Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2017, Page 25
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS24
eftir að vera) skipulögð og „snyrtileg“, en ekki óreiðufull og tilviljanakennd.
Hugmyndin um fortíðina sem „púsluspil“, sem gjarnan er gripið til í
almennum skýringum á eðli hinnar fornleifafræðilegu aðferðar, er af
þessum sama meiði. Það er, í þeirri ímynd er hver bútur skýrt aðgreindur
frá öllum öðrum, og í heildarmyndinni á hann sér einn, og aðeins einn,
réttan stað. Sé annar staður valinn verður heildarmyndin röng.43
Röð og regla fortíðar verður líka oftar en ekki beinlínis sýnileg og
áþreifanleg þegar hún er heimsótt á söfnum. Þá á hún sér upphaf og enda, og
gestir ferðast í gegnum hana í „réttri“ röð, ganga af einu sögusviði í annað
og rekast sjaldan á nokkuð sem stingur í stúf eða passar ekki inn. Hlutir
eru framreiddir í hæfilegum skömmtum, snyrtilegum og aðgengilegum.
Allt er slétt og fellt og fortíðin virðist renna áfram í reglulegum straumi að
einum ósi. Ekkert kraðak og ekkert stjórnlaust rek. Það skal engan undra
að fjölmenning og tímaf lakk rekafjörunnar skuli ekki falla að þessari
mynd. Hér ægir saman hlutum frá ólíkum tímum, af mismunandi gerðum
og f lokkum, og óreiðan getur verið slík að varla verður greitt úr henni.
43 Það skal tekið fram að hneigðin til þess að raða og flokka er ekki einkennandi fyrir fornleifafræðina
eina, heldur hefur hún sett svip sinn á flest nútímavísindi og hugmyndafræði.
Litríkur reki í Eidsbukta, Porsanger, Noregi. Ljósmynd: Þóra Pétursdóttir.