn
inn á stofugólfið hjá þeim,“ segir Lóa
og tekur fram að þó Albert sé svo há-
vaxinn að höfuð hans dettur iðulega
út úr myndarammanum hafi sér samt
þótt mjög mikilvægt að sýna andlitið
á honum. „Þegar ég var barn pirraði
það mig mjög mikið að við fengum
aldrei að sjá andlitin á fullorðna fólk-
inu í Smáfólki eða andlitið á konunni
sem á Tomma í teiknimyndunum um
Tomma og Jenna.“
En má reikna með framhaldi um
systkinin Baldur og Ingu?
„Mig langar mjög mikið að skrifa
meira um Baldur og Ingu, því það er
svo gaman að hanga með þeim. Ég er
strax byrjuð að láta mig dreyma um
framhald sem fjallar um ferðalag
þeirra út á land í eldgömlum húsbíl.
Mér finnst afi þeirra líka svo
skemmtileg persóna að mig langar að
troða honum með þeim í húsbílinn.
Ég finn að það eru ýmsir þræðir sem
hægt er að fikra sig eftir í framhalds-
sögu.“
Fátt skemmtilegra en að gefa
Spurð hvernig það sé fyrir sig sem
höfund að kynna bók í miðjum heims-
faraldri, segist Lóa taka þátt í ýmsum
rafrænum viðburðum. „Ég er líka að
reyna að átta mig á því hvernig mað-
ur kynnir bók án þess að vera óþol-
andi,“ segir Lóa og viðurkennir fús-
lega að hún sé ekki góð
sölumanneskja. „Eitt af því sem er
svo furðulegt við skapandi vinnu er að
listamaðurinn þarf líka að eyða heil-
miklum tíma í að selja list sína og
vekja á henni athygli.“
Ekki er hægt að sleppa Lóu án
þess að spyrja hvers vegna bókinni
fylgi dúkkulísur, póstkort og lím-
miðar. „Mér fannst svo gaman að
leika mér með dúkkulísur og límmiða
þegar ég var lítil. Það er mikið um
gjafir í bókinni, enda fátt skemmti-
legra en að gefa og fá gjafir. Mér
fannst því skemmtileg hugmynd að
fela gjafir inni í bókinni til handa les-
endum,“ segir Lóa og tekur fram að
það hafi komið sér ánægjulega á
óvart að stjórnendur Sölku hafi strax
samþykkt hugmynd hennar þessa
efnis.
„Yfirleitt reyna forlög að halda
kostnaði í lágmarki. En Sölkur voru
strax með mér í liði að gera þetta eins
og þetta átti að vera,“ segir Lóa og
rifjar upp að eftir að ákvörðunin hafi
verið tekin hafi hún síðan fengið
styrk frá Myndstefi og Höfundasjóði
RSÍ til að gera bókina. „Það var gam-
an því ég hélt að það hvíldi á mér
styrkjabölvun í ljósi þess að ég hef
næstum alltaf fengið nei við öllum
styrkumsóknum mínum í gegnum
tíðina. En kannski er ég bara svona
léleg í að selja hugmyndir mínar,“
segir Lóa hugsi að lokum.
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Höfundur „Ég er líka að reyna að átta mig á því hvernig maður kynnir bók
án þess að vera óþolandi,“ segir fjöllistakonan Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir.
Fjörmikil Ef vel er að gáð má sjá að Inga er alltaf með plástur á höfðinu.
„Gott fyrir sálarlífið að skrifa“
Lóa Hlín sendir frá sér skáldsöguna Grísafjörð Hún segist hafa þurft að læra að vera ekki
spéhrædd nálægt börnum Hélt að á sér hvíldi styrkjabölvun Segist ekki góð sölumanneskja
MENNING 51
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 21. NÓVEMBER 2020
HAGI ehf Stórhöfða 37 • 110 Reykjavík • S. 414-3700 • hagi@hagi.is • Hagi ehf HILTI
Hágæða
vinnuföt
í miklu úrvali
Sérmerkjum fyrir fyrirtæki
Verkfæri og festingar
Nú fástSnickers vinnuföt í
Mikið úrval af öryggisvörum