Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2015, Page 199
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS198
og tengist fremur þeim kynnum sem hann hefur sjálfur haft af torfhúsum
á Íslandi síðustu áratugi en markvissu úrvali (bls. 102). Hér saknar lesandi
að frekari rökstuðningur hefði verið settur fram fyrir vali húsa, því ekki er
mörgum húsum sleppt, bókin er ítarleg og þessi umfjöllun um einstök hús
er kjarni bókarinnar. Í lokin er stutt umfjöllun þar sem torfhús á Íslandi eru
sett í samhengi við byggingar annars staðar á norðurhveli, auk þess sem þar
eru vangaveltur um torfhús í landslagi. Að lokum er fjallað stuttlega um
réttir, garða og tilgátuhús. Myndir eru stór hluti af framsetningu efnisins og
er mikill fengur að þeim. Skrár fylgja bókinni, myndaskrá, atriðisorðaskrá
með staðarnöfnum og sérstök mannanafnaskrá. Heimildaskrá er yfir
prentaðar heimildir, en þess aðeins lauslega getið að óprentaðar heimildir
megi nálgast í ársskýrslum Þjóðminjasafns og í skjalasafni húsasafns þess.
Til þeirra gagna, né annarra óprentaðra gagna, er þó aldrei vísað og er
nokkuð miður miðað við þá möguleika sem eru fyrir hendi.
Hjörleifur lýsir nálgun sinni með þessum orðum: „Markmið þessarar
bókar er að draga fram í dagsljósið torfbyggingarhefð Íslendinga. Það verður
gert með því að beina sjónum að þeim torfhúsum sem enn eru til en einnig
að rústum og leifum mannvirkja úr torfi sem vitna um handverkskunnáttu
fyrri alda. Ætlunin er að leiða athyglina að því hvernig þessi mannvirki
falla að landslaginu og eru hluti þess“ (bls. 13). Höfundur rökstyður þessa
nálgun nánar með mikilvægi þess að vekja athygli á torfbæjahefðinni;
fegurð torfsins sem byggingarefnis, þörfinni á átaki til að tryggja varðveislu
torfhúsanna og handverksþekkingarinnar auk nauðsynjar á að kveikja
áhuga hjá arkitektum og húsagerðarmönnum á handverki sem tengist
torfhleðslum (bls. 13). Ritið er því öðru fremur kynning fyrir almenning
og aðra áhugasama um húsagerðarlist fortíðarinnar og þann torfbæjaarf sem
varðveist hefur á Íslandi fram á þennan dag, fremur en að um rannsóknarrit
um torfhús sé að ræða. Uppbygging og efnistök bókarinnar fylgja ætlan
höfundar og tekst ágæta vel í því efni. Hér verður sjónum nánar beint
að nokkrum völdum þáttum í ritinu. Fjallað verður um handverkið,
myndefnið, þróun gangabæjarins, lýsingar á völdum torfhúsum, norrænt
samhengi torfhúsanna og tengsl við þjóðarvitund landsmanna.
Ein mestu nýmæli bókarinnar eru ítarleg og greinargóð umfjöllun um
handverkið við byggingu torfhúsa sem sett er í samhengi við varðveitt
hús. Hún er sett fram samhliða aðgengilegri miðlun og umfjöllun um
hús sem bæði hafa verið rannsökuð af fornleifafræðingum og um hús sem
enn standa. Góðar skýringarmyndir og teikningar eru birtar sem sýna vel
byggingartæknileg atriði, samhengi efnis og aðferða og hvernig breytingar