Börn og menning - 01.04.2012, Blaðsíða 10

Börn og menning - 01.04.2012, Blaðsíða 10
10 Börn og menning Jón Konráðsson hefur vafalaust gert sér grein fyrir, rétt eins og viðmælendur Brynhildar, að bókakostur safnanna þarf að vera í takt við tímann og að nýjar bækur eru góð leið til að lokka börnin inn á safnið. Það er vissulega satt og rétt að bókakostur skólasafna þarf að vera í takt við tímann. Nýjar barna- og unglingabækur eru góðar gulrætur til að lokka ungmennin inn á söfnin og árlega kemur út fjöldi prýðisgóðra bóka sem eiga erindi á skólabókasöfnin. En börnin gera fleira en lesa nýjustu bækurnar á söfnunum. Þau læra og leika sér, leita að upplýsingum á tölvum og bókum og síðast en ekki síst komast þau í kynni við allan þann fjölda bóka sem á söfnunum er að finna. Á hverju skólabókasafni er að finna svo miklu, miklu fleiri bækur en nokkurt barn kemur til með að eiga sjálft heima hjá sér. Bókasafnið er staður þar sem börn uppgötva eitthvað nýtt og þetta nýja getur vel verið eitthvað gamalt og gott. í þessu hefti Barna og menningar er meðal annars fjallað um bækur Enid Blyton, bækumar um Önnu í Grænuhlíð, Blómakörfuna, Bláskjá, bækurnar um Erilborg eftir Richard Scarry, Sitji Guðs englar eftir Guðrúnu Helgadóttur, Næturbókina eftir Mauri Kunnas og fjölda annarra bóka sem greinarhöfundar minnast þess að hafa lesið, sumar aftur og aftur, á sínum yngri árum. Þetta eru bækur sem eru hluti af bókmenningu höfundanna, minningum þeirra og persónuleika og eru í dag bækurnar sem höfundar fletta með nostalgíublik í augum. Ótal fleiri bækur má telja til, miklu fleiri en rými er fyrir hér. Ragnheiður Gestsdóttir fjallar einnig um þekktar og elskaðar persónur barnabóka í sögunni „Eins og í sögu" sem minnst var á hér í upphafi. Þar læsist aðalpersónan inni á skólabókasafni eftir að hafa flúið undan hrekkjusvínum. Á safninu lifna við ýmsar sögupersónur; Óliver Twist lætur í sér heyra og sömuleiðis Gúmmí-Tarsan og Lína langsokkur. Einnig er minnst á Mjallhvíti og Þyrnirósu, Móglí, Róbinson Krúsó og Bastían úr Sögunni endalausu. Sögurnar sem fjalla um þessar persónur eru ekki sérlega nýjar, og sumar ansi gamlar. Engu að síður þarf að halda upp á þær og hafa þær aðgengilegar svo að börn og unglingar lesi þær. Að halda áfram að lesa og hætta helst aldrei Við þurfum að gera „eitthvað" til að fá börn til að lesa og hætta því aldrei. Þetta eitthvað er ekki að loka og læsa skólabókasöfnum né heldur að halda þeim opnum með lélegum bókakosti og nánast engri endurnýjun bóka. Skólabókasöfnin eru staður þar sem börn fræðast og skemmta sér, staður þar sem þau lesa og finna bækur. Þar eiga þau að hafa aðgang að brakandi ferskum bókum eftir rithöfunda dagsins í dag en þau eiga líka að hafa aðgang að eldri bókum og til staðar þurfa að vera sérmenntaðir starfsmenn sem beina athygli barna að bókum sem þeim hefði kannski annars yfirsést. Skólabókasafnið á að vera staður þar sem nostalgían fær að blómstra og ný verður til. Við verðum að sjá til þess að svo verði áfram. Þetta er ein leiðin af mörgum til að fá börn og unglinga til að lesa, halda áfram að lesa og hætta helst aldrei. Höfundur er doktorsnemi í barnabókmenntum við Háskóla íslands Hvað er nostalgía? Hugtakið nostalgía er nátengt barnabókinni. Sumir bamabókahöfundar leita i eigin æsku og smekk þegar þeir skrifa sögur fyrir börn, aðrir skrifa hreint og beint fyrir sjálfa sig eða barnið sem þeir eitt sinn voru. Enn aðrir sækja í eigin bernskuminningar og rifja upp, með nostalgíublik í augum, sæta sumardaga. Orðið sjálft á rætur að rekja til ársins 1688 og er myndað úr grísku orðunum nostos sem merkir „heimferð" eða það að snúa til baka heim og algos sem merkir þjáningu. Orðasmiðurinn, sem var svissneskur læknir, vildi með þessu orði lýsa ákafri og örvæntingarfullri þrá hermanna svissneska hersins til að komast frá vígvellinum og heim. Þannig var litið á nostalgíu sem sjúkdóm sem hægt væri að lækna einfaldlega með því að fara heim. Raunin var hins vegar sú að margir „sjúklingar" urðu fyrir vonbrigðum með „lækninguna". í dag er nostalgía fremur tengd lönguninni eftir ákveðnum tíma eða sálarástandi fremur en stað og nostalgía er þannig fyrst og fremst löngunin til að snúa til baka til ákveðins tíma, til tíma barnæskunnar - þar sem allt var einfaldara, friðsamlegra og betra en nú er. Nostalgían skírskotar ekki til raunverulegrar barnæsku heldur ímyndaðrar æsku sem er fegruð og upphafin. Hin nostalgíska barnæska er byggð á völdum minningum á meðan öðrum er úthýst. Hinni fögru, einföldu, hreinu og hamingjuríku æsku er stillt upp sem andstæðu hinnar ófullnægjandi, Ijótu, flóknu og átakamiklu nútíðar. í nostalgíunni felst alltaf sá sári sannleikur að við getum aldrei farið til baka. í henni felst því samtímis hið sára og hið sæta, það sem við finnum og það sem við höfum glatað. Þetta kristallast kannski í því þegar foreldrar ota sínum æskubókum að börnum sínum og óska þess að þau upplifi það sama og þegar þau sjálf lásu þessar sömu bækur fyrir árum og áratugum síðan.

x

Börn og menning

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Börn og menning
https://timarit.is/publication/1541

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.