Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2017, Side 19
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS18
Ástandið er alvarlegt, og hefur farið ört versnandi síðan hafreks26 (e.
marine debris) var fyrst getið í vísindaritum á sjöunda áratugnum.27 Tölur
um magn „rusls“ í hafi eru þó nokkuð á reiki, eðli málsins samkvæmt.
Hlutir eru á stöðugri hreyfingu og staðbundnar aðstæður geta breyst mikið
á skömmum tíma, til að mynda í kjölfar storma og annarra náttúruhamfara.
Það má þó staðhæfa að hafrek er að finna í öllum lögum sjávar, f ljótandi á
og nærri yfirborði, á hafsbotni og á ströndum (þaðan sem það getur ýmist
snúið aftur til hafs, grafist undir eða borist lengra inn á land). Hafrek er af
ýmsu tagi og á uppruna að rekja bæði til athafna á landi og sjó, auk þess sem
hlutir geta ferðast um langan veg frá upprunastað til strandstaðar.28 Þannig
hefur verið sýnt fram á með rannsóknum og skráningu að aðf lotnir hlutir
hafa numið jafnvel afskekktustu haf- og strandsvæði jarðar29, þar á meðal
djúpsjávarbotninn.30
Ástæður þess að hlutir lenda á reki geta verið margar, og er alls ekki svo
að þeim sé öllum (vísvitandi eða ekki) varpað í hafið. Margir þeirra fara
á f lakk án beinnar aðkomu manna, t.d. við fok og rof úr sorphaugum og
landfyllingum, með f lóðum og f lóðbylgjum. Samsetning hafreks er einnig
mismunandi eftir svæðum, þótt plast af ýmsu tagi sé vissulega í miklum
meirihluta víðast hvar. Staðbundnar rannsóknir hafa sýnt að allt að 95%
hafreks er plastúrgangur31, sem að megninu til er í formi örsmárra plastagna
(e. micro plastics).32 Þó ber að nefna að f lestar rannsóknir á hafreki beinast að
yfirborði sjávar og strandsvæðum og er ekki ólíklegt að samsetning þess á
hafsbotni sé mjög ólík þessu.33 Auk þess er mikilvægt að nefna að rannsóknir
á hafreki gera yfirleitt skýran greinarmun á manngerðum hlutum og
öðrum reka – þótt sá greinarmunur sé oftar en ekki alls ekki skýr. Augljóst
dæmi er rekaviður. Hvernig ber að f lokka hann? Annað dæmi um óljós
skil menningar og náttúru er sú staðreynd að plastagnir eru þegar orðnar
hluti af fæðukeðjunni og hafa e.t.v. þegar áhrif á líkamsstarfsemi margra
spendýra, okkar þar á meðal.34 Enn eitt dæmi er svokallað plastiglomerate, ný
bergtegund úr samþjöppuðu plasti, fjörusandi og öðrum bergtegundum,
26 Ég kýs hér að þýða enska hugtakið marine debris sem hafrek til aðgreiningar frá vogreki sem er í
grunninn mun þrengra hugtak.
27 UNEP 2009, Ryan 2015.
28 Galgani o.fl. 2015, Thompson 2015.
29 Barnes 2005, Barnes o.fl. 2010, Bergmann og Klages 2012, Bergmann o.fl. 2016.
30 Ramirez-Llodra o.fl. 2014, Pham o.fl. 2014, Woodall o.fl. 2014.
31 Galgani o.fl. 2015.
32 Eriksen o.fl. 2014.
33 Ramirez-Llodra o.fl. 2011.
34 Galloway 2015, Lusher 2015.