Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2015, Qupperneq 201
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS200
gagn hefði verið fyrir lesendur að vita af. Má þar t.d. nefna rannsókn á
vegum Þjóðminjasafnsins sem Anna Lísa Rúnarsdóttir mannfræðingur
vann og kom út árið 2007. Einnig hefur á síðustu árum verið nokkur
umræða um torfhúsin í þjóðmenningunni, sem menningararf, sem ekki er
vikið að. Höfundur rekur þó dæmi þess þegar t.d. Kristján Eldjárn og Hörð
Ágústsson greindi á um túlkun á gangabænum (t.d. bls. 67-68). Tækifærið
er þó ekki nýtt til að vekja athygli á því þegar kemur að klausturshúsunum
að kenningin eigi kannski ekki við slíkar byggingar (eins og Hörður hefur
haldið fram áður). Sagt er frá athugunum Steinunnar Kristjánsdóttur
(bls. 74-76) en hún hefur með rannsóknum sínum á Skriðuklaustri sýnt
að klausturhúsin voru byggð eftir fyrirmyndum erlendra klaustra, en
ekki með hliðsjón af innlendum stórbýlum. Það er ekki sett í samhengi
við stef bókarinnar um þróun gangabæjarins. Öðru hverju er vikið að
því hvað skýri breytingar á torfbænum í gegnum aldirnar. Í sumu hafi
það verið aðgengi að byggingarefnum í samhengi við hitunartækni
og byggingartækni, en einnig nefnt að breytingar á „stjórnarháttum,
trúarbrögðum og verslunarháttum“ hafi leitt af sér breytingar í húsagerð.
Veðurfar og náttúra hafi haft ákveðin áhrif, en þau hafi komið fram á
löngum tíma. Einnig er talað um að dregið hafi úr hreinlæti og þjóðin
hafi smám saman misst sjálfstæði sitt (bls. 47, 53, 70). Skýringar þessar
eru settar fram á stöku stað, en ekki beinlínis fjallað um þær, kosti þeirra
og galla, né vísað til umræðu um þær annars staðar. Lítt er t.d. tekið á
umræðu um tengsl þróunar torfbæjarins við veðurfar og hnignun. Helsti
galli bókarinnar sem rannsóknarrits birtist í þessum þáttum.
Stærsti hluti bókarinnar er, eins og áður sagði, umfjöllun um 35 torfhús
víðs vegar um landið sem enn standa. Hluti þessara húsa er vel þekktur, þau
hýsa byggðasöfn eða eru vel þekktir viðkomustaðir ferðamanna. Meirihluti
þeirra er varðveittur í húsasafni Þjóðminjasafns Íslands. En þarna er einnig
umfjöllun og myndir af lítt þekktum torfhúsum utan alfaraleiðar, sem
áhugavert er að fá að kynnast. Sum eru að hluta hrunin, önnur eru betur
á sig komin. Þótt f lest húsanna sem fjallað er um séu stór og reisuleg, eru
meðal þeirra líka lágreistari hús. Efnistök eru mismunandi eftir húsum,
mismikið hefur verið um þau fjallað í prentuðum ritum og lítið er byggt á
frumheimildum eða óprentuðum gögnum. Reynsla höfundar og aðkoma
að viðgerðum margra þeirra nýtist greinilega vel í umfjölluninni. Það
vekur athygli að skjalagögn um húsasafn Þjóðminjasafnsins virðast þó
ekki nýtt við þessa umfjöllun né vísað til þeirra, þar sem umfangsmikið
heimildasafn er til. Þar er að finna gögn um viðgerðarsögu húsa auk