Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2017, Side 21
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS20
og fjöru, milli fjöruborðs og fjörukambs, velkjast hlutir í óvissu fram og
aftur, og verða e.t.v. með næsta f lóði eða stormi hluti af hryggnum sem
smám saman hrannast upp úr fjörugrjóti, rekavið og öðru aðf luttu efni.
Og inn af ströndinni er víðfeðmt svæði vindborins efnis, plasts og annarra
léttra hluta, sem ferðast á f lugi inn á landið, og ef til vill til sjávar á ný. Sé
skyggnst undir yfirborðið er veltan og volkið þar einnig merkjanlegt sem
hægfara en seig undiralda, sem ryður efninu undir sig, grefur það og mylur
og þjappar því saman svo það megi með engu móti verða aðskilið aftur. Í
þessari miskunnarlausu hringiðu brotna hlutir niður og molna, og verða að
lokum að litríkum freknum í fjörusandinum.
Með tilliti til fornleifafræði mannaldar er erfitt að horfa framhjá
fyrirbærum eins og hafreki og litríkum rekafjörum. Þótt vissulega megi
færa rök fyrir því að upphaf mannaldar beri að rekja mun lengra aftur
– til upphafs akuryrkju eða beislunar elds – er því vart að neita að hlutir
sem þessir, ásamt t.d. geislavirkum úrgangi, erfðabreyttu grænmeti,
menguðum jarðvegi, og af lögðum gerfitunglum á sporbaug, hljóta að vera
í brennidepli fyrir fornleifafræði mannaldar. Lítum nú á hvernig eiginleikar
þessa efniviðar skapa fornleifafræðinni nýjar og spennandi áskoranir.
Áskoranir mannaldar-fornleifafræði
Það getur verið áhugavert og upplýsandi að velta því fyrir sér hvað hefur
valdið því að þessi arf leifð – sem fer vaxandi dag frá degi – hefur ekki nema
að litlu leyti vakið áhuga fornleifafræðinga. Fornleifafræði er jú fræðigrein
efnismenningar. Á hvaða hátt eru þessir hlutir öðruvísi? Eða hvað er það
sem þá skortir til þess að falla í hóp hefðbundinna fornleifa? Með þessar
spurningar að leiðarljósi verða nú ræddar nokkrar þær áskoranir, sem
fornleifafræði mannaldar þarf að horfast í augu við. Punktarnir leiða hver
af öðrum og skarast með ýmsum hætti, og ber ekki að líta á þá sem skýrt
aðgreinda þætti, né heldur sem tæmandi. En allir eiga þeir það sammerkt
að raungerast í efnisheimi rekafjörunnar.
Hafrek og menningarsaga
Fyrsta áskorunin snýr að hugmyndinni um menningarsögu sem samnefnara
fyrir þá fortíð sem fornleifafræðin leitar. Eins og fram kom, líta margir
á dýpt fornleifafræðilegrar menningarsögu sem hennar mikilvægasta
framlag, bæði með tilliti til þess að sækja vitneskju til fortíðar og til þess
að skilgreina eðli og tímatalsfræði (e. chronology) þessa nýja tímabils. Þegar