Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2015, Side 108
107GOÐFINNA OG GUÐFINNA: UM TVÖ STRÝTUHEITI Í AKRAFJALLI
*Fen(s)staðir.20 Sem kunnugt er var Þórhallur þeirrar skoðunar „að verulegur
fjöldi örnefna á Íslandi sem enginn vafi hefur þótt um að innihéldi
persónunafn, viðurnefni eða guðanafn o.f l., eða orð sem merkti atburð,
mætti mögulega fremur álíta að innihéldi eða hafi upprunalega innihaldið
orð sem tengdist náttúru, umhverfi eða athafnalífi o.s.frv.“21
Sýnt þykir að merkingin ‘Sami, Lappi’ sé tíðust í örnefnum í Norður-
Noregi en fágætari eftir því sem sunnar dregur og þar sem aðrar merkingar
koma oftar til greina. Dæmi um fyrstu merkinguna sem er tilfærð hér að
ofan virðast koma fyrir svo að segja um landið allt.22 Stemshaug hyggur að
þessi náttúrunafnliður hafi haft sterka og veika mynd rétt eins og í fornu
mannanöfnunum Finnr (Fiðr) og Finni. Hann telur ennfremur að fornnorræna
orðið sem hér um ræðir sé komið af indóevrópsku rótinni *(s)pin-,23 en
réttara mun vera að hér eigi í hlut indóevrópska rótin *(s)pei- sem af eru
leidd latneska orðið spīna ‘broddur, þyrnir, þorn’ (< *spei-nā) og germönsku
stofnarnir *finō(n)- (fornsænska fina ‘uggi’, sænsk mállýska fen og fena ‘spíra
á kornaxi’, íslenska fina ‘nabbi, bóla’), *finnō- (miðlágþýska vinne ‘uggi’
(þaðan nýháþýska Finne og danska finne), miðhollenska vinne, hollenska vin)
og *finna- (fornnorræna *finn(r)/fiðr ‘strýta í landslagi’, íslenska finnar kk. f lt.
‘bólur eða graftarnabbar’ (sbr. finnbólur kvk. f lt. í sömu merkingu), færeyska
finnur ‘(graftar)bóla’, norska finn ‘nabbi, (graftar)bóla’, fornenska fin(n) kk.
‘uggi’, ef þetta orð hefur ekki upphaf lega verið kvenkynsorð og tilheyrt
stofninum *finnō).24 Grunnmerkingin virðist þannig lúta að einhverju sem er
oddlaga, stendur upp úr eða er frammjótt, strýtumyndað.
Sú náttúrutáknandi merking sem Stemshaug gerir að sérstöku
rannsóknarefni í tengslum við nafnliðinn (-)finn(-) virðist vera svo algeng
og útbreidd í Noregi að það kann að þykja ósennilegt að hún komi hvergi
fyrir í íslenskum örnefnum. Hér hefur ekki verið ráðist í kerfisbundna
leit að slíkum nöfnum á Íslandi, en mögulegt dæmi er svonefndur
Finnastapi í Loðmundarfirði. Stapinn stendur stakur út í sjó og er hér
20 Þórhallur Vilmundarson 1983, bls. 66. Sjá einnig greinargerð um örnefnið Bláfinnsvatn í sama riti,
bls. 54-56.
21 Þórhallur Vilmundarson 1999, bls. 136.
22 Stemshaug 1983, bls. 185; Stemshaug 1997, bls. 80-81; Sandnes og Stemshaug 1997, bls. 144.
23 Stemshaug 1983, bls. 176.
24 Um endurgerð þessara germönsku stofna sjá Orel 2003, bls. 103. Um orðskyldleika og orðmyndun
sjá ennfremur Pfeifer o.fl. 1995, bls. 345. Af ie. rótinni *(s)pei- eru t.d. einnig mynduð orðin lat. spīca
‘(korn)ax’, upphafl. ‘(korn)broddur’ (< *spei-kā), germ. *spī-ka-, *spī-kō- [< forgerm. *spei-go-, *spei-
gā] (fnorr. spíkr, ísl. spíkur kk. ‘nagli’, ísl. spík kvk. ‘mjór ljár’) og *spai-kō[n]- [< forgerm. *spoi-gā]
(fhþ. speihha, nhþ. Speiche, fe. spāce, e. spoke ‘hjólrimill, hjólspæll’), ísl. spíra ‘eitthvað langt og mjótt,
turnspíra, frjóangi, o.fl.’ < germ. *spī-rō[n]- [< forgerm. *spei-rā].