Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2017, Side 42
41UM JARÐHÝSI, DYNGJUR OG BAÐSTOFUR
á Íslandi og kemst að þeirri niðurstöðu að þau hafi umfram allt verið
ullariðnaðarstaðir kvenna. Í framhaldi af því stingur hún upp á, og styður
rökum, að þessi iðja hafi haft einhverja trúarlega merkingu í heiðni, og því
leggist jarðhýsin niður í framhaldi af kristnitöku þjóðarinnar.17
Efni þessarar greinar er að tína saman meiri og nákvæmari fróðleik um
jarðhýsi og dyngjur á Íslandi en áður hefur verið gert, ræða hlutverk húsanna
og meta hvort það virðist rétt að það séu sömu húsin sem ritheimildir kalla
dyngjur og fornleifafræðingar grafa upp sem jarðhús eða jarðhýsi.
Settar hafa verið fram kenningar um uppruna íslensku jarðhýsanna.
Þannig hefur pólskur fornleifafræðingur, Przemyslaw Urbańczyk, haldið
því fram að þau séu sérstaklega lík jarðhýsum sem slavneskt fólk hefði byggt,
einkum vegna þess að þau hefðu ofna í hornum húsanna, og bæru þau því
vitni um landnámsmenn af slavneskum uppruna á Íslandi. Báðir útlendu
höfundarnir sem eru kynntir hér að framan, Nikola Trbojević og Karen
Milek, hafna þessari skoðun. Trbojević segir að íslensku hornofnarnir séu
ekki af sömu gerð og þeir slavnesku. Milek segir að hús með einkennum sem
eru samsvarandi í slavneskum og íslenskum jarðhýsum sé líka víða að finna
í Þýskalandi og á Norðurlöndum. Þar að auki sé ekki fjarri lagi að jarðhýsi
hafi verið á f lestum íslenskum bæjum á víkingaöld. Þótt vafalaust hafi
mörg farið framhjá rannsakendum meðan uppgraftartækni var frumstæðari
en nú hafi fundist jarðhýsi á 13 bæjum af 26 þar sem skálar hafi fundist.
Fráleitt sé að þessi jarðhýsi séu reist af slavneskum landnámsmönnum þegar
hvergi finnist vottur af slavneskum orðum, örnefnum eða mannanöfnum
í máli landsmanna.18
Þá hefur verið bent á að íslensku jarðhýsin líkist húsum sem Samar í
Skandinavíu hafi byggt sér og kalli gamma.19 Sú skoðun hlýtur að falla fyrir
sömu rökum og sú sem eignaði Slövum jarðhýsin; útilokað er að hingað
hafi komið svo mikill fjöldi Sama að þeir gætu sett svip á byggð í landinu.
Jarðhýsi voru einfaldlega samevrópskt fyrirbæri sem barst til Íslands eins og
hver önnur algeng menning en tók þar kannski nokkuð sérstæðri þróun
eins og rætt verður í greininni.
Hér er stefnt að því að ná inn í töf lu 1 (sjá bls. 62-63) öllum jarðhýsum
sem vitað var um með fullri vissu og hafði verið lýst nákvæmlega á prenti
þegar gengið var frá handriti greinarinnar. Auk þess eru birtar upplýsingar
úr rannsóknarskýrslum þótt ekki séu þær útgefnar í þeim skilningi að þær
17 Milek 2012, bls. 85-123.
18 Trbojević 2008, bls. 82-83; Milek 2012, bls. 89, 91-93.
19 Bjarni F. Einarsson 1992, bls. 113-116; Hjörleifur Stefánsson 2013, bls. 48.