Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2017, Page 176
175RITDÓMUR: ÞJÓÐMINJAR
réttlæti og fjölmenningu í alþjóðlegu samhengi“ í starfsemi safnsins nú um
stundir. Nánari umfjöllun um hugmyndalegan grunn slíkra áherslna og
hvað felist nákvæmlega í þeim hefði þannig verið gagnleg sem og hvernig
þær birtast í varðveislustefnu, rannsóknum og sýningum safnsins. Það
hvernig þessu er háttað er engan veginn sjálfgefið enda geta skoðanir á
þessi sviði verið mjög skiptar. Þeir sem til þekkja geta vitanlega merkt
ágreining og átök um stefnu og starfsemi í textanum. Þannig er þess getið
að skiptar skoðanir hafi verið um ýmis efni og hvert bæri að stefna en harla
lítið sagt frá efnisatriðum. Um árin um og eftir aldamótin síðustu kemst
höfundur þannig að þeirri niðurstöðu, sem er svo ekkert frekar útskýrð,
að þetta „uppbyggingarskeið Þjóðminjasafnsins einkenndist að mörgu leyti
af ríkum samvinnuvilja þeirra sem komu að málum, en einnig af skiptum
skoðunum, meðbyr sem mótbyr, og allt hafði þetta áhrif“ (42). Ekki svo
að skilja að sérstök þörf sé á að draga skoðanaskiptin fram í dagsljósið. Ekki
þá nema til þess að sýna þau ólíku sjónarmið sem upp komu um starf og
stefnu safnsins, ólík markmið og ólíkar leiðir. Það hvernig mismunandi
hugmyndir um hvað er gert og hvernig, getur varpað mikilvægu ljósi á
þróunarsögu safnsins, samtal stjórnunar, stjórnmála, fræða og samfélags,
þá menningarpólitík sem rekin er og þá hugmyndafræði sem allt starf
stofnunarinnar hlýtur að byggjast á. Fyrir stofnun eins og Þjóðminjasafn sem
gegnir stýrandi hlutverki í þekkingarsköpun um íslenska menningarsögu,
hvernig hún er varðveitt efnislega og hvernig sú varðveisla er matreidd
fyrir þjóðina, hlýtur að teljast býsna brýnt að kafa í slík mál.
Hvað sem þessum takmörkum líður skilur þetta mikla yfirlitsrit
fyrst og fremst eftir sig tilfinningu fyrir – og líklega er það þegar öllu
er á botninn hvolft einn helsti tilgangur bókarinnar – hversu mögnuð
stofnun Þjóðminjasafn Íslands er. Að vísu kann það að snerta þolmörk
lesenda hve oft bókarhöfundur fann sig knúinn til að ítreka hversu merk
stofnunin er. Það breytir því ekki að það býr óhemju mikill auður í þessu
safni, í safngripum þess, varðveislu þeirra, og því mikilvæga miðlunar-
og rannsóknastarfi sem því tengist – og því er ekki bara haldið fram í
verkinu heldur er það líka berlega sýnt. Gagnsemi ritsins felst ekki síst í
samantektinni um starfsemina sem gefur lesanda breiða og fjölþætta sýn á
stofnunina og þá um leið þann hluta efnislegra minja sem íbúar landsins
hafa skilið eftir sig og sem varðveitt er á Þjóðminjasafninu. Verkið horfir
kannski fyrst og fremst út fyrir fræðaheiminn til að upplýsa alþjóð, og ekki
síst bakhjarla safnsins og þá sem skammta minjavörslunni fjármagn, um
það brýna starf sem þarna er unnið; um það sem „við“ erum að fá fyrir