Lögmannablaðið - 2020, Blaðsíða 22
22 LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 01/20
hann sjái ekki eitthvað mynstur í máli sem hann er búinn
að lesa í þaula og hefur í ofanálag þegar verið dæmt á
einu, jafnvel tveimur dómstigum. Dómari er búinn að lesa
greinargerðir á öllum dómstigum, stefnuna og öll gögnin
þegar hann kemur í málflutning. Getur staðist að halda
því fram að sá maður hafi enga fyrirfram hugmynd um
það hvernig þetta muni líklega fara? Vissulega kemur það
að sjálfsögðu fyrir að menn ganga inn í dómsal með vafa í
huga um tiltekin atriði en þetta er eins og með önnur atriði
í lífinu að menn hljóta að setja það sem þeir eru að fara
að gera í samhengi við sinn reynsluheim og telja líkur fyrir
einhverri tiltekinni niðurstöðu. Málflutningur breytir ekki
mjög oft slíkri forspá en vissulega eru þó tilvik þar sem það
hefur gerst. Það var þó ekki vegna þess að lögmaður var
óvenju góður í einhverri Morfís-keppni í púltinu. Heldur
bara einfaldlega út af því að hann gat sett hlutina í eitthvað
annað samhengi en dómarar héldu að það væri í eftir
lestur gagnanna. Svo að sjálfsögðu ef dómarar hafa ekki
skilið eitthvað rétt og það kemur í ljós í málflutningi þá
hrynur öll spilaborg einhverrar forspár um það hvað gæti
komið út úr málinu.“
Lífið eftir Hæstarétt.
Markús ætlar að taka til við að skrifa um einkamálaréttarfar
og aðfarargerðir. Svo hefur hann verið að passa barnabörnin
sín. „Annars er ég líka bara að reyna að feta mig yfir á annars
konar tilverustig. Sem betur fer var ákveðinn aðlögunartími
sem kom eftir að haugur uppsafnaðra mála í Hæstarétti
kláraðist haustið 2018. Mér fannst botninn detta svolítið úr
þessu starfi í Hæstarétti eftir tilkomu Landsréttar. Mér leið
bara eins og ég væri kominn í 25% starf og var þó með þá
búbót að vera að fjalla um áfrýjunarleyfisbeiðnir. Ég held
ég hafi aldrei aðlagast þessum nýju aðstæðum. Maður var
búinn að vera á þessu tempói í 25 ár og erfitt að stíga allt í
einu á bremsuna. Það var því ósköp þægilegt að geta bara
kvatt og látið þetta duga. En þegar maður horfir til baka
þá var nú helvíti gaman að þessu.“
Daníel Isebarn Ágústsson
ÞÁTTTAKA Á NÁMSKEIÐI TIL ÖFLUNAR
MÁLFLUTNINGSRÉTTINDA FYRIR
HÉRAÐSDÓMSTÓLUM
Fyrra námskeið af tveimur til öflunar málflutningsréttinda
fyrir héraðsdómstólum á árinu 2020 hófst um miðjan febrúar
sl. og stendur að óbreyttu fram í aðra viku aprílmánaðar.
Að þessu sinni eru 48 þátttakendur skráðir á námskeiðið,
þar af 26 nýskráðir, en einnig þreyta 20 þátttakendur af
fyrri námskeiðum upptökupróf í einstökum greinum.
Fjöldi þátttakenda á námskeiðinu að þessu sinni er ívið
meiri en á síðasta réttindanámskeiði sem haldið var sl.
haust þegar 40 manns voru skráðir til leiks. Þá þreyttu 29
þátttakendur prófraunina í fyrsta sinn, auk 11 þátttakenda
sem skráðir voru í endurtektarpróf. Sömu sögu er að segja ef
fjöldi þátttakenda í ár er borinn saman við fjöldann á fyrra
námskeiði ársins 2019, þar sem heildarfjöldi þátttakenda
var 41, þar af 26 nýskráðir. Samkvæmt þessu virðist sem
þátttaka á námskeiðunum fari vaxandi eftir nokkra lægð
undanfarin misseri.
Suðurlandsbraut 4, 3. hæð, 108 Reykjavík
Sími 414 4100 · Fax 414 4101 · www.law.is