Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2017, Qupperneq 30
29GENGIÐ Á REKA – FORNLEIFAFRÆÐI MANNALDAR
Lokaorð: Vitundarvolk
Líkt og rithöfundurinn Macfarlane segir í tilvitnuninni í upphafi greinar,
ýtir hugmyndin um mannöld allhressilega við mörgum þeim viðteknu
ímyndum sem við höfum um náttúru, menningu, tíma og rúm. Ég hef í
þessari grein reynt að fara á fjörur við fornleifafræði mannaldar og hvernig
hún þarf að leita út fyrir rammana, út fyrir hefðbundna menningarsögu,
staðlaðan línulegan tíma og aðgreiningu náttúru og menningar. Með
hliðsjón af rekafjörunni hef ég líka reynt að sýna fram á hvernig hugleiðingar
á þessum brautum kvikna svo að segja sjálfkrafa ef sjónum er beint að
arf leifð mannaldar, og hún tekin alvarlega sem fornleifafræðilegt viðfang.
Í grein sinni „Hugleiðingar við Öskju“ fjallar Páll Skúlason um
samband manns og náttúru á tilvistarspekilegum nótum.53 Þar segir
hann frá því hvernig fyrsta heimsókn hans að Öskju kveikti með honum
vangaveltur og spurningar um veröldina, um heildir og samhengi, náttúru
og mannshugann. Margar spurninganna voru raunar gamalkunnar, en Páll
lýsir því hvernig Askja og sá heimur sem við honum blasti gæddi þær nýju
lífi. Í greininni notar Páll Öskju „sem tákn um sérstök og mikilvæg kynni
af veröldinni og því sem í henni býr“54, en önnur sambærileg tákn gætu, að
hans sögn, verið t.d. Kverkfjöll, Dettifoss eða íslensk náttúra í heild sinni.
Í lýsingu sinni á eins konar frumkrafti Öskju segir hann:
Að koma til Öskju er eins og að koma til jarðarinnar í fyrsta sinn, öðlast
jarðsamband. Þess vegna vakna þar spurningar um jörðina og okkur sjálf
og tengsl okkar við hana.
Að koma til Öskju hefur því – í mínum huga – einfalda og skýra
þýðingu: Það er að uppgötva jörðina og sjálfan sig sem jarðarbúa. Að vera
jarðarbúi og finna líf sitt bundið jörðinni, ef ekki beinlínis sprottið af
henni, finna að hún er forsenda lífsins“.55
Samkvæmt þessu, og eins og Páll skýrir frá, er það þegar við stöndum
frammi fyrir Öskju og öðrum „Öskjum“, sem hugur okkar kviknar og við
uppgötvum okkur sjálf og stað okkar í veröldinni. Eða, með orðum hans
sjálfs, „[þ]að er einmitt í tengingu hugans við náttúruna sem sjálfstæða
heild sem mannheimur verður til“.56
Margir kannast ef laust við þá upplifun að standa á Öskjubrún og geta
vart annað en hugleitt heiminn og lífið sjálft. Það má hins vegar spyrja
53 Páll Skúlason 1995.
54 Sama heimild, bls. 13.
55 Sama heimild, bls. 14-15.
56 Sama heimild, bls. 20.