Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2017, Qupperneq 174
173RITDÓMUR: ÞJÓÐMINJAR
á sínum tíma þrælmikil áhrif til að ljá vanda þess og vegsemd að vera
Íslendingur fyllri merkingu. Hugmyndalegar rætur safnsins liggja í því
markmiði að aðgreina sig frá hinu alþjóðlega samhengi og leggja með því
áherslu á sérstöðu íslensku þjóðarinnar. Ef að líkum lætur hefði Sigurði
málara og félögum þótt „félagslegt réttlæti“, a.m.k. í nútímaskilningi, eða
„fjölmenning“ vera harla framandi markmið fyrir forngripasafn.
Í bókarhlutanum um rannsóknarstarf er stuttlega getið um eldri
rannsóknir tengdar Þjóðminjasafninu en áherslan er þó einkum á hina
síðari áratugi svo sem eðlilegt má teljast. Þegar kemur að miðlunarhlutanum
er þunginn allur á starfið eftir að safnahúsið við Suðurgötu var opnað
eftir endurbætur með nýrri grunnsýningu árið 2004. Það sama á við um
umfjöllun um safnkostinn þar sem áherslan er á stöðu mála hin síðari ár
þótt einstök söfn eða safnhlutar séu víða settir í gagnlegt sögulegt samhengi.
Það er eftirbreytnivert að forsvarsmaður menningarstofnunar ráðist í að
vinna heildstætt verk um stofnun sína: sögu, verksvið, stefnu, starfshætti og
starfsaðstæður. Þetta á ekki síst við um stofnun sem gegnir lykilhlutverki
á sínu sviði eins og Þjóðminjasafnið sem hefur sérstökum skyldum að
gegna við minjavörslu í landinu. Höfundur ritsins er þjóðminjavörður
en Margrét Hallgrímsdóttir hefur gegnt þeirri stöðu frá aldamótum.
Ritstjóri bókarinnar er sömuleiðis innanbúðarmaður, Anna Lísa Rúnars-
dóttir, sviðsstjóri rannsókna- og þróunar, en hún var um tíma settur
þjóðminjavörður.
Öðrum þræði má líta á verkið sem skýrslu um starfsemi þessa
höfuðsafns landsins á sviði menningarminja, greinargerð um sögu þess og
stöðu í samtímanum. Þungi bókarinnar er eins og áður segir samantekt
um starfsemina á þeim tíma sem Margrét hefur verið við safnið bæði
hvað varðar starfsskilyrði s.s. regluverk, húsnæði og alþjóðlegt umhverfi
safnastarfs og svo eiginlegt starf safnsins á sviði varðveislu, rannsókna og
miðlunar. Að því leyti sver bókin sig í ætt við skrif fyrirrennara Margrétar
í starfi þjóðminjavarðar, rita á borð við Hundrað ár á Þjóðminjasafni eftir
Kristján Eldjárn, sem kynnt var á sínum tíma sem „alþýðlegt kynningarrit
um Þjóðminjasafnið“ með einstökum dæmum „sem eiga að koma
fróðleiksfúsum lesanda á bragðið“ eða skrifa Matthíasar Þórðarsonar um
safnið, sögulegar rætur þess, þróun, hlutverk og stefnu frá sjónarmiði
stjórnandans. Sem slíkt hefur ritið Þjóðminjar mikið gildi, þar sem gefið er
yfirlit þess sem öllum hnútum er kunnugur, jafnframt því sem við fáum
innsýn í gangverkið sem drífur starfsemina áfram og hvernig útfærslunni
hefur verið háttað.