Lögmannablaðið - 2020, Page 9

Lögmannablaðið - 2020, Page 9
LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 01/20 9 héraði) og hins vegar Landsyfirréttur og því voru dómstigin þrjú. Í dansk-íslensku sambandslögunum frá 1918, sem fullveldið hvíldi á, var gert ráð fyrir að Íslendingar gætu stofnað eigin hæstarétt. Það gekk eftir og var Hæstiréttur Íslands stofnaður á grundvelli laga nr. 22/1919 en Landsyfirréttur lagður niður. Þar með urðu dómstigin tvö í stað þriggja. Lögin komu til framkvæmda 1. janúar 1920, þrettán mánuðum eftir að þjóðin varð fullvalda. Hæstiréttur hóf því starfsemi í byrjun ársins en opinber afmælisdagur réttarins, 16. febrúar, miðast við fyrsta þinghaldið. Allir þrír dómarar Landsyfirréttar tóku sæti í Hæstarétti, Kristján Jónsson dómstjóri, Eggert Briem og Halldór Daníelsson. Auk þeirra voru skipaðir hæstaréttardómarar Lárus H. Bjarnason prófessor við lagadeild Háskóla Íslands og Páll Einarsson bæjarfógeti á Akureyri og sýslumaður í Eyjafjarðarsýslu. Í fljótu bragði mætti ætla að landsmenn hafi einhuga fagnað þessu „óskabarni hins fullvalda ríkis,“ svo vitnað sé til orða Þórarins Jónssonar um Hæstarétt á Alþingi árið 1919. En því var ekki að heilsa. Þegar rýnt er í samtímaheimildir, einkum dagblöðin frá því um og upp úr 1920, má greina fálæti, tortryggni og jafnvel andstöðu. Ástæðurnar eru fyrst og fremst harkaleg pólitísk átök innanlands og stéttabaráttan á árunum milli stríða. Hér á landi eins og víða annars staðar á þessum tíma gætti mikillar tortryggni í garð ríkjandi stétta og dreymdi marga um að þjóðfélagsskipulaginu yrði umbylt. Í augum jafnaðarmanna og róttækari arms Framsóknarflokksins, undir forystu Jónasar Jónssonar frá Hriflu, tilheyrðu hæstaréttardómararnir íhaldinu og þar af leiðandi helstu valdaelítu landsins, sem að auki væri nátengd dönsku valdi. Fyrir þá sök væri Hæstiréttur stéttardómstóll og því gæti alþýða fólks til sjávar og sveita hvorki vænst skilnings né réttlætis á þeim bæ. Á árunum 1922–1924 voru flutt þrjú frumvörp til laga um breytingar á hæstaréttarlögunum þar sem gert var ráð fyrir fækkun hæstaréttardómara úr fimm í þrjá. Í þriðju atrennu 1924 var slíkt frumvarp samþykkt og varð að lögum sama ár en fækkunin kom að fullu til framkvæmda tveimur árum síðar. Helstu rökin fyrir fækkuninni var sparnaður í rekstri ríkisins en á þessum árum átti ríkissjóður fullt í fangi með að láta enda ná saman. Þær raddir heyrðust líka að óþarfi væri að fimm dómarar skipuðu æðsta dómstól svo fámennrar þjóðar. En undirliggjandi ástæða fyrir fækkuninni var viðleitni til að veikja réttinn enda kom brátt á daginn að þriggja manna dómstóll var berskjaldaðri fyrir pólitískum árásum og utanaðkomandi þrýstingi af ýmsu tagi en fjölskipaðri dómur. Í tíð ríkisstjórnar Framsóknarflokksins á árunum 1927–1932 veittist dómsmálaráðherrann, Jónas Jónsson frá Hriflu, ítrekað að Hæstarétti og dómurum réttarins, fullyrti meðal annars að þeir væru óhæfir til að gegna dómarastörfum vegna pólitískra viðhorfa, fákunnáttu, ellihrumleika og þar fram eftir götunum. Dómararnir svöruðu ekki slíkum aðdróttunum enda hefði það getað skert sjálfstæði þeirra og gert þá vanhæfa í ýmsum málum. Hæstiréttur átti þó sína málsvara utan Alþingis og innan og meðal leikra og lærðra. Í dómsal Hæstaréttar í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg á 25 ára afmæli réttarins árið 1945. Fyrir miðju sitja hæstaréttardómararnir Einar Arnórsson, Þórður Eyjólfsson og Gizur Bergsteinsson. Vinstra megin við þá situr Sveinn Björnsson forseti Íslands og lengst til hægri Páll Einarsson fyrrverandi hæstaréttardómari og Björn Þórðarson fyrrverandi hæstaréttarritari. (Ljósmynd Vigfús Sigurgeirsson. Eigandi Gunnar Vigfússon.)

x

Lögmannablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.