Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2017, Side 125
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS124
Eftir stendur því bara einn hreppur sem aldrei var skilað í heild sinni en það
var Villingaholtshreppur í Árnessýslu.61
Auk þeirra hreppa sem voru eftir í heild taldist túnamælingu ekki að
fullu lokið í 19 hreppum. Mjög misjafnt var þó hversu mikið var eftir og
er líklegt að í einhverjum tilfellum hafi ráðuneytið einfaldlega ekki fundið
uppdrætti sem þegar höfðu verið sendir inn eða gerir kröfu á mælingar
á túnum sem skilja má af reglugerð að þurfi ekki að mæla. Samtals
vantaði túnakort fyrir um 116 tún í umræddum hreppum samkvæmt
yfirliti. Víða voru það örfá smábýli sem vantaði, og líklega hefur þeim
verið sleppt vísvitandi, en stundum virðist vanta talsverðan fjölda smábýla
(t.d. á Eyrarbakka og í Ytri-Akraneshreppi). Í sumum hreppum vantaði
aðeins stakar jarðir. Af lauslegri yfirferð um túnakortasafnið má ráða að
fæstir af þeim stöku uppdráttum sem raunverulega vantaði (sumir virðast
hafa þegar verið komnir inn) hafi skilað sér. Erfitt er að segja um hvers
vegna stakar jarðir vantar inn í túnakortasöfn hreppa en ekki er ólíklegt að
einstaka landeigendur hafi verið tregir til að leyfa mælingar, viljað gera það
sjálfir, ekki getað lánað aðstoðarmenn til verksins o.s.frv., en svo er einnig
mögulegt að veður og óvæntir atburðir hafi getað komið í veg fyrir að
mælingamenn lykju verkinu á stöku stað.62 Ásamt því að senda áminningu
um þær jarðir sem voru ómældar virðast starfsmenn ráðuneytisins hafa
farið yfir hvort mælt hefði verið í samræmi við lög. Þannig senda þeir
athugasemdir um að allar kálgarðamælingar vanti í Skeiða- og Ytri-
Akraneshrepp og að hluta af slíkum mælingum vanti í a.m.k. sex hreppum
til viðbótar. Ekki virðist hafa verið gerð sama krafa um teikningar útihúsa
og ekki hafa fundist neinar kvartanir um að teikningar af útihúsum vanti á
túnakortin í Norður-Múlasýslu eða að vegir og heimreiðar hafi víða ekki
verið teiknaðar.
61 Auk þess voru reyndar talin upp sem óskráð svæði þéttbýli s.s. Reykjavík, Hafnarfjörður, Borgarnes,
Ísafjörður, Siglufjörður, Akureyri, Seyðisfjörður og Neskaupstaður en samkvæmt túnamælingalögum
stóð aldrei til að mæla þessa staði.
62 Yfirlitsblað yfir túnakort sem á eftir að skila inn, dagsett 10. maí 1925 og bréf Stjórnarráðs
(minnisblað) um bréf sem skyldi senda öllum sýslumönnum þeirra sýslna sem uppdrættir voru
ókomnir úr, dagsett 19. maí 1924.