Hinsegin dagar í Reykjavík - aug. 2019, Síða 71
71
Brotin tönn í búningsherberginu
Þegar Hera er innt eftir góðri sögu frá
Ósló skellir hún upp úr. „Það var búin að
vera karamelluskál í búningsherberginu
mínu þessar tvær vikur sem við vorum
þarna. Ég var algjörlega búin að
sniðganga karamellurnar en síðasta
daginn, rétt fyrir lokakeppnina, hugsaði
ég með mér að ég ætti skilið að fá mér
eina. Ég stakk upp í mig karamellu og var
ekki einu sinni búin að sjúga tvisvar
þegar það losnaði fylling úr tönn!“ segir
Hera og heldur áfram að hlæja. „Ég mátti
bara setja allt í gang. Tannlæknirinn minn
var í höllinni en var ekki með tannlím á
sér og hefði ekki komist til mín vegna
öryggisráðstafana,“ segir hún en segist
sjálf hafa átt tannlím á hótelinu. „Silja,
konan hans Valla, var ennþá á hótelinu
og var nýstigin úr sturtu þegar
hótelstarfsmaður óð inn til hennar og
leiddi hana inn á mitt herbergi. Þar fundu
þau tannlímið sem Silja mátti gjöra svo
vel að hlaupa með í höllina, varla búin að
þurrka hárið eða klæða sig, þar sem ég
náði að líma tönnina sjálf áður en ég
hljóp inn á svið.“
Í minningunni segir Hera þetta atvik
ótrúlega fyndið þótt tímasetningin hafi
varla getað verið óheppilegri. „Eftir á að
hyggja skipti þetta auðvitað engu máli.
Það hefði enginn tekið eftir þessu en á
þessum tímapunkti var það að fá tönnina
upp í mig aftur mikilvægt, bara upp á
mína andlegu líðan,“ segir hún og bætir
við að tannlæknirinn hennar hafi þó lært
af þessu. „Ef Gunna vinkona, sem líka er
tannlæknirinn minn, kemur að sjá mig
syngja einhvers staðar er hún alltaf með
tannlím í vasanum,“ segir Hera og
skellihlær.
Fasteignasalinn sem varð til í gríni
Samhliða söngnum og söngkennslu er
Hera fasteignasali hjá Fasteignasölu
Reykjavíkur. „Þegar ég flutti heim frá Síle
var ég ekki tilbúin að vera bara Hera
söngkona og var þess vegna að leita að
einhverju öðru,“ segir Hera sem íhugaði
að taka upp þráðinn í viðskiptafræðinni.
„Mig langaði í eitthvað annað líka,
eitthvað alveg ótengt söngnum. Á
þessum tíma var ég að kaupa og selja
íbúð og foreldrar mínir líka svo ég
hjálpaði þeim með það.“ Þegar Hera hitti
fasteignasala foreldra sinna til að kvitta
undir pappíra fyrir þeirra hönd má segja
að ákvörðunin um næsta kafla hafi verið
tekin. „Við hittumst á kaffihúsi í Kringlunni
og ég sagði við hann að ég ætti auðvitað
frekar að sjá um þessa pappíra sjálf. Þetta
átti að vera grín en hann horfði á mig
grafalvarlegur og sagði að ég yrði frábær
fasteignasali! Ekki nóg með það heldur
leit maðurinn minn upp úr blaðinu, sem
þarf mikið til, og sagðist vera sammála.“
Þarna fóru hjólin heldur betur að snúast.
Hera las sér til um námið, ræddi við
fasteignasala um starfið og var innan viku
skráð í nám til að verða fasteignasali.
Hera segist ánægð með nýja starfið sem
henti mjög vel samhliða tónlistinni. „Hin
ástríðan mín eru hús, bæði að utan og
innan. Ég rak verslun á Laugaveginum
sem var bara með innanstokksmuni, sem
mér fannst æðislegt og ég algjörlega
elska þetta líka. Starf fasteignasalans er
mjög margþætt og þarna koma
samskiptahæfileikarnir sér vel. Það þarf
oft að leysa alls konar vandamál,
stundum mjög persónuleg hjá seljendum
og kaupendum, eða eitthvað tæknilegt
eða tengt byggingunni sjálfri. Svo er ég
mikið í að gefa ráð um hvernig hægt sé
að gera eignina seljanlegri, hvað ætti að
mála, hverju má sleppa og svoleiðis. Svo
smellpassar þetta með tónlistinni,
Söng-Hera og Fasteigna-Hera vinna mjög
vel saman!“
Queen of Fokkking Everything
Í tilefni Hinsegin daga ætlar Hera að setja
upp sýninguna Queen of Fokking
Everything í Gamla bíói föstudaginn 16.
ágúst. Um er að ræða frumsýningu á
Íslandi en sýningin hefur áður verið sett
upp í Svíþjóð við góðar viðtökur. „Queen
of Fokking Everything er í rauninni búin að
vera til í einhver ár,“ segir Hera og útskýrir
tilurð sýningarinnar. „Við Valli vorum að
koma heim úr rosa tónleikaferð. Ég var
búin að vera díva fyrir allan peninginn, á
fimm stjörnu hótelum með fullar töskur
af hárkollum, farða og kjólum. Svo fer ég í
inniskóna í flugvélinni, tek augnhárin af
og skelli mér í þrítugustu og aðra röð í
Icelandair vélinni, andvarpa og segi
„andskotinn, ég þarf að setja í svo margar
vélar þegar ég kem heim!“ segir hún og
hlær. „Valli sprakk úr hlátri því að honum
fannst þetta svo mikið spennufall en ég
var bara búin að stimpla mig inn á
íslensku Heru sem var bara að fara heim
að skeina og skúra.“
Upp úr þessu samtali segir Hera að Queen
of Fokking Everything hafi orðið til. „Þarna
fattaði ég að maður er ekki alveg í lagi. Ég
er náttúrlega þessi klassíska tveggja
barna húsmóðir, eiginkona, ástkona og
vinkona, arfaslök skúringakona sem
þrífur klósett, setur í vélar og brosir í
gegnum tárin. Ég hreinlega þoli ekki að
brjóta saman þvott og ganga frá honum
en geri það samt bölvandi og ragnandi.
Og eigum við eitthvað að ræða þessa
einmana einstæðu sokka uppi um alla
veggi? Allavega, okkur fannst þetta svo
fyndið og alveg klárt efni í ágætis
sýningu.“ Niðurstaðan varð sýning sem
Hera segir vera skemmtilega kvöldstund,
fulla af söngvum og sögum úr lífi dívu.
„Þetta er sýning á ensku sem ég skrifaði
með uppistandaranum og snillingnum
Jonathan Duffy. Þarna koma saman
húsmóðirin, dívan, fimleikadrottningin,
skógræktarbóndinn og söngkennarinn.
Allar Herurnar og öll hliðarsjálfin safnast
saman á sviðinu til að syngja og segja
sögur. Ég veit ekki um betri stað eða
stund til að koma út úr skápnum með
Queen of Fokking Everything en á Hinsegin
dögum. Ég er ótrúlega ánægð, hrærð og
glöð með að fá að vera partur af hátíðinni
í ár og hlakka gríðarlega til,“ segir Hera
spennt fyrir komandi verkefnum.