Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2017, Side 38
GUNNAR KARLSSON
UM JARÐHÝSI, DYNGJUR OG BAÐSTOFUR
Á nokkrum stöðum á Íslandi hafa fundist rústir af litlum húsum,
niðurgröfnum, frá miðöldum. Lengi mun lítið hafa verið tekið eftir þeim,
enda komu þau ekki augljóslega heim við lýsingar fornsagna á bústöðum
manna. Mun það hafa verið Þór Magnússon þjóðminjavörður sem fyrstur
manna setti þessi hús í evrópskt byggingarsögusamhengi eftir að hann hafði
grafið upp fimm slík hús í eða nálægt húsaþyrpingu sem hann kannaði í
Hvítárholti í Hrunamannahreppi, Árnessýslu. Þór benti á að þetta væru hús
af því tagi sem væru kölluð Grupenhäuser á þýsku, grubehuse á dönsku og pit
houses á ensku.1 Uppgötvun Þórs varð til þess að hann lagðist í rannsókn á
þessari gerð bygginga og hleypti þeim þannig inn í íslenska byggingarsögu
sem sérstakri gerð húsa.2 Síðar hafa fundist f leiri slík hús víðs vegar um
landið eins og kemur fram í töf lu 1 hér á eftir (bls. 62-63).
Þór Magnússon kallaði þessi hús umyrðalaust jarðhús. En rétt er að
taka fram áður en lengra er haldið rannsóknarsögunni að Þór Hjaltalín
fornleifafræðingur hefur nýlega vakið athygli á að orðið jarðhús í
miðaldamáli er jafnan notað um göng sem lágu neðanjarðar frá bæjarhúsum
og hafa líklega einkum verið f lóttaleiðir undan árásarmönnum. Um slík
hús er gjarnan notað orðið souterrains á Evrópumálum, meðal annars
ensku. Þór taldi því villandi að nota orðið jarðhús um pit houses, stakk
ekki beinlínis upp á orði um þau en notaði um þau orðið jarðhýsi.3 Ég er
sammála Þór Hjaltalín um að óheppilegt sé að hafa um pit houses orð sem
miðaldamenn notuðu um annars konar hús en er svartsýnn á að auðvelt
verði að venja fólk á að halda svo líkum orðum sem jarðhús og jarðhýsi
aðgreindum. Þó ætla ég að fylgja fordæmi Þórs og tala um þessi hús sem
jarðhýsi. Þó verður auðvitað ekki forðast að tala um þau sem hús eins og
hverjar aðrar byggingar.
Þór Magnússon taldi að það hefði verið hús af þessu tagi sem sagt er frá
1 Þór Magnússon 1973, bls. 58.
2 Sama heimild, bls. 14-19, 26-33, 37-40, 51-52, 57-61.
3 Þór Hjaltalín 2010, bls. 143-144.