Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2017, Page 114
113SVIPMYND AF MENNINGARLANDSLAGI – ÍSLENSK TÚNAKORT
skoða mælingabækurnar og önnur frumgögn.45 Um helmingur bókanna
var merktur með nafni mælingamanns og í svipuðum fjölda tilfella var
bókin einnig ársett. Mælingarnar voru vanalega settar fram þannig að nafn
bæjarins þar sem tún voru mæld var fremst, þá voru ritaðar mælingarnar
sjálfar (sem gjarnan náðu yfir a.m.k. tvær síður og oft mun f leiri) og að
lokum útreikningur á stærðum túna og matjurtagarða. Mælingamenn
settu út eina eða f leiri grunnlínur og mældu svo út frá þeim jaðar túns,
kálgarða, bæjarstæði og oftast einnig útihús og vegi. Sumir þeirra mældu
ýmislegt annað svo sem tóftir, brunna, órækt og móa, ár og læki o.s.frv.
Fjöldi og nákvæmni mælinga var nokkuð misjafn eftir mælingamönnum.
Það var t.d. misjafnt hvort menn lögðu út eina grunnlínu eða margar
(dæmi eru um allt að sjö grunnlínur) og hversu langar grunnlínurnar
voru að jafnaði. Algengt var að grunnlínur væru 160-300 m langar en
í sumum tilfellum var grunnlína allt að 600 m löng. Í um fjórðungi
mælingabókanna var algengast að sjá eina grunnlínu þótt oftast hafi verið
einhverjar undantekningar frá því í hverri bók. Í sumum tilfellum er ljóst
að ástæða þess að mælingamaðurinn notaði bara eina línu er að túnin sem
hann mældi voru lítil. Í öðrum tilfellum virðist mælingamaðurinn halda sig
við staka línu sem fasta mælitækni óháð stærð túnanna. Algengast var hins
vegar að mælingamenn notuðu þrjár til fimm grunnlínur eftir stærð og lagi
túna. Í nokkrum hreppum virðast hafa verið notaðar enn f leiri grunnlínur.
Flest eru dæmin um slíkt úr Norður-Múlasýslu (fjórum hreppum) þar sem
mælingamaður notaði sjaldnast færri en fjórar línur. Þar sem aðeins voru
notaðar ein eða tvær grunnlínur var algengara að grunnlína væri mjög
löng. Misjafnt er hversu miklar upplýsingar er að finna um grunnlínurnar
í mælingabókum. Flestir mælingamenn merktu þær þó með númerum og
gerðu grein fyrir áttum. Sumir mældu t.d. alltaf úr vestri en algengast var
að menn létu staðhætti ráða stefnu grunnlína.
Mjög misjafnt er hvernig mælingamenn færðu inn upplýsingar um
mælingar á vettvangi. Oftast settu þeir þó upplýsingar um grunnlínu
lóðrétt eftir miðri blaðsíðu, skráðu svo mælingar til beggja átta út frá
henni og rissuðu þá gjarnan inn gróf lega það sem mælt var, án þess að það
væri í kvarða. Um f lestar mælingabækurnar gildir að ekki fæst góð mynd
af túnunum sem mæld voru með því einu að horfa á rissið þar. Á þessu
eru hins vegar undantekningar. Sumir mælingamenn unnu greinilega
mælivinnuna á þennan hátt en drógu að auki upp grófa mynd af túninu
45 Sem fyrr segir eru slík gögn aðeins tiltæk í um þriðjungi tilfella og byggir því umfjöllun um þessi
frumgögn á þeim.