Morgunblaðið - 23.11.2020, Blaðsíða 28

Morgunblaðið - 23.11.2020, Blaðsíða 28
28 MENNING MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 23. NÓVEMBER 2020 Heimatilbúin klofstígvél og Nokia Við erum rétt að loka skemmu- dyrunum þegar við heyrum vélar- hljóð nálgast. Guðlaug rífur upp dyrnar, ,,Oooojájá, segir hún með nefmæltum, klemmdum tóni sem ég á eftir að heyra heimilisfólk og aðra í þessari fámennu sveit endurtaka ná- kvæmlega eins, aftur og aftur, ár eftir ár. Þegar Lónsbúum ofbýður eitthvað eða réttara sagt blöskrar, því að það orð er ævinlega notað, smeygja þeir „Oooojájá“ á ská út um munninn. Allir með full- komlega sama hætti og í ná- kvæmlega eins tónfalli. Og nú blöskrar Guð- laugu að Skafti sé seinn fyrir með strákana þegar læknishjónin eru löngu komin með stelpuna að sunn- an. Ég gríp utan um fótinn á minni nýju vinkonu, sem ég legg nú allt mitt traust á, og stari stórum augum á Ásgeir, bróður minn, sem stendur þráðbeinn gírstöngsmegin á rauðri dráttarvél. Hinum megin er yngri strákur, dökkhærður með hrokkinn lokk fram á ennið en undir stýri sit- ur Skafti bóndi. Holdafarið tálgað og herðarnar ögn kýttar. Andlitsfallið er áþekkt Guðlaugu, systur hans, hátt enni, áberandi kinnbein og sama góðlega glettnin í augunum. Hann er í meðallagi hár og dökkt hárið er tekið að þynnast. Þeir stökkva allir þrír niður af vél- inni og ganga í áttina til okkar. Dökkhærði strákurinn aftastur, feimnislegur með hendur í vösum. Þetta er Frirri, systursonur Skafta og fóstursonur Sigurlaugar, konu hans. Bróðir minn, brosmildur gló- kollur, er í venjulegum vaðstígvélum sem rétt ná undir hné. Rauður leir þekur neðri hluta stígvélanna og greina má nokkrar rauðamýrar- slettur á buxunum hans. Guðlaug fussar hátt en hún sér um þvotta heimilisins, þvær ýmist í höndunum eða í fornfálegu kringlóttu tæki en til þess að nota það þarf að setja ljósavélina í gang. „Hvað er að sjá útganginn á þér, drengur?“ spyr hún hvöss en bráðn- ar um leið og Ásgeir tekur utan um hana og hlær sínum smitandi hlátri. Skafti og Frirri klæðast undarleg- ustu stígvélum sem ég hef séð á minni stuttu ævi. Þar sem svarta gúmmíið endar við hné tekur við ljósrautt sem víkkar smám saman og nær alla leið upp í nára en á því svarta eru rauðar gúmmískellur hér og hvar þar sem stígvélin hafa verið bætt. Þetta eru heimatilbúin klof- stígvél og næstu sumur verður það minn æðsti draumur að eignast ein slík. Fyrir mér verður þessi skófatn- aður að stöðutákni sem merkir að maður er orðinn nógu stór til að fara út á engjar, þar sem sagan segir að séu mörg og hættuleg dý sem geta auðveldlega gleypt litla krakka með húð og hári. Mörg kvöldin á ég eftir að sitja í skemmunni og horfa á Skafta sníða til bætur, raspa gúmmí og bera lím á. Þá nauða ég í honum að gera handa mér klofstígvél en hann segist ekki hafa leyfi til að eyðileggja gljá- andi Nokia-stígvélin sem móðir mín kaupir ævinlega áður en ég fer aust- ur á vorin. Á mínu fimmta sumri í sveitinni, árið 1970, rætist loksins minn lang- þráði draumur. Þá bíða þau mín í skemmunni, skrúbbuð og fín, gömlu klofstígvélin hans Frirra. Ég flýti mér úr ferðafötunum og klæði mig í nýju flautugallabux- urnar úr versluninni Geysi við Að- alstræti. Snarast svo inn í skemmu og í klofstígvélin sem ég brýt vand- lega niður svo að appelsínurautt gúmmíið virkar sem útvíðar skálmar í beinu framhaldi af denimklæddum lærunum. Bláröndótt lítil plastflauta hangir í fíngerðri járnkeðju frá strengnum. Sjálfstraustið þýtur upp um mörg númer. Hvorki fyrr né síðar hef ég upp- lifað mig jafn sjúklega töff og þenn- an dag í skemmunni í Hraunkoti. Sá bísperrti má vara sig Hafi Ásgeir, bróðir minn, orðið glaður þegar hann sá litlu systur fór hann afar dult með þá tilfinningu. Í hans næstum fjórtán ára gamla huga er ég eflaust bara vesen. Þar að auki á ég sök á því að hann er ekki lengur yngstur í systkina- hópnum og það hefur tekið hann nokkur ár að jafna sig á þeirri sárs- aukafullu staðreynd. Ásgeir kyssir mig lauslega á kinn og heilsar læknishjónunum áður en hann sest við borðið og stingur upp í sig súkkulaðihúðaðri vatnsdeigs- bollu úr turninum háa. Mjúkt van- illukremið læðist út um munnvikin, hann tyggur, kyngir og krækir sér umsvifalaust í aðra. Á milli bita tek- ur hann fullan þátt í samræðum við borðið en mér sárnar hvað hann veitir mér litla athygli. Ég reyni allt hvað ég get til að fá hann til að taka eftir mér en allt kemur fyrir ekki. Loksins sting ég mér undir borðið og toga hressilega í aðra buxna- skálmina en hann hristir mig af sér eins og hverja aðra óværu. Þegar ég næ honum loksins er hann á leiðinni út aftur með Skafta og Frirra. „Verðum við saman í herbergi?“ spyr ég og brosi mínu blíðasta. „Auðvitað ekki, ég sef niðri eins og aðrir karlmenn en þú sefur uppi,“ ansar hann stuttaralega og er rok- inn. Þetta þykja mér vondar fréttir og næstu daga vil ég lítið við hann tala. Ég er mjög reið út í hann og svaka- lega sár. Ásgeir er bróðir minn sem á að vera hjá mér og leika við mig. Næstu daga hugsa ég mikið um hvað ég get gert til að hefna mín á honum fyrir skeytingarleysið í minn garð. Bróðir var orðinn fullorðinslegur, bráðum fjórtán ára. Hann gekk til allra verka á bænum og er verðandi messagutti á varðskipi íslenska flot- ans, starfi sem síðar kom í ljós að hann tók ákaflega hátíðlega. Sumarið eftir, 1966, fór afi með varðskipinu Óðni til Ísafjarðar til þess að fagna 100 ára afmæli kaup- staðarins. Pabbi fylgdi honum um borð og skipherrann tók á móti þeim. Á dekkinu höfðu skipverjar myndað heiðursvörð og þeirra á meðal var messaguttinn ungi. „Komdu sæll Ásgeir minn,“ sagði afi hlýlega og gerði árangurslausa tilraun til þess að faðma að sér dóttursoninn sem stóð stjarfur eins og myndastytta enda ákaflega trúr hlutverki sínu sem varðmaður Ís- lands. „Sæll vinur,“ endurtók afi og hækkaði róminn en Ásgeir hagg- aðist ekki heldur stóð bísperrtur í stöðu með hönd á enni og starði tóm- um augum út í fjarskann. Þetta þótti afa hin skemmtileg- asta uppákoma. Morgunstundir í blómagarði Sigurlaug ræktar alls kyns græn- meti og ber fram salat með flestum mat, nokkuð sem mörgum þykir í meira lagi undarlegt. Í salatið bland- ar hún oft nýsprottnum arfa, fífla- blöðum og hundasúrum. Með þessu ber hún fram salatsósu þar sem uppistaðan var súrmjólk og púður- sykur. En arfinn er notaður í fleira. Þegar ég fæ eyrnabólgur sem löngum hrjá mig lætur Sigurlaug sækja gróskumikinn brúsk út á fjós- haug og leggur hann við veika eyrað. Svo bindur hún um með heitum bakstri sem angar af kamfóru og spritti. Hvort gagnið er eitthvert skal ósagt látið en ógagnið er að minnsta kosti ekkert. Þar sem langt er til læknis og lyfja þarf fólk að grípa til sinna ráða. Blómagarðurinn í Hraunkoti er þó stolt og mesta yndi Sigurlaugar en þar sem hann er aðeins til skrauts og ánægju sinnir hún honum utan síns langa vinnudags. Þegar veðrið er gott fer hún á fætur upp úr klukkan fimm á morgnana og nýtir næstu tvo tímana til að snyrta garð- inn. Ef ég vakna við brakið í stig- anum flýti ég mér í fötin og læðist á eftir henni út í bjarta sumarnóttina. Síðan bíð ég á bak við runna á með- an hún nær í garðáhöldin sín. Þegar hún hefur kropið á strigapoka og er byrjuð að róta í moldinni fer ég til hennar. „Ertu komin á fætur, elskuleg?“ spyr hún með uppgerðarundrun í röddinni, glettnislegt augnaráð og milda brosið hennar leikur um var- irnar. „Hérna, settu þennan garm undir þig.“ Hún hendir til mín öðrum poka sem hún hafði gripið með sér, líklega ekki af tilviljun einni saman. „Já,“ mjálma ég og hringa mig á strigann við hlið hennar. Fyrstu mínúturnar vinnur hún hljóð og ég anda værðarlega að mér gróðurilminum, enn ögn svefn- drukkin. Svo byrjar hún að raula lágt fyrir munni sér og ég finn eftir- væntingarkitl í maganum því að fljótlega byrja ævintýrin að streyma; Gilitrutt, Búkolla og Tumi þumall, hvert af öðru renna þau upp úr henni í birtu sumarmorgunsins. Sum hef ég heyrt oft áður en inn á milli fæ ég að heyra ný ævintýri eins og um Hlina kóngsson og Grámann í Garðshorni. Sagnabrunnurinn er óþrjótandi. Á milli ævintýra syngur hún með mér og leiðréttir mjúklega ef ég villist frá réttum tóni. Í uppá- haldi er: Ef ég væri ógnarlangur áll, örmjór og háll, skyldi ég alltaf, alltaf hringa mig utan um þig. Hjartað í mér er eins og bráðið smér, úti er um mig ef ég missi þig. Þú mitt eina, eina lífsins kóngaljós ljúfasta drós. Sigurlaug segir mér að þetta sé ástarljóð pilts til stúlku og það vekur með mér óljósa spennu en textinn höfðar þó miklu frekar til mín vegna þess að steiktur áll er uppáhalds- maturinn minn og á þessu skeiði í líf- inu skiptir maginn mun meira máli en fjarlæg rómantík. Morgunstundirnar í garðinum með Sigurlaugu eru á meðal minna ljúfustu bernskuminninga. Morgunstund- ir í garðinum Bókarkafli | Rithöfundurinn Sólveig Pálsdóttir var ung send í sveit austur í Skaftafellssýslu og dvaldi í mörg ár sumarlangt á bænum Hraunkoti í Lóni. Í bókinni Klettaborgin rifjar Sólveig upp atburði frá uppvaxtarárum sínum, sögur og minningar um dýrmætar manneskjur. Ljósmynd/Úr einkasafni Messagutti Páll faðir Sólveigar, Ásgeir Ásgeirsson afi hennar og Ásgeir bróðir hennar um borð í Óðni. VIÐSKIPTA Viðskiptapúlsinn er hlaðvarpsþáttur um viðskipti og efnahagsmál. Þar setjast blaðamenn ViðskiptaMoggans niður ásamt góðum gestum og ræða stærstu viðskiptafréttir vikunnar hverju sinni og hvað um er að vera í íslensku viðskiptalífi. Þættirnir fara í loftið á miðvikudögum í kjölfar útgáfu ViðskiptaMoggans og eru í samstarfi við Arion banka. Hlaðvarpið má nálgast á iTunes, Spotify og á öðrum hlaðvarpsrásum. Þættirnir eru einnig aðgengilegir á mbl.is VIÐSKIPTAPÚLSINN VIÐSKIPTAPÚLSINN NÝTTU TÍMANN OG FYLGSTU MEÐ

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.