Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2017, Blaðsíða 23
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS22
hafrekinn plastpoka. Meðalnotkunartími plastpoka mun vera um 5 mínútur
(fyrir utan framleiðsluferli). Því hefur hins vegar verið haldið fram að líftími
plastpoka, sem við höfum reyndar enga beina reynslu af enn sem komið er,
geti orðið allt að 400 ár. Svipuð dæmi má taka um marga aðra hluti sem
við notum eða umgöngumst í daglegu lífi; gosf löskur, tannbursta, inniskó,
bleyjur, vegastikur, o.f l. – að ekki sé minnst á forngripi almennt.
Það er augljóst að raunsönn mynd af æviskeiðum slíkra hluta getur alls
ekki sniðgengið það líf sem þeir eiga utan beinna tengsla við okkur. Það
má einnig velta því fyrir sér hvaða áhrif þetta hefur á áhersluna á hlutverk
og gerðfræði hluta. Ef kaupfélags-poki er notaður til burðar í 5 mínútur
en er eftir það á reki í vegköntum, undir trjárunnum og á reginhafi, má
spyrja hvort það sé skýrandi eða ekki að nefna hann til hlutverks og gerðar?
Eða hvað er poki? Og er tilvera hans sem burðarpoka og samband hans við
menn og verslunarkeðjur á einhvern hátt sannari en þau sambönd sem hann
á síðar við vind, haf, salt og sólarljós?
Þetta eru áskoranir sem fornleifafræði mannaldar stendur frammi fyrir.
Ætli hún að beina sjónum að þeirri efnismenningu sem ekki síst einkennir
mannöldina, verður nauðsynlegt að hugsa út fyrir ramma hefðbundinnar
menningarsögu, og út fyrir þá viðteknu sýn að við, og sambandið við okkur,
sé þungamiðjan í æviferli og eðli hluta. Menningarsaga og skipuleg, línuleg
framvinda hennar er aðeins ein fortíðarskoðun af mörgum mögulegum,
og á ef til vill ekki jafnvel við um þessa hluti. Að líta svo á að hlutir sem
ferðast um og hrannast upp á hafi og fjörum hafi tapað merkingu, villst af
leið og séu utan samhengis, er að gera að engu það sem raunverulega hefur
átt sér stað. Og að leita merkingar þeirra annars staðar en í stjórnlausu
og óreiðufullu reki þeirra, í fjarlægri (mennskri) fortíð og á fjarlægum
stöðum, missir algerlega sjónar af raunverulegu eðli þeirra og alvarleika
þess vandamáls sem við er að etja.
Tími ringulreiðar og fjarlægð fortíðar
Önnur áskorun varðar tíma fornleifafræðinnar og hugmyndina um fortíð
sem fjarlæga og liðna. Líkt og rætt var hér að framan eru þessir þættir og
skilningur fornleifafræðinnar á lagskiptingu tímans gjarnan nefndir sem
styrkleikar hennar, þegar mannöldin er annars vegar. Að grafa fram horfna
fortíð er auk þess að mörgu leyti undirstaðan að ímynd fornleifafræðinnar
bæði útávið og innávið.41 En þótt mikilvægi tímadýptar og langra ferla
(e. longue dureé) sé augljóst og geri það mögulegt að endurheimta horfna
41 Sjá t.d. Harrison o.fl. 2011.