Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2015, Page 25
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS24
þess hversu illa farin perlan er reyndist hins vegar ekkert unnt að
fullyrða um framleiðslustað hennar eða aldur.37
13. Tvær perlur eru skráðar undir þessu númeri, 13a og 13b:
a. Lítil rafperla sem fannst í jarðvegsköggli ásamt perlu 013b. Perlan
er mjög tærð þannig að húð hefur myndast á yfirborði hennar líkt
og sykurskán. Hún er rauðbrún á köf lum en víða hefur myndast
dökkbrún eða ljósleit húð sem hylur hana. Perlan er óvenju lítil af
víkingaaldar rafperlu að vera og er nær perlum frá síðari öldum í
útliti þótt hún falli ekki beint inn í annan hvorn hópinn. Lengd 3,5-
4,5 mm, þvermál 8-8,2 mm og þvermál gats 2,9-3,1 mm. Þyngd
0,2 g. Hátt í 70 rafperlur hafa fundist á Íslandi og f lestar þeirra
koma úr kumlum. Rafperlur voru unnar á mörgum hinna norrænu
verslunarstaða og handverksmiðstöðva og líklegast er að rafið í
þessari perlu sé upprunnið einhvers staðar á Eystrasaltssvæðinu.
Rafperlur eru oftast einfaldar og einkennasnauðar og jafnan
er erfitt að ætla að tímasetja þær af gerðareinkennum.
b. Lítil blásin perla sem fannst samföst við 013a í jarðvegsköggli
en þær féllu í sundur þegar jarðvegurinn þornaði. Perlan er nú
talsvert skemmd. Hún er blásin og einföld. Við opið öðru megin
er upphleyptur stallur en í hinn endann sést ekki þar sem talsverðar
járnleifar eru samfastar perlunni þar. Glerið er nú talsvert illa farið af
tæringu (glerveiki). Yfirborð perlunnar er því í nokkrum lögum og
á stöku stað má greina óljósar leifar af því sem virðist vera silfurlag.
Perlan hefur því líklega verið silfruð og því af gerð E110. Lengd um
6,5 mm, þvermál 6,5-6,8 mm og þvermál gats minna en 1 mm.
Þyngd 0,6 g. Fram til 2005 höfðu samtals fundist 132 slíkar perlur
á Íslandi og er gerðin því algengasta perlugerð víkingaaldar hér á
landi. Stórt hlutfall þessara perla (eða 72%) eru þó úr einum og
sama fundinum, við Vestdalsvatn í Suður-Múlasýslu, en þær eru þó
nokkuð algengar á Norðausturlandi. Meirihluti perlanna af þessari
gerð hafa fundist í kumlum en þó hefur orðið nokkur aukning
á hlutfalli slíkra perla frá bæjarstæðum á síðustu árum. Slík perla
fannst á uppblásnu bæjarstæði Gömlu-Akbrautar í landi Kaldárholts
í Rangárvallasýslu, við uppgröft í Suðurgötu í Reykjavík, í
Sveigakoti í Mývatnssveit og átta á Hrísbrú í Mosfellssveit. Callmer
f lokkar saman bæði einfaldar og margliða blásnar perlur af þessari
gerð. Á Íslandi eru einföldu perlurnar mun algengari eða um 80%
37 Elín Ósk Hreiðarsdóttir 2005, bindi I, bls. 76-77.