Hinsegin dagar í Reykjavík - aug 2019, Qupperneq 31

Hinsegin dagar í Reykjavík - aug 2019, Qupperneq 31
31 Iva Marín Adrichem efaðist um kynhneigð sína snemma á unglingsárunum án þess þó að velta því meira fyrir sér fyrr en seinna meir. Iva fæddist blind og hefur fengið ýmsar spurningar og athugasemdir en það heyrir þó til undantekninga og skrifast oft á fljótfærni. Í viðtali við Ágústu Örnu Sigurdórsdóttur talar Iva Marín um undarlegar spurningar sem hún hefur fengið, hvernig gert er ráð fyrir því að fatlað fólk geti ekki verið samkynhneigt og um vandræðalegt atvik á stefnumóti, sem þó var hægt að hlæja að eftir á. Iva er fædd í Reykjavík sumarið 1998 og hefur verið blind frá fæðingu. „Það er vegna þess að augu mín þroskuðust ekki nægilega í móðurkviði en það er þekkt undir heitinu Anopthalmia,“ útskýrir hún. Snemma á gelgjuskeiðinu fór Iva Marín að efast um kynhneigð sína án þess að velta því neitt meira fyrir sér: „Ég áttaði mig á því endanlega að ég væri samkynhneigð í menntaskóla. Mínir nánustu vissu að ég efaðist um kynhneigð mína þegar ég var yngri. Fjölskyldan mín hvatti mig hins vegar til að leyfa málunum að þróast því kynhneigð skiptir ekki máli í 7. bekk.“ Samkynhneigð jafn sjálfsögð og gagnkynhneigð Þegar í menntaskóla var komið fór Iva Marín að fikra sig hægt og rólega út úr skápnum fyrir fjölskyldu og vinum. „Fyrir um það bil tveimur árum var ég tilbúin að ræða kynhneigð mína opinberlega. Flestir voru mjög afslappaðir og það var ekkert mikið rætt inni á heimilinu þar sem fyrir flestum fjölskyldumeðlimum og vinum er samkynhneigð jafn sjálfsögð og gagnkynhneigð,“ segir hún. Fær skrítnar spurningar og athugasemdir Iva segir að hún hafi eiginlega aldrei komið formlega út úr skápnum nema þá helst fyrir eldra fólki sem hefur alist upp og lifað við önnur gildi. „Mér finnst ég ekki þurfa að útskýra kynhneigðina fyrir neinum. Vissulega fékk ég einhverjar spurningar og athugasemdir,“ segir hún og bætir við að skrítnar spurningar og framkoma heyri til undantekninga. Sumt sé látið flakka í fljótfærni. „Oftast finnst mér bjánalegur hugsunarháttur fyndinn og ég leyfi mér hiklaust að láta fólk finna fyrir því með svarta húmorinn minn að vopni. Einu tilfellin þar sem ég gæti tekið einhvern klaufaskap nærri mér væri kannski ef einstaklingur sem ég þekki vel kæmi með svona athugasemd.“ Engin tengsl milli samkynhneigðar og þess að sjá ekki Meðal þeirra athugasemda sem Iva Marín hefur fengið er að hún sé samkynhneigð vegna þess að hún sé blind og hafi því ekki sömu upplifun af hinu kyninu. Iva segir að engin tenging sé þarna á milli og að þetta sé vitleysa. „Að vera meðvitaður um kynhneigð sína tengist sjón ekki neitt, heldur bara tilfinningum. Auðvitað get ég nýtt mér aðra skynjun en sjón til að vita hvernig mismunandi fólk er,“ segir hún og bætir við: „Einnig hefur fólk gefið í skyn við mig að ég gangi í gegnum lesbískt tímabil og sé bara að uppgötva lífið.“ Hún segir að margar hinsegin konur fái slíkar athugasemdir án þess að það hafi nokkuð með fötlun að gera. Sjálfsmyndin fór í hnút á stefnumóti „Mig grunar að fólk myndi sjaldan lesa mig sjálfkrafa sem samkynhneigða og þar held ég að fötlun mín spili stórt hlutverk því oft virðist ekki gert ráð fyrir að fatlað fólk geti verið samkynhneigt, eða lifað ástalífi yfir höfuð. Til dæmis hef ég lent í því þegar ég var á stefnumóti að fólk hélt að konan sem ég var að hitta væri systir mín. Þó svo ég viti að margar lesbíur fái viðlíka athugasemdir held ég að meiri líkur séu á að ég fái þær vegna fötlunar minnar. Oft er haldið að fólk sem umgengst mig sé að passa mig eða aðstoða og það getur verið pirrandi. Þess vegna fór sjálfsmyndin svolítið í hnút þarna, þó svo að konan hafi ekki tekið þessu illa og hægt væri að hlæja að þessu eftir á,“ segir Iva. Erfitt að gera ráð fyrir öllum Iva Marín segir að fötluðu fólki sé almennt vel tekið í hinsegin samfélaginu og þar séu allir velkomnir sem skilgreini sig hinsegin. Þá hafi aðgengi fyrir fatlað fólk að viðburðum tengdum hinsegin samfélaginu batnað eftir að Samtökin ’78 fluttu í nýtt húsnæði. Þó segir aðgengi ekki alltaf til um hvort gert sé ráð fyrir fötluðu fólki. „Ég hef nokkrum sinnum ætlað á viðburð hjá ungliðahreyfingu þar sem þau voru að spila eða á teiknikvöld. Fyrir mig er það frekar útilokandi þar sem ég þyrfti mjög mikla aðstoð til að taka þátt í flestum spilum og ég get alls ekki teiknað. Þetta upplifi ég samt alls ekki sem fordóma enda er mjög erfitt að ætla alltaf að gera ráð fyrir öllum,“ segir Iva og bætir við að aðgengi fyrir hjólastóla að hinsegin skemmtistöðum í miðborginni sé lítið sem ekkert. „Það er útilokandi fyrir stóran hóp fatlaðs fólks.“ Fjarráðgjöf gæti hjálpað fötluðu fólki En þarf fatlað fólk öðruvísi stuðning eftir að það kemur út úr skápnum? Iva segir að svo hafi ekki verið í hennar tilfelli en telur að það sé erfiðara fyrir fatlaða einstaklinga að koma út úr skápnum ef þeir hafi ekki sterkt bakland í fjölskyldu og vinum. „Einnig held ég að það fari eftir því hvaða fötlun einstaklingar búa við og hvort þeir fái persónulega aðstoð í daglegu lífi. Þegar kemur að því að sækja sér ráðgjöf eða kynnast fólki er margt fatlað fólk upp á aðstoð fjölskyldu, vina eða fólks sem það treystir ekki endilega fyrir viðkvæmum málefnum komið. Ég get ímyndað mér að það gæti hjálpað að hafa til dæmis ráðgjafa innan Samtakanna ’78 sem hefði sérstaka þekkingu á stöðu fatlaðs hinsegin fólks og gæti aðstoðað það við að taka fyrstu skrefin út úr skápnum. Gott væri að veita þess háttar þjónustu í fjarráðgjöf, þar sem fyrir sumt fólk getur verið heljarmál eitt og sér að komast út úr húsi. Af eigin reynslu get ég til dæmis sagt að áður en ég kom út úr skápnum fyrir öllum fór ég nokkrum sinnum á viðburði hjá Samtökunum ’78 og tók þá leigubíl á vegum Ferðaþjónustu blindra. Ég þekki marga sem nýta sér þessa þjónustu og það er ekki gefið að bílstjórar virði alltaf trúnað við skjólstæðinga sína. Því fannst mér þetta óþægilegt og var hrædd um að verða fyrir slúðri. Þó vil ég árétta að þetta er algjört lúxusvandamál því sumir notendur Ferðaþjónustu fatlaðra þurfa að gefa upp viðkomustað þegar þeir panta bíl en fyrir suma getur það verið viðkvæmt að gefa upp hvert þeir eru að fara,“ segir Iva Marín að lokum.
Qupperneq 1
Qupperneq 2
Qupperneq 3
Qupperneq 4
Qupperneq 5
Qupperneq 6
Qupperneq 7
Qupperneq 8
Qupperneq 9
Qupperneq 10
Qupperneq 11
Qupperneq 12
Qupperneq 13
Qupperneq 14
Qupperneq 15
Qupperneq 16
Qupperneq 17
Qupperneq 18
Qupperneq 19
Qupperneq 20
Qupperneq 21
Qupperneq 22
Qupperneq 23
Qupperneq 24
Qupperneq 25
Qupperneq 26
Qupperneq 27
Qupperneq 28
Qupperneq 29
Qupperneq 30
Qupperneq 31
Qupperneq 32
Qupperneq 33
Qupperneq 34
Qupperneq 35
Qupperneq 36
Qupperneq 37
Qupperneq 38
Qupperneq 39
Qupperneq 40
Qupperneq 41
Qupperneq 42
Qupperneq 43
Qupperneq 44
Qupperneq 45
Qupperneq 46
Qupperneq 47
Qupperneq 48
Qupperneq 49
Qupperneq 50
Qupperneq 51
Qupperneq 52
Qupperneq 53
Qupperneq 54
Qupperneq 55
Qupperneq 56
Qupperneq 57
Qupperneq 58
Qupperneq 59
Qupperneq 60
Qupperneq 61
Qupperneq 62
Qupperneq 63
Qupperneq 64
Qupperneq 65
Qupperneq 66
Qupperneq 67
Qupperneq 68
Qupperneq 69
Qupperneq 70
Qupperneq 71
Qupperneq 72
Qupperneq 73
Qupperneq 74
Qupperneq 75
Qupperneq 76

x

Hinsegin dagar í Reykjavík

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Hinsegin dagar í Reykjavík
https://timarit.is/publication/1512

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.