Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2015, Page 136
MYNDIR
MYNDIR:
MINJAR OG SJÁVARROF
Menn hafa lengi grátið örlög handrita sem brunnu í Kaupmannahöfn, voru
höfð í skósóla eða jafnvel étin, eins og gefið er í skyn í Íslandsklukkunni.
Líka hefur verið harmað að sumar sögur skyldu ekki ná að komast á
skinn, eins og Gauks saga Trandilssonar. Að sama skapi hefur því verið
fagnað að Árna Magnússyni skyldi takast með elju sinni að bjarga mörgum
handritum, jafnvel á elleftu stundu, enda eru þau nú talin til grunnstoða
íslenskrar menningar.
Fornleifar eru enn óskráðar víða um land og því eru þeir sem leggja
stund á fornleifaskráningu að sumu leyti í sömu sporum og Árni Magnússon
í upphafi 18. aldar. Víða steðjar hætta að þessum minjum, ýmist vegna
athafna mannsins eða af völdum náttúrunnar. Á Íslandi má telja til margar
ógnir: Byggingar, vegagerð, túnrækt, skógrækt og síðast en ekki síst: Rof
af völdum vinds og vatnagangs. Þegar þetta er ritað er skammt síðan Skaftá
ruddi burt gömlu bæjarstæði í miklu hamfarahlaupi. Með því hafa horfið
menningarverðmæti sem erfitt er að leggja mælistiku á, enda vitum við
tiltölulega fátt um minjar á þessu landsvæði og bæjarstæðið hafði ekki verið
skrásett. Því lágu ekki einu sinni fyrir upplýsingar um útlit rústanna eða
nákvæma staðsetningu þegar f lóðið braut þær niður og sópaði á haf út. Eins
og minjavörður Suðurlands komst að orði í viðtali við Bændablaðið er það
eina sem hægt er að gera eftir á „… að naga sig í handarbökin.“
Ekki eyðast allar minjar í einu vetfangi eins og gerðist með rústirnar
í Skaftártungu. Við strendur Íslands er hafaldan víða að grafa smám
saman undan minjastöðum sem margir tengjast útræði og sjósókn. Þótt
vandamálið sé ekki nýtilkomið virðist sjávarrof fara óðum vaxandi, ekki
síst þar sem fer saman landsig á Suðvestur- og Vesturlandi og hækkandi
sjávarstaða sem stafar af hlýnun jarðar.
Þetta vandamál komst nýverið í sviðsljósið fyrir atbeina áhugafólks sem
hafði áhyggjur af stöðu mála á sínum heimaslóðum vestur í Súgandafirði.