Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2015, Blaðsíða 22
21KUMLATEIGUR Í HRÍFUNESI Í SKAFTÁRTUNGU V
sem eftir er af honum er 38,9 g en þyngstu snúðarnir í Björgvin
eru 53 g (að meðaltali 20,36g).21 Snældusnúðar af þessari þyngd eru
fremur taldir hafa verið til að spinna gróft (ullar)band22 en margt
annað spilaði inn í, s.s. form snúðsins og færni spunakonunnar23 svo
varlega er farið í frekari ályktanir. Snældusnúðar úr steini af A-gerð
sem fundist hafa í Jórvík á Englandi eru algengastir í 9.-10. aldar
lögum en í Björgvin er tímabilið mun lengra, þeir eru algengir fyrir
1170 og fram undir 1400.24
8. Járnbaugur, brotinn, og eftir stendur sveigð járngjörð, sívöl í sniði og
mjókkar til annars enda. Um gjörðina eru vafðar fjórar flatar og fremur
breiðar járnlykkjur, allar brotnar. Í einni lykkjunni er járntittur. Hann
er flatur og breikkar til endans, en er brotinn. Lengd gjarðarinnar er
78 mm, þvermál breiðari enda er 7 mm og mjórri 4 mm. Lykkjurnar
eru 5-6 mm breiðar og titturinn er um 16-17 mm langur. Þyngd 7,5
g. Ekki er annað að sjá en að þetta sé sá gripur sem hefur einfaldlega
verið kallaður járnhringur, járnmen eða Þórshamarshringur.25 Þessir
járnbaugar eru fremur stórir, oft um 150 mm í þvermál og finnast
nánast alltaf í gröfum og langoftast í brunagröfum. Þeir eru oftast úr
snúnu járni, að hluta eða alveg, og endar kræktir saman til festingar. Í
þeim hanga smálíkön úr járni og á óskemmdum baugum hangir alltaf
hamar en einnig t.d. hringir, spíralar og L-laga og spaðalaga hlutir.26
Fundarstaðir járnbauganna einskorðast nánast alveg við svæðið austan
Lagarins (Mälaren) í Svíþjóð og hafa flestir fundist þar (um 95%
þeirra um það bil 450 járnbauga sem fundist hafa í Svíþjóð) þar á
meðal margir í gröfum í Bjarkey, en einnig til dæmis á Álandseyjum
og í Rússlandi.27 Þess má geta að aðeins einn svona gripur virðist
hafa fundist á Bretlandseyjum, í kvenkumli á Orkneyjum.28 Ekki
er víst hvernig járnbaugarnir voru notaðir og gerir hátt hlutfall
brunakumla þar erfitt fyrir en helst finnast þeir við háls hins látna í
gröfum,29 sem gæti bent til þess að þeir hafi verið bornir um hálsinn.
21 Øye 1988, bls. 39-40.
22 Øye 1988, bls. 54.
23 Walton Rogers 1997, bls. 1743-5.
24 Øye 1988, bls. 20, 43.
25 Arbman 1943, bls. 71 (gröf 164), 94 (gröf 329), 412 (gröf 985), 436 (gröf 1046); Arbman 1940, tafla
105; Novikova 1992; Ström 1984, bls. 127-140.
26 Fuglesang 1989, bls. 16.
27 Gräslund, 2008, bls. 254; Fuglesang 1989, bls. 16, 26.
28 Robertson, 1969, bls. 290.
29 Fuglesang 1989, bls. 16; Robertson, 1969, mynd 33.