Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2015, Page 36
35
ÞÓRGUNNUR SNÆDAL
RÚNARISTURNAR Á MARMARALJÓNINU
FRÁ PÍREUS, NÚ Í FENEYJUM
Í austurhluta Feneyja stendur hin mikla skipasmíðastöð og vopnabúr
Feneyinga D’Arsenale, byggð á 15. öld. Ef litið er á kort af borginni
má sjá að bakvið hina skrautlegu og virðulegu framhlið byggingarinnar
eru víðfeðmar skipasmíðadokkir þar sem hin frægu og öf lugu herskip
og kaupför Feneyinga voru smíðuð um aldir, enda voru þeir drottnarar
Miðjarðarhafsins frá 11. öld og alveg fram á þá nítjándu þegar Ítalía var
sameinuð.
Torgið fyrir framan vopnabúrið, Campo Arsenale, er stórt og við
það eru margir veitingastaðir, vinnustaðir og íbúðarhús. Allan daginn
streymir fólk yfir torgið, bæði ferðamenn og heimamenn, enda eru
Feneyjar ein af mestu ferðamannaborgum heims. Oft má sjá skólabörn á
ýmsum stigum með kennara í fararbroddi ganga í þvögu eða halarófu upp
tröppurnar og hverfa inn í óravíddir vopnabúrsins.
Margir staldra við á torginu fyrir framan tröppurnar og virða fyrir sér
marmaraljónin f jögur sem standa fyrir framan bygginguna, tvö stór sitt
hvoru megin við tröppurnar og tvö minni til hægri nær síkinu. Mesta
athygli fær þó alla jafna hið stóra ljón sem stendur, eða réttara sagt situr,
lengst til vinstri rétt við tröppurnar, enda er það voldugast og merkilegast
því þetta er hið víðfræga Píreusljón sem hingað er langt að komið eins og
reyndar einnig hin þrjú. Frægt er það meðal annars fyrir rúnaristur sem
lengi hafa vakið forvitni fræðimanna.
Öll komu þessi ljón hingað í lok 17. aldar, en þá f lutti hinn frægi aðmíráll
Feneyinga, Fransisco Morosini, ljónin til Feneyja (borgin var sjálfstætt
ríki fram á 19. öld) sem herfang frá Píreus og Aþenu. Morosini eltist við
Tyrki og Araba á Miðjarðarhafinu í nærri hálfa öld og var kominn undir
sjötugt þegar hann vann Aþenu og meiri hluta Pelópsskaga af Tyrkjum.