Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2015, Page 92
91RANNSÓKN RAUÐABLÁSTURSMINJA Í SKÓGUM Í FNJÓSKADAL
Sunnan við byggingarnar á járnvinnslusvæðinu, mátti sjá keimlíka
jarðlagaskipan. Þar var ljóst fokmoldarlag með H-1104 yfir, á milli þykkra
kolablandaðra laga. Þessi uppsöfnun fokmoldarlaga undir og örlítið yfir
H-1104 gjóskunni bendir til að hlé hafi orðið á járnframleiðslunni um það
leyti.46
Haugurinn var í svolitlum halla og hafði yngri hluti hans hlaðist upp
að vegg yngri rauðasmiðjunnar A5. Það er því ekki hægt að nota einfaldar
reiknireglur til að áætla rúmmál hans, en til þess að komast sem næst
því voru hæðarpunktar teknir með 1m millibili yfir allan hauginn, að
auki voru hæðarpunktar teknir á völdum stöðum umhverfis um það bil
í hæð við H-1300 gjóskuna þar sem hún fannst eða hægt var að áætla
að um yfirborð samtíða lokaskeiði gjallhaugsins væri að ræða. Eftir að
vesturhluti haugsins hafði verið grafinn upp var svæðið undir þeim hluta
að sama skapi mælt upp með 1 m millibili. Niðurstöður þessara mælinga
sýndu að landinu undir og umhverfis gjallhaugnum hallaði um 7° eða
um 1m lóðrétt fyrir hverja 8 m lárétt. Út frá þessum tölum var rúmmál
gjallhaugsins varlega áætlað á bilinu 60-70 m3, en auk gjallhaugsins var
úrgang frá járnvinnslunni að finna víðar á svæðinu, s.s. í kolagröfunum
tveimur og í niðurgröftum innan sjálfra rauðasmiðjanna.
Úrgangurinn í gjallhaugnum samanstóð ekki af gjalli einu saman, heldur
var í honum mikið magn af kolum og kolasalla, ásamt innskotslögum af
rótuðu torfi og mold. Talsvert var einnig af rauða, járnleifum og mulningi
af brenndum dýrabeinum og smáræði af brenndum leir.
Þessi samsetning endurspeglar það verklag sem viðhaft var við
rauðablásturinn. Ofnarnir voru hlaðnir úr torfi og grjóti og líkast til þéttir
með leir. Þeir höfðu takmarkaðan endingartíma og virðast ýmist hafa
verið lagfærðir eða endurgerðir að fullu eftir hverja bræðslu. Þegar gjalli
og ofnleifum hefur verið mokað út hafa slæðst með óbrennd kol, rauði
og járnleifar. Brennd dýrabein vekja athygli en enginn annar úrgangur
sem tengja má mannabústað eða heimilishaldi fannst í haugnum. Bein eru
mjög kolefnisrík og vitað er að beinamulningur var notaður til að hækka
kolefnisinnihald járns, m.ö.o. búa til stál, með einfaldri aðferð. Járnið var
hitað upp fyrir ákveðið hitastig og grafið í beinamulning og/eða vafið með
hornspæni inn í leður. Járnið tekur þá til sín kolefni frá þessum kolefnisríku
lífrænu efnum og við það myndast þunn skel af stáli á ytra byrði þess. Þetta
var algengasta aðferðin til stálgerðar til forna og á miðöldum í Evrópu.47
46 Sjá nánar: Magnús Á. Sigurgeirsson 2012, bls. 1-2.
47 Wrona 2014.