Lögmannablaðið - 2020, Blaðsíða 29
LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 01/20 29
Í DANMÖRKU FER BIRTING STEFNU AÐ
MEGINREGLU ÞANNIG FRAM AÐ STEFNANDI
HLEÐUR INN STEFNU Á VEFSÍÐU DÓMSTÓLSINS,
ÞAR Á EFTIR SENDIR DÓMSTÓLLINN STEFNUNA
MEÐ TÖLVUPÓSTI TIL STEFNDA.
TÖLVUPÓSTURINN ER TENGDUR VIÐ KENNITÖLU
HVERS AÐILA OG FÆR DÓMSTÓLLINN
UPPLÝSINGAR ÞEGAR PÓSTUR HEFUR VERIÐ
OPNAÐUR.
Eigi aðilar að skila inn greinargerðum er varða ákveðna
afmarkaða spurningu, fjallar sú spurning oftast um tiltekin
formsatriði dómsmáls.
Verði aðili máls ekki við beiðni dómara um að útbúa
viðbótargreinargerð hefur sú vanræksla þau áhrif að
dómari getur kveðið upp frávísunardóm, þó að því
gefnu að dómari hafi tekið það fram í beiðninni. Undir
öllum kringumstæðum mun slík vanræksla hafa áhrif á
sönnunarbyrði þess aðila, samanber umfjöllun að neðan
um útilokunarregluna (d. præklusion).
Markmið þessara greinargerða er að afmarka raunverulegan
ágreining máls og tryggja að mál sé nægjanlega vel upplýst.
Aðilar geta í þeim tilgangi skorað á gagnaðila að leggja
fram gögn eða veita ákveðnar upplýsingar (d. opfordring).
Áskoranir í dönskum rétti
Áskoranir sem settar eru fram í málsskjölum eru eins
mismunandi og mál eru mörg, en fela ávallt í sér áskorun um
að leggja fram gögn eða svara ályktunum varðandi umdeild
atriði. Komi aðili ekki til móts við áskorunina getur það haft
áhrif á sönnunarbyrði þess aðila (d. processuel skadevirkning)
vegna áhrifa útilokunarreglunnar (d. præklusion). Sem dæmi
má nefna að í markaðsmisnotkunarmáli þar sem fjárfestir
krefst skaðabóta úr höndum fyrirtækis, getur stefnandi
skorað á stefnda að leggja fram tölvupóst eða fyrirtækjagögn
sem stefnandi telur að innihaldi tilteknar upplýsingar sem
geta upplýst málið. Verði gagnaðili ekki við þessari beiðni
ber dómara að meginreglu að leggja ályktanir stefnanda
til grundvallar við sönnunarmat. Þetta byggist þó á því að
áskorunin sé talin viðeigandi til skýringar máls. Það eru
engar takmarkanir á hvað áskorunin felur í sér né hversu
margar eru settar fram í málsskjali.
Framangreind áskorun er ekki sambærileg því sem gerist
á Íslandi þegar dómari beinir því til aðila að afla gagna
um tiltekin atriði sem hann telur nauðsynleg til skýringar
á máli, sbr. 2. mgr. 46. gr. laga um meðferð einkamála
eða áskoranir aðila til gagnaðila eða vörslumanns um
framlagningu gagna sbr. 2. og 3. mgr. 67. gr. laga um
meðferð einkamála. Slíkar áskoranir finnast þó jafnframt í
dönskum rétti, og er þeim háttað með afar sambærilegum
hætti og á Íslandi (d. edition).
2) Samantekt á kröfum málsins
Þegar gagnaöflun er lokið beinir dómari því oftast til
aðila að þeir afhendi stutt yfirlit yfir kröfur, málsástæður
og sönnunargögn, í seinasta lagi tveimur vikum fyrir
aðalmeðferð. Það málsskjal er að nokkru leyti sambærilegt
því málsskjali sem Landsréttur getur beðið aðila að afhenda,
sbr. 4. mgr. 161. gr. laga um meðferð einkamála. Í danska
málsskjalinu ber þó ekki að vísa til réttarreglna, fræðirita
og dóma sem aðilar hyggjast styðjast við í málflutningi
sínum. Er tilgangur þessa málsskjals að dómari fái betri
yfirsýn yfir málið.
3) Sameiginleg samantekt á málinu
Dómari getur beint til aðila að þeir afhendi sameiginlegt
yfirlit sem inniheldur sömu upplýsingar og málsskjal um
samantekt á kröfum málsins að viðbættri atvikalýsingu,
stuttri lýsingu á þeim atriðum sem eru umdeild og tilvísun
til viðeigandi sönnunargagna. Í skjalinu skal eining gera
nánar grein fyrir málsástæðum aðila, sem og tilvísunum til
réttarreglna, fræðirita og dóma sem aðilar hyggjast styðjast
við í málflutningi. Er þetta málsskjal sérstaklega notað í
málum sem eru yfirgripsmikil og lagalega flókin.
Er staðan á Íslandi önnur en í upphafi 19. aldar?
Ein af ástæðunum fyrir endurskoðun réttarfarslöggjafarinnar
árið 1936 var að stytta málsmeðferðartíma, og má ætla að
það hafi m.a. legið að baki þegar ákveðið var að aðilar fengju
eingöngu að skila einni greinargerð. Það má jafnframt ætla
að sú regla hafi einfaldað málsmeðferðina, en málsmeðferð
einkamála hafði fyrr vafist fyrir aðilum.
Það má hins vegar velta því upp hvort þau rök sem hnigu að
setningu einkamálalaganna árið 1936 séu enn fullnægjandi
skýring á því hvers vegna viðbótargreinargerðir séu ekki
heimilar á Íslandi. Málarekstur er óneitanlega skilvirkari
en hann var áður fyrr, sem og að mál eru orðin stærri
og flóknari. Því má spyrja sig, hvort ekki væri auðveldara
fyrir aðila og jafnframt dómara, að veita aðilum heimild
til þess að leggja fram viðbótargreinargerðir, svo hægt