Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2015, Page 74
73RANNSÓKN RAUÐABLÁSTURSMINJA Í SKÓGUM Í FNJÓSKADAL
Eldri rauðasmiðjan A7 (10.-11. öld)
Gólff lötur eldri rauðasmiðjunnar hafði á sér lag lítils skála, með örlítið
bogadregna langveggi (sjá mynd 4). Byggingin hefur verið 6,5x4,3 m að
innanmáli og um 9x7 m að utanmáli þar sem veggir voru greinanlegir.
Leifar tveggja ofna fundust hvor til sinnar handar u.þ.b. fyrir miðju húsi og
tveir stórir niðurgreftir á milli þeirra. Brotinn steinn með járnleifum var á
gólfinu vestan við miðju og þykk sindurlög að austanverðu sem bentu til
að á því svæði hefði steinninn, eða steðji af einhverju tagi, staðið lengst af
meðan byggingin var í notkun.
Útgangur hefur verið til austurs norðan við miðju, við hlið hans
vatnsrás sem leitt hefur vatn þvert í gegnum norðurhluta byggingarinnar.
Gegnt útganginum virðist hafa verið innangengt í afhýsi af einhverju tagi
sem orðið hafði fyrir raski þegar fjárhúsin voru byggð og því ekki hægt að
greina hlutverk þess. Sambyggt fast sunnan við var hins vegar niðurgrafið
rými, líklega kolageymsla frá sama tíma.
Veggir rauðasmiðjunnar hafa verið hlaðnir úr klömbrum eða
hnausum af einhverju tagi og voru mest 150 cm breiðir og 45 cm háir.
Þeir höfðu orðið fyrir miklu raski af yngri rauðasmiðjunni að norðan og
19. aldar fjárhúsunum að suðvestan og vestan. Veggjaslitrur fundust við
norðausturhorn byggingarinnar en heillegir veggir voru eftir að austan
og í suðausturhorni. Torfið var ríkt af forsögulegri gjósku frá Heklu sem
gaf því ljósgulan blæ, en í því voru einnig linsur af dökkri gjósku úr
Landnámssyrpunni svokölluðu, en yngsta lagið í henni er frá því um 940.33
Við byggingu hússins hefur verið stungið niður fyrir gólfinu um 10-
15 cm og uppmoksturinn notaður til að jafna undir veggina að austan
og sunnan. Þetta uppmoksturs- eða jöfnunarlag sást vel í sniði í gegnum
vegginn að sunnan og lá beint ofan á goslögum úr Landnámssyrpunni
óhreyfðri. Þá fannst gjóskan H-1104 óhreyfð í ljósu lagi sem lá upp að og
að hluta ofan á veggnum sem bendir til að smiðjan hafi verið fallin eða
komin úr notkun fyrir aldamótin 1100.
Gólf smiðjunnar var ólíkt að samsetningu og bar glöggt vitni um
mismunandi athafnir á mismunandi stöðum í húsinu. Gólfið samanstóð að
mestu af niðurtroðnum kolasalla með sindurleifum, þ.e. smáum járn- og
gjallf lísum. Lög af mýrarrauða voru í suðaustur- og norðausturhornum,
með allt frá fínu dufti upp í stærri köggla. Fyrir miðju að austan, rétt
sunnan við austari rauðablástursofninn, var um 20 cm þykkt þjappað lag
sem samanstóð nær eingöngu af sindri og ljóst að þar hefur heitt járn verið
33 Magnús Á. Sigurgeirsson 2012.