Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2015, Page 30
29KUMLATEIGUR Í HRÍFUNESI Í SKAFTÁRTUNGU V
Lokaorð
Ljóst er að bæði kumlin eru eldri en gosið í Eldgjá (934±2) en yngri en
landnámslagið (871±2). Erfitt getur reynst að segja til um jarðvegsþykknun
eða landrof en það vandamál kemur upp þegar áætla skal tímann sem hefur
liðið frá því að gengið var frá kumlunum og þar til 934±2 gjóskan féll. Svo
virðist sem enginn jarðvegur hafi myndast á milli torfhaugsins og steinanna
sem mörkuðu útlínur grafanna og Eldgjárgjóskunnar 934±2. Hins vegar er
ekki hægt að útiloka áhrif mannsins hér. Mögulegt er að haugunum hafi
verið haldið við og það því haft áhrif á jarðvegsmyndun. Hvað sem því líður
er tíma ramm inn mjög þröngur, eða um 60 ár. Það er einstaklega áhugavert
að 7. kumli hafi verið raskað svo f ljótt eftir greftrun. Talið er nokkuð víst
að ekki hafi liðið nema nokkrir áratugir og hugsanlega mun skemmri tími,
jafnvel aðeins nokkur ár, sbr. umfjöllun um hálsliði konunnar á bls. 18.
Sá möguleiki að haugurinn hafi verið rofinn svo skömmu eftir greftrun
vekur upp ýmsar spurningar. Þegar Eldgjárgjóskan 934±2 féll hafa bæði
kumlin verið greinileg í landslaginu, haugarnir verið að minnsta kosti 32
cm (6. kuml) og 20 cm (7. kuml) háir og afmarkaðir af grjóthleðslunum.
Eldgjárgjóskan 934±2 afmáði hins vegar öll ummerki um grafirnar og
þegar eldgosinu lauk var landslagið gjörbreytt á svæðinu.
Hingað til hefur almennt verið talað um haugbrot og ræningjaskurði og
að einkum eftir kristnitökuna hafi haugar verið rofnir til að ná úr þeim járni
og öðru fémætu.42 Þó bendir Adolf Friðriksson á það í doktorsritgerð sinni
frá 2013 að þar sem í f lestum tilfellum sé ekki hægt að tímasetja haugrofið,
þá sé erfitt að átta sig á því hvort það tengist heiðnum sið, kristnitökunni,
eða hversdagslegri athöfnum.43 Niðurstaða rannsóknarinnar á kumlum 6
og 7 í Hrífunesi býður upp á annars konar túlkun og gefur þeim nýju
hugmyndum sem reifaðar hafa verið um greftrunarsiði á víkingaöld byr
undir báða vængi: að baki heiðinni greftrun liggi mun fjölþættari og
fjölbreyttari ferli en áður hefur verið talið.44 Niðurstöður kumlarannsókna
síðustu ára hafa sýnt að ekki var óalgengt að einhvers konar mannvirki væru
reist yfir kumlum og þá ber helst að nefna nýlegar rannsóknir á nokkrum
kumlum í S-Þingeyjarsýslu þar sem stoðarholur hafa fundist umhverfis
grafir í kumlateigum.45 Þetta bendir til þess að einhver umbúnaður hafi
verið við gröfina áður en henni var lokað og hún jafnvel látin standa opin í
42 Sjá t.d. Adolf Friðriksson 2004, bls. 62, Kristján Eldjárn 2000, bls. 263; Kristín Huld Sigurðardóttir
2004, bls. 65.
43 Adolf Friðriksson 2013, bls. 371.
44 Sjá t.d. Þóra Pétursdóttir 2009; Klevnäs 2010; Price 2012.
45 Sjá t.d. Roberts & Elín Ósk Hreiðarsdóttir 2013; Roberts 2014.