Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2015, Síða 132
131UPPHAF SKIPULEGRAR FORNLEIFASKRÁNINGAR Á ÍSLANDI
Þjóðminjasafnið, sem tók líka að sér rannsóknar- og skráningarverkefni,
var nú komið í þá aðstöðu að sitja beggja vegna borðsins í samskiptum
sínum við þessa aðila, þar sem safnið var bæði samkeppnisaðili um verkefni,
en jafnframt sú stjórnsýslustofnun sem mat umsóknir og veitti leyfi.
Þetta leiddi til þess að stjórnsýsluþáttur minjavörslunnar var aðskilinn frá
Þjóðminjasafninu árið 2001 og færður í hendur Fornleifaverndar ríkisins,
sem varð að Minjastofnun Íslands árið 2013.
Staðan í dag
Ótrúlega margt hefur áunnist á þeim tiltölulega stutta tíma (36 ár) sem liðinn
er frá því að umræða um fornleifaskráningu var vakin. Í dag er mikilvægi
hennar almennt viðurkennt og hún skilgreind sem forgangsverkefni á sviði
minjavörslu. Þá óraði okkur ekki fyrir því í upphafi, að fornleifaskráning
yrði kennd við Háskóla Íslands, að um 100.000 minjar yrðu komnar á skrá
af um 150-200.000 áætluðum minjum, eða að skrifaðar væru vinsælar bækur
sem byggðu að miklu leyti á niðurstöðum fornleifaskráningar undanfarinna
áratuga.18
Nú er fornleifaskráning að mestu í höndum einkaaðila sem hefur að
mínu mati bæði kosti og galla í för með sér. Helsti kosturinn er sá, að miklu
f leiri fornleifafræðingar hafa fengið vinnu en annars hefði orðið, sem er
frábært, og miklu meira hefur verið skráð en annars hefði orðið. Hins
vegar hefur þetta fyrirkomulag líka skapað vandamál sem þyrfti að leysa.
Til dæmis er skráð í mismunandi gagnagrunna sem þýðir að gögnin eru
dreifð, misaðgengileg og upplýsingarnar eru ekki alltaf alveg sambærilegar.
Úr þessu þarf að bæta. Kortavefsjá Minjastofnunar Íslands, sem nýlega er
orðin aðgengileg, er mikilvægt skref í því sambandi, en er ekki nóg. Ef hægt
væri að tengja Kortavefsjána við menningarsögulega gagnagrunninn Sarp
værum við hins vegar komin með þann miðlæga gagnagrunn og öf luga
skráningar- og rannsóknartæki sem okkur gat aðeins dreymt um í upphafi.
Ef íslenskir fornleifafræðingar og minjastofnanir næðu að sameinast um
það markmið, tel ég að mjög vel væri komið fyrir fornleifaskráningu á
Íslandi.
18 Birna Lárusdóttir 2011.