Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2015, Síða 69
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS68
Rauðablástur
Vinnsla járns úr mýrarrauða hefur að líkindum verið stunduð í einhverju
mæli frá upphafi byggðar á Íslandi, enda vel þekkt aðferð til vinnslu járns
á Norðurlöndum og Bretlandseyjum, þótt einhverrar aðlögunar kunni að
hafa verið þörf fyrir íslenskar aðstæður. Örnefni sem bent geta til járngerðar
eða rauðablásturs eru enda víða og þekktir járnvinnslustaðir yfir 130 talsins
eins og áður segir.
Mýrarrauði verður til þegar grunnvatn flytur með sér járnsameindir úr
bergi, vatnað járnoxíð, sem bindast súrefni þegar þær komast útundir bert
loft og til verður járnoxíð. Það finnst sem flögukenndur salli af ryðrauðu
efni, mýrarrauða, og í sumum tilfellum stærri kögglar og jafnvel þéttar hellur.
Vinnsla járns úr mýrarrauða fer þannig fram að fyrst er rauðanum mokað upp
og hann þurrkaður. Á hinum Norðurlöndunum og á meginlandi Evrópu er
almennt talið að rauðinn hafi því næst verið ristaður yfir opnum eldi til að
þurrka hann frekar og brenna úr honum óæskileg efni, s.s. brennistein og
lífrænar leifar.19 Niels Nielsen, sem rannsakaði fjölda járnvinnslustaða á Íslandi
á fyrrihluta 20. aldar, taldi sig hafa fundið ummerki um slíkt í Fnjóskadal á
bænum Belgsá.20 Arne Espelund sem hefur á síðari árum rannsakað nokkra
járnvinnslustaði í Fnjóskadal og víðar, telur hins vegar að engin örugg dæmi
um ristun á rauða hafi fundist á Íslandi og jafnframt að skaðlaust væri að
sleppa því vegna lágs brennisteinsmagns í rauða hérlendis.21
Sjálfur rauðablásturinn fór fram í þar til gerðum ofni. Þeir voru fremur
einfaldir að gerð og eru nokkrar mismunandi útgáfur þekktar. Í Norður-
Evrópu virðast ofnar með eins konar strompi hafa verið algengastir
á fyrrihluta miðalda, þeim má í megin atriðum skipta í tvennt, annars
vegar ofnar sem gjalli er hleypt af og hins vegar ofnar þar sem gjallið
safnast fyrir inni í ofninum.22 Í báðum tilfellum eru ofnarnir fremur smáir,
sívalningslaga út í það að vera næstum ferhyrndir og á bilinu 30-70 cm í
þvermál. Yfirleitt er erfitt að ráða í hæð þeirra, bæði vegna mismunandi
19 Espelund 2004a, bls. 26.
20 Nielsen 1926, bls. 146
21 Espelund 2004a, bls. 26.
22 Í ráðstefnuritinu Ovnstypologi og ovnskronologi i den nordiske jernvinna sem kom út 2013, var gerð
tilraun til að samræma skilgreiningar á mismunandi ofngerðum, engin hefð hefur hins vegar
skapast um sambærilega hugtakanotkun á íslensku. „Sjaktovn/schakt ugn/shaftfurnace“ er hér þýtt
sem strompofn og talað um ofna með eða án affalls, þar sem á Norðurlandamálum er notast við
„slaggavtappingsovne“ og „slag-tapping furnace“ á ensku og hins vegar ofna með gjallpytti í stað
aftöppunar, slagguppsamlingsgrop. Þá er talað um ofnapör, sænska „parugnar“, þar sem tveir ofnar
hafa verið í notkun samtímis (sbr. Hjärthner-Holdar o.fl., bls. 26). Skilgreiningar og þýðingar á
heitum annarra tegunda ofna sem fyrirfundust eru ekki til umfjöllunar í greininni.