Lögmannablaðið - 2020, Side 18

Lögmannablaðið - 2020, Side 18
18 LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 01/20 Markús segir ýmislegt hafa breyst hjá dómstólunum enda hraðinn, tæknin og umfang mála allt annað en það var þegar hann var að hefja sinn starfsferil. „Það er skrítið að hugsa til þess tíma þegar borgarfógetaembættið var uppi á lofti hjá Sölufélagi garðyrkjumanna. Þar var firmaskrá, þinglýsingar og þar var verið að skakast í fólki með fjárnám og nauðungarsölur. Svo var bara dómsalur innan um þetta allt saman þar sem verið var að leysa úr þrætum um öll þessi viðfangsefni. Dómstólar voru allt öðruvísi stofnanir en í dag, umgjörðin var meira eins og að koma inn á skrifstofu hjá venjulegri ríkisstofnun. Lögmenn komu bara og bönkuðu upp á og settust inn hjá manni, jafnvel hlömmuðu sér niður á skrifstofunni til þess eins að kjafta. Maður var alltaf vel haldinn með slúðursögur á þessum tíma.“ Langir vinnudagar algengir eftir hrun Það hefur lengi verið hefð á Íslandi að hæstaréttardómarar hafi sig ekki mikið í frammi í þjóðfélagsumræðunni og láti ekki of mikið á sér bera. „Einn kollegi minn orðaði það þannig við mig að þegar menn færu í Hæstarétt þá gengju þeir í björg. Heyrðist þá í Arnljóti Björnssyni: „Eins gott fyrir þig að konan þín heitir Björg.“ En það er kannski of mikið úr þessu gert. Ég hef alla tíð átt marga vini meðal lögmanna og það breyttist ekkert þótt ég færi í Hæstarétt. Maður var þó ekki að sósíalisera mikið með lögmönnum en þetta er þó ekki þannig að maður hafi verið nauðbeygður til að segja upp vinskap við lögmenn. Flestir í þessu starfi hafa ekki látið mikið á sér bera og ekki tjáð sig mikið opinberlega sem ég tel farsælt. Menn geta lent í meiriháttar vandræðum ef þeir eru búnir að tjá sig um samfélagsmál enda vekur það oft upp spurningar um vanhæfi.“ Markúsi líkaði mjög vel að vinna í Hæstarétti. „Þarna var upp til hópa afburðaklárt fólk sem gefandi og gaman var að vinna með, mikið af öndvegis húmoristum og skemmtilegu fólki. Andrúmsloftið í réttinum var skapandi, lifandi og frjótt. Það kom mér eiginlega á óvart því ég hélt að þetta væri mikið þurrara allt saman en þetta var virkilega skemmtilegur vinnustaður. Vissulega voru tímabil þar sem mörg og þung mál voru fyrir réttinum en í endurminningunni þá gleymir maður því.“ Vinnudagarnir voru oft langir og á tímabilinu eftir hrun komu nokkur ár þar sem var stöðugt og mikið álag. Markúsi reiknast til að þegar mest lét hafi hann unnið um 380 klukkustundir á mánuði. Starfið hafi þó ekki alltaf verið slítandi enda drjúgur hluti farið í lestur og mikið næði hafi gefist til þess enda lítið ónæði af síma, tölvupósti, fundum og öðru slíku. Ég spyr hvort honum finnist sem hann hafi orðið betri með árunum í að greina mál og skrifa dóma. „Ég hef aldrei skilið þegar verið er að glamra með hugtakið „dómarareynsla“ sem fólk annað hvort hafði eða hafði ekki þegar það var að sækja um embætti á ákveðnum vettvangi. Ég gat nú aldrei séð hvað vantaði hjá Arnljóti Björnssyni, Gunnlaugi Claessen, Árna Kolbeinssyni, Viðari Má Matthíassyni eða Eiríki Tómassyni. Enginn þeirra hafði nokkurn tíma starfað sem dómari. Ég sá þá heldur ekki hvað einhverjir aðrir sem höfðu starfað sem dómarar höfðu til brunns að bera umfram þá. Það er sama í hvaða starfi eða vettvangi lögfræðinnar maður er. Maður getur verið vanur að semja stefnu eða greinargerð, verið rútíneraður að semja lögfræðitexta og hugsa lögfræðilega. Sá maður er ekkert lengur að semja dóma heldur en það sem hann var að gera í fyrra starfi. Orðfæri í hæstaréttardómum er þó auðvitað öðruvísi en í fræðiriti eða stefnu en það tekur nú engan óratíma að venjast þessu. Það eru auðvitað alls kyns reglur um orðalag til þess að gefa textanum ákveðið yfirbragð. Viðar Már mátti til dæmis ekki nota zeturnar sínar en það eru þó alltaf einhver einkenni á skrifum hvers og eins. Ég get lesið gamla dóma og þó ég sé löngu búinn að gleyma málinu þá get ég séð á textanum hvort ég hef skrifað dóminn,“ segir Markús og bætir við að það sé með ráðum gert að samræma orðalag í dómum. „Þetta er samstarf, þetta er ekki bara einhver einn maður að kveða upp dóm. Það er engin tilviljun að það er ekki verið að klína við niðurstöðuna „frummælandi er...“. Klassíski hugsunarhátturinn er að þetta sé stofnunin Hæstiréttur sem er að tala en ekki einhver egóisti, þessi eða hinn að láta sitt ljós skína. Þótt vissulega sé það einn maður sem semur uppistöðuna í textanum þá er þetta sameiginleg hugarsmíð fólks sem er búið að ræða málið í þaula í framhaldi af málflutningi. Þetta eru engar málamiðlanir, slíkt tal er út í hött, og það er ekki verið að sjóða saman ólík viðhorf. Fólk ræðir sig áfram að niðurstöðu og ef einhver dettur útbyrðis þá kemur bara sératkvæði.“ ÉG HEF ALDREI SKILIÐ ÞEGAR VERIÐ ER AÐ GLAMRA MEÐ HUGTAKIÐ „DÓMARAREYNSLA“ SEM FÓLK ANNAÐ HVORT HAFÐI EÐA HAFÐI EKKI ÞEGAR ÞAÐ VAR AÐ SÆKJA UM EMBÆTTI Á ÁKVEÐNUM VETTVANGI.

x

Lögmannablaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.