Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2017, Blaðsíða 182
181RITDÓMUR: REYKHOLT. THE CHURCH EXCAVATIONS
rannsóknarinnar lýtur að því hvenær kirkja var fyrst reist í Reykholti.
Óbein yngri ritheimild, Bandamannasaga, getur um prest á staðnum um
miðja 11. öld en elstu samtímaheimildir um Reykholtskirkju finnast í
máldögum frá miðri 12. öld. Hafi niðurgrafna 11. aldar mannvirkið staðið
sjálfstætt og ekki verið í gólfi stærra húss, er fátt sem styður túlkun þess
sem kirkju, í það minnsta hefðbundinnar gerðar. Rannsakendur túlka
mannvirkið sem mögulegar leifar stærri timburkirkju, sem kunni að
mestu að hafa horfið við endurbyggingar. Niðurgröfturinn hafi þá þjónað
sams konar tilgangi og í næstu tveimur byggingastigum þ.e. líklega sem
kjallari undir timburgólfi. Til stuðnings þessari túlkun nefna höfundar þá
staðreynd að yngri kirkjur Reykholtsstaðar voru byggðar á sama stað allt
fram á síðari hluta 19. aldar. Það er vissulega rétt að kirkjur stóðu oft á sama
stað um aldir en ekki var þó óalgengt að elstu kirkjur væru reistar á grunni
eldri hvunndagslegri mannvirkja eins og smiðjum, útihúsum og jafnvel
íveruhúsum. Má þar nefna kirkjurnar á Stöng í Þjórsárdal, á Stóru-Seylu
og í Keldudal í Skagafirði.
Við jarðsjármælingar kom fram ferkantaður kirkjugarðsveggur sem
umlukti elstu byggingaskeiðin. Garðurinn má teljast frekari vísbending
um tilgang og notkun bygginganna þó svo að ekki væri hægt að tímasetja
hann nákvæmlega. Erfitt kann að reynast að sanna með óyggjandi hætti
hvenær kirkja var fyrst reist í Reykholti nema með frekari uppgreftri á
kirkjugarðinum sjálfum. Hann er enn í notkun og liggur því ekki vel við
rannsóknum. Ekki er þó nein sérstök ástæða til að draga í efa þá túlkun
höfundar að kirkja hafi verið komin snemma í Reykholti og má því til
stuðnings nefna rannsóknir á skagfirskum miðaldakirkjum sem sýnt hafa
að á jörðum þar sem kirkjur stóðu á síðari öldum, voru þegar komnar
kirkjur og kirkjugarðar snemma á 11. öld.
Aftan meginmáls eru skýrslur ýmissa sérfræðinga sem ítarefni, en
almennari umfjöllun um viðfangsefni þeirra er að finna í meginmáli.
Timothy J. Horsley skrifar um jarðsjármælingar á kirkjugarðinum, Thilo
Rehren um greiningar á bjöllum og deiglum, Angela Curry og Thilo
Rehren um greiningar á gleri úr kirkjugluggum, Ian A. Simpson og Karen
B. Milek skrifa um greiningu á jarðvegi og gólfi kirkjunnar frá 12. öld og
Kevin P. Smith ritar um notkun og vinnslu jaspis og annarra steintegunda.
Allar skýrslurnar eru ríkar af myndefni, töf lum og teikningum.
Bókin er í raun ígildi ítarlegrar rannsóknarskýrslu þar sem lagt er
fram mikið magn upplýsinga og ítarefnis í áferðarfallegu formi. Hún
er prýdd fjölda góðra mynda, teikninga og taf lna sem gagnast jafnt til