Lögmannablaðið - 2020, Qupperneq 8
8 LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 01/20
Fyrsta dómþingið
Mánudaginn 16. febrúar 1920 eftir hádegi var fyrsta dómþing
Hæstaréttar Íslands háð á efri hæðinni í Hegningarhúsinu
við Skólavörðustíg. Dagana á undan hafði kyngt niður snjó
og fylgdu frosthörkur. En í dómsalnum varð fljótlega heitt
og mollulegt. Hann rúmaði einungis um 20 áheyrendur og
því gátu ekki aðrir en boðsgestir verið viðstaddir athöfnina,
þeirra á meðal allir þrír ráðherrar í ríkisstjórn Íslands,
nokkrir fulltrúar erlendra ríkja, lögmenn og blaðamenn.
Almenningur kom hvergi nærri og engin kona var viðstödd
þessi merku tímamót í sögu landsins.
Hæstaréttardómararnir fimm skipuðu öndvegi, klæddir
síðum dökkbláum skikkjum með hvítum börmum. Til
hliðar við þá sat hæstaréttarritari í ljósblárri skikkju en
lögmennirnir klæddust svörtum einkennisskikkjum með
bláum börmum. Vafalítið hafa aðrir gestir verið í sínu
fínasta pússi, jafnvel einkennisklæddir. Allt hefur þetta
aukið á hátíðleika athafnarinnar.
Þegar gestir voru sestir stóð Kristján Jónsson dómstjóri
upp og ávarpaði samkomuna: „Háttvirtu meðdómendur,
háttvirtu málflutningsmenn, háttvirtu herrar!“ Í ræðu
sinni minntist Kristján meðal annars á árangurinn
af sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar og merkisáfanga í
réttarfarssögu landsins. Hann beindi einnig máli sínu til
lögmannanna og brýndi fyrir þeim að draga upp „sanna
mynd af þeim málstað“ sem þeir tækju, enda væri það
forsenda fyrir réttlátri úrlausn. „Ekki er vandinn og ábyrgðin
minni, er á oss hvílir, dómendunum, sem eigum að leggja
síðasta dómsorðið í réttarþræturnar,“ hélt Kristján áfram.
Kvaðst hann sannfærður um að dómarar Hæstaréttar ættu
eftir að ávinna réttinum traust þjóðarinnar.
Óskabarn hins fullvalda ríkis?
Öldum saman voru Íslendingar undir erlendu valdi, lengst
af danska konungsvaldinu. Sjálfstæðisbaráttan sem hófst á
nítjándu öld færði landsmönnum endurreist Alþingi árið
1845 (ráðgefandi þing), stjórnarskrá 1874, heimastjórn
1904, fullveldi 1918 og æðsta dómsvald í eigin málum 1920.
Lokaáfanginn náðist með stofnun lýðveldis 1944.
Áður en Hæstiréttur Íslands var stofnaður fór Hæstiréttur
Danmerkur með æðsta dómsvald í íslenskum málum.
Innlendir dómstólar voru annars vegar undirréttur (í
ARNÞÓR GUNNARSSON SAGNFRÆÐINGUR
„AÐ LEGGJA SÍÐASTA
DÓMSORÐIÐ Í
RÉTTARÞRÆTURNAR“
HÆSTIRÉTTUR ÍSLANDS 1920–2020
Í tilefni af aldarafmæli Hæstaréttar
Íslands 16. febrúar síðastliðinn var
ákveðið að gefa út tvö afmælisrit.
Annars vegar safn 20 ritgerða um
valin viðfangsefni á sviði lögfræði
þar sem úrlausnir Hæstaréttar hafa
haft mikil áhrif. Kom ritið út á
afmælisdaginn. Hins vegar rit um
100 ára sögu réttarins eftir Arnþór
Gunnarsson sagnfræðing. Er það
væntanlegt síðar á afmælisárinu.