Fréttablaðið - 03.04.2021, Blaðsíða 50
Enn er mér í fersku minni ferðin góða á útitónleika ensku s t ó r s v e i t a r i n n a r P r o col H a r u m í D a n mör k u . Æ t l i
þeir hafi ekki verið sumarið 2006.
Og fundinn staður í snoturri dal-
bót á miðju Sjálandi, suðvestur
af Hróarskeldu, þar sem heitir
Ledreborg, hvar ríkisstjórinn
Johan Ludwig Holstein lét reisa
sér ríkulega efnaðan kastala um
miðja átjándu öld, byggðan í bar-
okk-stíl. Hann er meðal fegursta
húsa Danmerkur – og talsverð
áminning um að gamla herra-
þjóðin reisti híbýli sín heldur
lengra upp úr jörðinni en
Íslendingar í gamla daga.
Þangað streymdu tón-
leikagestirnir í skipulagðri
röð fyrir svo sem eins og
hálfum öðrum áratug. Og ég
minnist sérstaklega heilu fjöl-
skyldnanna úr nálægu þéttbýli,
með blístrið á vörunum, sem
ýmist báru sólstóla og samfellu-
borð á herðum sér, ellegar tága-
körfur í hendi, barmafullar af
bjórdósum og ákavítisf löskum,
innan um smurbrauðsbauka og
kavíarkrukkur.
Danskara gat það ekki verið.
Og liðið var ligeglad.
Svo settist það í brekkurnar,
margmennið allt saman, eins og
vel skipulagður hópur af háttvísu
fólki, um tuttugu þúsund manns
– og það var ekki að sjá að nokkur
þvaga myndaðist um alla endi-
langa kvosina í þann mund sem
múgurinn var að koma sér þar
fyrir heldur fékk þar hver einasta
sála sitt pláss fyrir djúpa stóla og
dúkað borð sem fumlaust voru fyllt
af heimagerðum kræsingum.
Svo liðu fyrstu tónar A Salty
Dog yfir dalinn. Og mannskapur-
inn hallaði sér aftur með
snafsinn og snittuna á
lofti, lygndi aftur augum
og lét sér líka allt til enda
þegar A Whiter Shade of
Pale vætti vanga og kinn, sá ómþýði
ópus sem sagður er saminn í sjö-
unda himni.
Ógleymanleg stund.
Yndislega dönsk.
Afslöppuð.
En ekki var augnablikið ómerki-
legra þegar ég leit um öxl, að
af loknum tónleikunum og horfði
yfir dal skvompuna eftir að mann-
skapurinn var farinn að tygja sig
heim á leið.
Ég ætlaði ekki að trúa eigin
augum. Það sá ekki á svæðinu. Hver
einasti gestur hafði tekið til eftir
sig. Það sást ekki sérvíetta á fjúki,
hvað þá gleymdar glerf löskur, eða
matur sem misst hafði marks.
Hvammurinn var alveg eins og
að honum var komið.
Og samt sem áður gerum við
Íslendingar okkur þá mynd af
Dönum að þar fari f líruleg þjóð,
sem fljóti í gegnum dagana í dæma-
lausum hálf kæringi, svo til óafvit-
andi um umhverfi sitt – og ef ekki
góðglöð, þá puntuð.
Því er á þetta minnst að ekki
liðu margir sólarhringar frá því að
jarðeldarnir rifu jörð á Reykjanes-
skaga á Íslandi að bjórdósirnar og
bréfmiðarnir byrjuðu að safnast
fyrir í hraunjaðrinum, innan um
sælgætispoka og salernispappír,
svo og annan óþrifnað.
Eyjarskeggjarnir, sem einatt telja
sig á pari við prýðilegustu stórþjóð-
ir á yfirborði jarðar, eigruðu sum sé
inn í eldspúandi dalina með drykki
sína og drjúgan kost, þess fullvissir
sem fyrr að óbyggðirnar taki lengi
við, líkt og hafið allt í kringum þá
hefur gert um aldir.
Og svo makalaus er þessi mann-
skapur allur, að minnsta kosti hluti
hans, að hann á auðveldara með
að fara með fullar dósir á fjöll en
tómar til baka.
Sóðaskapu r er almennu r á
Íslandi. Og hann tekur á sig undar-
legustu myndir. Einna alvana-
legastar eru allar tyggjóklessurnar
eftir endilöngum gangstéttum bæja
og borgar. Og ef menn hafa fyrir
því að horfa upp úr þeim ósköpum
blasir veggjakrotið við á húsalengj-
unum í kring.
Það er sama hvert litið er.
Víðast hvar á gatnamótum getur
að líta óhroðann allan af rusli og
ranimoski, svo sem sígarettustubba
og samlokubréf, svo og drykkjar-
fernur og dósir undir munntóbak.
Allt þetta af hrak liggur eins og
hráviði út um umferðareyjar og
undir vegriðum. Og ekki er við
götusóparana að sakast sem hafa
ekki undan að moka þessu mann-
anna mori upp á pall og aka á burt.
Ætli þetta stafi af hugsunarleysi?
Stutta svarið er nei. Lengra svarið
er skortur á umhyggjusemi fyrir
öllu því sem er í kringum okkur,
altso umhverfinu, inn til bæja og
upp um fjöll.
Eða hvað getur maður annað sagt
eftir að hafa horft á ökumanninn í
bílnum fyrir framan sig stöðva til-
hlýðilega við rauða ljósið á gatna-
mótunum, opna bílstjórahurðina
hálfvegis upp gátt og sturta úr
öskubakka bílsins á bera götuna
fyrir neðan. Eins og ekkert sé sjálf-
sagðara.
Á Íslandi er þetta ekki óalgeng
sjón.
Af því að gatan er gólfsóp.
Það tekur þetta einhver annar
upp.
Ungum var mér kennt það til
fjalla að taka þaðan allt saman með
mér sem ég bæri þangað upp eftir.
Allt saman. Líka bananahýðið. Eða
vömbina utan af lifrarpylsunni. Og
roðið allt af harðfiskinum.
Það er nefnilega svo að allt það
lífræna úrkast, sem við höldum
að náttúran upp til fjalla nærist á,
fer ekki þaðan svo glatt. Kuldinn
í efra er alla jafna meiri en svo að
það brotni auðveldlega niður. Og
því getur göngumaður komið ára-
fjöldunum seinna í gamla nestis-
staðinn sinn og séð þar leifarnar af
löngu étnum föngum sínum.
Og er það hugsunarleysi? Nei,
varla. Öllu frekar skeytingarleysi,
einfaldlega sú hugsun að fjöllin
megi eiga það sem úti frýs. Já, og
náttúran nær og fjær.
Danir öfunda okkur margir af
ægifagurri náttúru sem vísast á
ekki sinn líka í heimi hér. Þeir hafa
ferðast hingað öldum saman til að
kynnast þessum mestu kenjum
jarðarinnar. Okkar óspilltu víð-
ernum.
Eða hvað?
Út fyrir kassann
Sigmundur Ernir Rúnarsson
Höfundur er
sjónvarpsstjóri
Hringbrautar,
sem rekin er af
Torgi, sem jafn-
framt gefur út
Fréttablaðið.
Íslenskur sóðaskapur
OG SVO MAKALAUS ER
ÞESSI MANNSKAPUR
ALLUR, AÐ MINNSTA KOSTI
HLUTI HANS, AÐ HANN
Á AUÐVELDARA MEÐ AÐ
FARA MEÐ FULLAR DÓSIR Á
FJÖLL EN TÓMAR TIL
BAKA.
3 . A P R Í L 2 0 2 1 L A U G A R D A G U R26 H E L G I N ∙ F R É T T A B L A Ð I Ð