Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2015, Page 127
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS126
og f leiri heimildum. Einnig var spurt um minjarnar og hugsanlega
heimildarmenn.
Skemmst er frá því að segja að engin svör bárust við þessu bréfi. Þegar
okkur varð ljóst að enginn mundi svara fyrirspurnunum frá okkur, fylgdum
við þeim eftir með símtölum og fyrstu skipulegu vettvangsferðunum,
sumarið 1980. Við fórum heim á hvern bæ og töluðum við ábúendur. Allir
könnuðust við að hafa fengið bréfið frá okkur, en enginn taldi sig hafa haft
tök á að svara því. Hins vegar voru þeir reiðubúnir að greiða götu okkar
sem best og fóru jafnvel með okkur um jörðina til að sýna okkur minjar
sem þeir þekktu til.
Það var nokkuð einkennandi fyrir fyrstu viðbrögð manna við
fyrirspurninni að fæstir könnuðust við að fornleifar fyrirfyndust á þeirra
jörð og f lestum kom á óvart að við hefðum líka áhuga á gömlum útihúsum
og görðum frá síðustu öld. Yfirleitt gátu allir bent á einhverjar slíkar
minjar sem hægt var að byrja skráninguna á. Við gengum síðan skipulega
um jörðina, teiknuðum, mældum og lýstum öllum minjum sem við
fundum, og skráðum inn á kort í mælikvarða 1:10.000, sem til voru af
höfuðborgarsvæðinu.
Í þessari fyrstu skráningarumferð í Mosfellssveit voru um 180 minjastaðir
skráðir í skráningarbækurnar. Þegar henni lauk voru niðurstöðurnar
dregnar saman í stutta skýrslu sem send var Mosfellsbæ til kynningar. Þess
má svo geta að þegar ný fornleifaskráning var gerð um tveim áratugum
síðar í sambandi við skipulagsvinnu í Mosfellsbæ, var m.a. byggt á fyrstu
skráningargögnunum. Þegar nýskráningu fornleifa lauk árið 2001 voru 635
minjar komnar á skrá í Mosfellsbæ.7 Það segir okkur að fornleifaskráningu
lýkur aldrei fyllilega, þar eð kröfur og viðmið taka sífellt breytingum og að
hún þarf því að vera í stöðugri endurskoðun. Þá kom líka í ljós að margar
minjar, sem skráðar höfðu verið árið 1980, voru horfnar.
Þetta tilraunaverkefni stóð yfir í þrjú sumur og hleypti af stað nokkurri
umræðu um fornleifaskráningu og gagnsemi hennar. Við sem að verkinu
stóðum vorum mjög ánægð með árangurinn og fannst það hafa skilað
miklum árangri og að aðferðin hefði reynst vel. Þó var auðvitað líka ljóst
að það væri risavaxið verkefni að skrá minjar um allt land og sömuleiðis
að Þjóðminjasafnið hefði enga möguleika á að taka það að sér, miðað við
fjárveitingar og þáverandi löggjöf. Miklu f leiri þyrftu að koma að verkinu,
ef það ætti að vera yfirstíganlegt. Þjóðminjasafnið átti á þessum árum
nokkra fundi með samtökum sveitarfélaga úti á landi um ýmis málefni
7 Agnes Stefánsdóttir o.fl. 2006.