Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2015, Page 8
GREINAR
HILDUR GESTSDÓTTIR, UGGI ÆVARSSON, GUÐRÚN
ALDA GÍSLADÓTTIR & ELÍN ÓSK HREIÐARSDÓTTIR
KUMLATEIGUR Í HRÍFUNESI Í
SKAFTÁRTUNGU V
Inngangur
Sumarið 2010 hafði Gísli Halldór Magnússon, bóndi á Ytri-Ásum, samband
við Fornleifavernd ríkisins (nú Minjastofnun Íslands) og lét vita af nokkrum
samliggjandi steinum sem væru komnir í ljós í brotbakka Hólmsár neðan
við gamla túnið í Hrífunesi í Skafártungu. Starfsmenn Fornleifaverndar,
Agnes Stefánsdóttir og Kristinn Magnússon, fóru á vettvang og sáu grjótið í
stálinu. Þá voru aðstæður þannig að mjög erfitt hefði verið að grafa niður á
steinana þar eð Hólmsáin lá af þunga upp að bakkanum. Þegar minjavörður
Suðurlands skoðaði staðinn sumarið 2011 hafði áin velt sér frá bakkanum.
Í ljósi sögunnar þótti einsýnt að hér væri kuml komið fram. Mennta- og
menningarmálaráðuneytið brást skjótt við og styrkti rannsóknina. Eigendur
gamla túnsins í Hrífunesi veittu góðfúslegt leyfi sitt fyrir uppgreftinum og
sýndu rannsókninni áhuga. Eru þeim, Dóra bónda á Ytri-Ásum sem og öllum
sem aðstoðuðu við rannsóknina, hér færðar bestu þakkir.
Kumlin grófu Hildur Gestsdóttir, sérfræðingur á Fornleifastofnun
Íslands, og Uggi Ævarsson minjavörður Suðurlands. Að greiningu haugfjár
komu Elín Ósk Hreiðarsdóttir sem greindi perlur, Sigrid Juel Hansen
greindi brýni, Sólveig Guðmundsdóttir Beck greindi tegundir steina,
Garðar Guðmundsson greindi plöntuleifar og Dawn Elise Mooney skoðaði
viðarleifar. Guðrún Alda Gísladóttir ritstýrði umfjöllun um haugfé og sá
einnig um greiningu málm- og steingripa. Hildur rannsakaði mannabein
og naut aðstoðar Liams Lanigan við greiningar á tönnum. Ekki þótti
ástæða til að ræsa út gjóskulagafræðing þar sem gjóskulagagreining þeirra
Sigurðar Þórarinssonar og Guðrúnar Larsen er í fullu gildi1.
1 Guðrún Larsen & Sigurður Þórarinsson 1984, bls. 31-34.