Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2015, Page 106
105GOÐFINNA OG GUÐFINNA: UM TVÖ STRÝTUHEITI Í AKRAFJALLI
hann mun nú vera nafnlaus.11 Drangur í landi Hóls á Langanesi heitir
Guðfinnusteinn og er nafnið skýrt á þá leið í örnefnaskrá að þarna hafi
kona sem hét Guðfinna borið beinin.12 Guðfinnutröppur var örnefni í landi
Vilborgarstaða í Vestmannaeyjum. Þær eru nú væntanlega komnar undir
hraun, en nafnið var haft um „Lágt steinrið í Helgustöðli.“13 Hjá Bæ í Kjós
er Guðfinnutún. Þar finnst nú enginn drangur eða áberandi strýtumyndun
að því er séð verður.14 Guðfinnugjá í Kelduhverfi er margra kílómetra löng
samkvæmt kortum og liggur langt fjarri mannabyggð; þar hafa höfundar
ekki kannað staðhætti. Loks eru Guðfinnubotnar í landi Karlsskála við mynni
Reyðarfjarðar, en um þá segir í örnefnaskrá bæjarins: „Engin örnefni eru
upp af Einbúa, fyrr en kemur upp að Eggjum. Þar eru Guðfinnubotnar
neðan skklegra (svo) hamra, sem ganga framúr Eggjunum, og eru þar svo
að segja engar skriður eða brekkur undir björgunum, nema skriður úr
klettaskorum eða gjám alla leið ofan af brúnum […] Til að sjá eru klettarnir
skuggalegir, en líklega vel gengir. Guðfinnubotnar eru í framhlaupi úr
berginu fyrir löngu, en eru nú vallgrónir og er þar mjög gróðursælt í skjóli
við grjóthryggina. Klettarnir þar uppaf heita Guðfinnubotnaklettar, eins
og víðast er, að klettarnir taka nafn af staðnum neðan þeirra eða öfugt.“15
Nafnið Guðfinnutún hefur viðlið sem tengist búsetu eða byggð (þ.e.
ræktuðu landi) og má gera ráð fyrir að túnið heiti einfaldlega eftir konu að
nafni Guðfinna. Guðfinnutröppur (steinriðið) í Helgustöðli hafa væntanlega
verið náttúruleg steinþrep, syllu- eða stallaröð í eða við hamra (fremur en
steyptar eða steinlagðar tröppur), en stöðull merkir ‘kvíaból, mjaltastaður’
(þ.e. ‘staður þar sem kýr eða kvíaær eru mjólkaðar (úti við)’). Önnur
Guðfinnu-örnefni taka mið af náttúrulegum einkennum í landslagi: hóli,
fossi, steini, gjá og botnum (fyrir neðan hamra, björg eða kletta).
Guðfinnusteinn er athyglisverður með hliðsjón af steindröngunum í
Akrafjalli, þeim Goðfinnu og Guðfinnu, en þessi þrjú drangsheiti benda
til að hinn sérkennilegi drangsteinn sem stendur (í mannshæð) á brún
Guðfinnufoss hafi getað fengið fossinum þetta nafn – að drangurinn hafi
heitið Guðfinna. Ekki er ótrúlegt heldur að Guðfinnugjá dragi nafn sitt
af einhverjum áberandi drangi eða steinstrýtu. Sama máli gegnir um
Guðfinnutröppur og Guðfinnubotna og eins kann þúfan strýtulagaða efst á
Guðfinnuhóli að vera Guðfinnan sem hóllinn er kenndur við. Dæmin eru
11 Örnefnaskrá Öskubrekku, Ketildalahreppi, Barðastrandarsýslu.
12 Örnefnaskrá Hóls í Sauðaneshreppi, Norður-Þingeyjarsýslu.
13 Þorkell Jóhannesson 1938, bls. 47.
14 Örnefnaskrá Bæjar, Kjósarhreppi, Gullbringu- og Kjósarsýslu.
15 Örnefnaskrá Karlsskála, Helgustaðahreppi, Suður-Múlasýslu.