Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2015, Side 54
53RÚNARISTURNAR Á MARMARALJÓNINU FRÁ PÍREUS, NÚ Í FENEYJUM
Ristan á hægri hlið ljónsins
Ristan á hægri hliðinni er jafn dæmigerð fyrir seinni helming 11. aldar
og ristan á vinstri hlið er fyrir fyrri helming aldarinnar. Eftir því sem
lengra leið á 11. öldina urðu rúnaristurnar, sérstaklega í Upplöndum, sífellt
skrautlegri og mynstrin f lóknari. Rúnameistararnir þróuðu sinn eigin stíl
og ristur margra þeirra, til dæmis Öpis og Fóts, eru auðþekktar.
Ristan á ljóninu er einstaklega vel gerð af æfðum og listrænum
rúnameistara sem hefur haft aðgang að góðum verkfærum og auk þess haft
tíma til að teikna og höggva ristuna í marmarann af afburða færni. Það er
merkilegt að ekki skuli vera hægt að eigna honum neina aðra ristu í hinum
rúnasteinsþéttu byggðum Svíþjóðar, þar sem hann, af Píreusristunni að
dæma, var öðrum meisturum fremri.
Því miður er þessi rista mun verr farin en hinar bæði af kúlnaförum og
núningi af reipum, en á þeim fáu stöðum sem ennþá eru nokkurn veginn
óskemmdir má ljóst sjá hversu haganlega bæði útf lúri og rúnum er komið
fyrir á ljóninu. Drekahöfuð er á bringunni undir makka ljónsins og þar
sem höfðinu sleppir skiptist búkurinn í tvær greinar: langa hnakkatotu og
í upphafi tvískiptan mjóan búk sem f léttast saman við hnakkatotuna og
langan búkinn sem teygist í brugðningum yfir á hægri hliðina og myndar
þar mynstur í líkingu við eilífðartáknið, liggjandi áttu, en það mynstur
er vel kunnugt úr öðrum ristum. Hali drekans er að lokum bundinn með
dálitlum hnút um annað band lengst til vinstri en þar byrjar textinn.
Oft byrjar textinn í rúnaristum af þessu tagi við höfuð drekans, en þar
sem bandið, eins og áður er sagt, er hér mjög mjótt og þar að auki umvafið
brugðningum hnakkatotunnar er ljóst að ekki hefur verið hentugt að rista
rúnir þar, enda getur textinn byrjað nánast hvar sem er í rúnaristunum.
Það virðist oft hafa verið smekksatriði hvernig textanum var komið fyrir
Á vinstra læri ljónsins, við kviðinn, er stutt rista. Ljósmynd: Þórgunnur Snædal.