Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2017, Page 72
INGA LÁRA BALDVINSDÓTTIR
BRAUTRYÐJENDUR Í LJÓSMYNDUN
VIÐ FORNLEIFARANNSÓKNIR
Teikningar af rannsóknasvæðum voru hluti af starfi margra þeirra sem
stunduðu fornleifarannsóknir á Íslandi á seinni hluta 19. aldar. Ljósmyndun
var enn fjarri þessum vettvangi, enda ekki komin á það þroskastig hér á
landi að vera nýtt við rannsóknir af neinu tagi af heimamönnum. Undir
lok aldarinnar varð breyting þar á. Hér verður rakið upphafið á notkun
ljósmyndunar við fornleifarannsóknir.
Þorsteinn Erlingsson skáld fór í fornleifaleiðangur á vegum fröken
Corneliu Horsford sumarið 1895. Honum var ætlað að leita svara við
spurningum tengdum meintum rústum frá Vínlandi í Vesturheimi.
Leiðangurinn var bundinn við Suðurland, Vesturland og Vestfirði.
Liður í undirbúningi var að Þorsteinn lærði að taka ljósmyndir, líklega
í Kaupmannahöfn. Í bókinni Ruins of the Saga Time, sem gefin var út um
rannsóknirnar fjórum árum síðar eða árið 1899, kemur fram að Þorsteinn
hefur skoðað og skrifað um 218 rústir og aðrar minjar í dagbækur sínar. Í
bókinni birtist tugur ljósmynda af rústum og uppgraftarsvæðum, dysjum
o.f l. og ein að auki sem sýnir bæjarstétt. Einnig er þar að finna fjölda
teikninga af rústum og minjum.
Safn með glerplötum Þorsteins frá sumrinu 1895 er varðveitt í
Þjóðminjasafni.1 Þar er að finna níu ljósmyndir af uppgraftarsvæðum frá
sex stöðum en staðirnir sem hann gróf á eru hið minnsta fjórtán samkvæmt
frásögn hans. Myndir eru frá Áslákstungu, Eiríksstöðum, Lambhöfða,
Flókanausti, Hrafnshaug og einum óþekktum stað. Þorsteini hafa verið
ljósir meinbugir þess að ljósmynda svo vel væri uppgraftarstaðina og vísar
til þess í frásögn sinni á nokkrum stöðum. Þannig segir hann um uppgröft
á Laugaþýfi: „Ég reyndi að ljósmynda rústirnar, en þar sem ég náði ekki
góðri mynd af þeim í heild sinni og hefði aðeins náð útlínum af hæð 600
1 Í plötusafni Þorsteins eru alls 29 glerplötur. Það var afhent til Þjóðminjasafnsins 4. september 1964.
Ekki verður neitt sagt um hvort þetta er heildarsafn af myndum Þorsteins, en það er líklegt þar sem í
því er að finna allar myndirnar sem birtust í útgáfunni um rannsókn hans.
MYNDIR