Morgunblaðið - 21.01.2021, Page 37
37
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 21. JANÚAR 2021
Hækkandi sól Í dag er nákvæmlega mánuður frá vetrarsólstöðum en þá var sól lægst á lofti á norðurhveli jarðar.
Daginn hefur lengt smám saman og nú nýtur birtu nærri tveimur klukkustundum lengur en fyrir mánuði. Sól-
arupprás í Reykjavík var klukkan 10:45 í gær og sólin settist klukkan 16:31. Nú styttist í að sólin sjáist í fjörðum
umluktum fjöllum. Sólardagur Ísfirðinga er 25. janúar nk. og sólardagur Siglfirðinga 28. janúar.
Eggert
Hvað eiga Trygg-
ingastofnun ríkisins, Ís-
landsbanki, Lands-
réttur,
Hafrannsóknastofnun,
sýslumaðurinn á höfuð-
borgarsvæðinu og Ice-
landair sameiginlegt?
Jú, þessar stofnanir og
fyrirtæki hafa valið sér
aðalstarfsstöð utan
Reykjavíkur á allra síð-
ustu árum. Farið úr borginni. Fleiri
aðilar, svo sem Tækniskólinn, eru að
hugsa sér til hreyfings. Ástæðan er
einföld. Það vantar hagstæðar og
hentugar atvinnulóðir.
Stefna borgarinnar hefur verið að
skipuleggja ákveðna atvinnustarfs-
semi á Esjumelum fyrir starfsemi.
Fáir kostir eru fyrir stórar stofnanir
og fyrirtæki sem vilja vera miðsvæðis
með skrifstofur og
starfsemi á höfuðborg-
arsvæðinu. Þá liggur
fyrir að verulegur
skipulagshalli hefur
aukist þar sem umferð-
in fer vestur og í
miðbæinn á morgnana,
en í austur og til Kópa-
vogs síðdegis. Loks
skortir staðarval fyrir
nýjan spítala, en langan
tíma tekur að undirbúa
slíka starfsemi eins og
dæmin sanna.
Besta staðsetning fyrir nýja starf-
semi væri austarlega til að stytta
vegalengdir og minnka umferð á
álagstímum. Keldur. Íbúabyggð,
óskert ströndin við Grafarvog og at-
vinnulóðir undir framsækna starf-
semi á Keldum er skynsamlegasta
svarið. En í stað þess að skipuleggja
Keldur eins og lagt er upp með bæði í
lífskjarasamningum og
samgöngusáttmálanum gerir borg-
arstjórnin ráð fyrir engri uppbygg-
ingu á Keldum næsta áratuginn. For-
feður okkar bændurnir hefðu vitað
það betur. Störfin eru undirstaða
tekna íbúanna. Þau eru líka und-
irstaða tekna borgarinnar. Skuldir
hafa hækkað mikið hjá borginni og
því einboðið að borgin þarf að bjóða
stofnunum og fyrirtækjum góða val-
kosti. Sú er ekki raunin. Sá sem hrek-
ur frá sér mjólkurkýrnar situr eftir
mjólkurlaus.
Eftir Eyþór
Arnalds » Besta staðsetningfyrir nýja starfsemi
væri austarlega til að
stytta vegalengdir og
minnka umferð á álags-
tímum. Keldur.
Eyþór Arnalds
Höfundur er oddviti sjálfstæðis-
manna í borgarstjórn.
Að missa frá sér mjólkurkýrnar
Veiðigjald ársins
2021 er áætlað um 7,5
milljarðar króna. Gjald-
ið er reiknað út frá af-
komu fiskveiða árið
2019, en það var gott ár
í sjávarútvegi. Nú þeg-
ar árið 2020 er að baki
er áætlað að veiðigjald
þess árs hafi verið 4,8
milljarðar króna, en
það byggðist á afkomu
ársins 2018. Hækkun
gjaldsins milli áranna 2020 og 2021
endurspeglar einfaldlega bætta af-
komu í fiskveiðum á milli áranna 2018
og 2019.
Samkvæmt lögum um veiðigjald er
það 33% af afkomu fiskveiða. Í því
felst að gjaldið er þriðjungur af verð-
mæti aflans að frádregnum kostnaði.
Þannig fær þjóðin þriðjung af afkom-
unni. Tveir þriðju fara meðal annars í
fjármagnskostnað, af-
skriftir, greiðslu arðs til
þeirra sem lagt hafa
fjármagn til reksturs-
ins, fjárfestingar í nýj-
um skipum og búnaði og
viðhalds á eldri skipum.
Í þessu samhengi skal
áréttað að greiðsla arðs
til hluthafa í sjávar-
útvegi hefur að með-
altali verið hlutfallslega
lægri en í fyrirtækjum í
viðskiptahagkerfinu á
tímabilinu 2010 til 2018.
Tölur fyrir árið 2019
liggja ekki fyrir. Þá hafa fjárfestingar
verið miklar undangengin fimm ár –
þær mestu frá því lög um stjórn fisk-
veiða tóku gildi árið 1990. Sú þróun er
afar jákvæð enda eru tækniframfarir
örar og fjárfesting í sjávarútvegi for-
senda framfara og samkeppnishæfni
á alþjóðlegum markaði. Jafnframt er
fjárfesting nauðsynleg svo sjávar-
útvegur geti haldið áfram á þeirri já-
kvæðu vegferð sem hann hefur verið í
umhverfismálum og dregið enn frek-
ar úr olíunotkun og minnkað sót-
sporið. Síst má gera minna úr þessum
samfélagslega ávinningi en þeim sem
felst í greiðslu veiðigjalds.
Árið 2018 greiddi sjávarútvegur
11,3 milljarða króna í veiðigjald og ár-
ið 2019 voru 6,6 milljarðar króna
greiddir í veiðigjald. Þegar ljóst var
að veiðigjald ársins 2020 yrði 4,8
milljarðar króna mátti heyra fullyrð-
ingar þess efnis að sú ríkisstjórn sem
nú situr hafi átt einhvern þátt í þess-
ari lækkun. Slíkar staðhæfingar voru
varla settar fram í góðri trú, enda
mætti þá með sömu rökum halda því
fram að sama ríkisstjórn hafi átt þátt í
að hækka gjaldið á ný á þessu ári upp
í áðurnefnda 7,5 milljarða króna.
Ný lög um veiðigjald voru sett í lok
árs 2018 og var gjaldið í fyrsta sinn
innheimt eftir reiknireglum þeirra
laga á liðnu ári, það er árið 2020.
Veiðigjald var frádráttarbært sem
kostnaður samkvæmt eldri lögum, en
er það ekki samkvæmt þeim nýju. Þá
er í nýju lögunum lagt 10% álag á
tekjur uppsjávarveiðiskipa, það er
þeirra skipa sem veiða tegundir á
borð við makríl, síld, kolmunna og
loðnu. Gjaldstofninn var þannig
breikkaður, sem þýðir hærra veiði-
gjald. Það er því beinlínis rangt að
tala um að sú ríkisstjórn sem nú situr
hafi með samþykkt nýrra laga stuðlað
að lækkun veiðigjalds. Þeir sem það
gera tala gegn betri vitund. Til frekari
staðfestingar má benda á að veiði-
gjald ársins 2021 er um 50% hærra en
það hefði verið samkvæmt eldri lög-
um. Sitt sýnist vafalaust hverjum um
þá þróun, en ljóst má vera að hún er
síst til þess fallin að leggja mik-
ilvægum útflutningsatvinnuvegi lið í
samkeppni við ríkisstyrktan sjávar-
útveg annarra þjóða.
Afkoma Íslendinga af sjávar-
auðlindinni er að miklu leyti háð
duttlungum náttúru og manna. Vist-
kerfi hafsins tekur sífelldum og ófyr-
irsjáanlegum breytingum og mark-
aðir geta brugðist; átök á Krímskaga,
efnahagslægð í Nígeríu vegna verð-
lækkunar á olíu og alltumlykjandi
kórónuveira eru aðeins fáein dæmi.
Þau verðmæti sem við náum að gera
úr auðlindinni frá einu ári til annars
geta því sveiflast. Í umræðu um
greiðslu fyrir nýtingu á auðlindinni er
mikilvægt að þessar ytri aðstæður
séu hafðar í huga. Veiðigjald mun
bæði hækka og lækka án þess að
nokkur stjórnmálamaður hafi þar
sérstaklega hönd í bagga.
Eftir Heiðrúnu Lind
Marteinsdóttur » Það er því beinlínis
rangt að tala um að
sú ríkisstjórn sem nú
situr hafi með samþykkt
nýrra laga stuðlað að
lækkun veiðigjalds.
Heiðrún Lind
Marteinsdóttir
Höfundur er framkvæmdastjóri
Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.
Sjö og hálfur milljarður
Utanríkisþjónustan
sýndi hvað í henni býr
þegar kórónuveiran
steypti sér yfir heims-
byggðina án þess að gera
boð á undan sér fyrir
tæpu ári. Samgöngur
milli landa hafa á síðari
tímum ekki verið mark-
aðar annarri eins óvissu.
Þúsundir Íslendinga
þurftu að komast heim
meðan ringulreið ríkti
hvert sem litið var. Verkefnið var að
tryggja öllum sem á þurftu að halda
heimferð eða aðra úrlausn.
Norræn samvinna
á farsóttartímum
Viðbrögðin við heimsfaraldrinum
eru án efa eitt það fyrsta sem kemur
upp í hugann nú þegar um fjögur ár
eru liðin frá því ég tók við embætti ut-
anríkisráðherra. Aðstæðurnar voru
að sönnu einstakar og aldrei hefur
borgaraþjónusta utanríkisráðu-
neytisins staðið frammi fyrir stærra
verkefni. Við þurftum að stilla saman
strengi – ráðuneytið, sendiráðin,
fastanefndir, ræðismenn, almanna-
varnir, sóttvarnalæknir, flugfélög og
fjöldi annarra. Þarna kom í ljós að í
reynslubanka ráðuneytisins er ómet-
anleg þekking á réttum viðbrögðum í
framandi umhverfi sem virkilega
reynir á við aðstæður sem þessar.
Líklega hefur gildi norræns sam-
starfs sjaldan komið betur í ljós en í
heimsfaraldrinum. Náið samstarf var
á milli Norðurlandanna þar sem þau
opnuðu borgaraþjónustu sína fyrir
þegnum hvert annars. Daglegir fund-
ir voru haldnir um stöðu, viðbrögð og
úrræði til að tryggja að allir kæmust
til síns heima. Á fyrstu þremur mán-
uðum faraldursins áttum við
utanríkisráðherrar Norðurlanda nán-
ast vikulega fjarfundi og þar voru far-
sóttin og viðbrögð við henni auðvitað
efst á baugi. Samráðið við þessar nán-
ustu vinaþjóðir okkar hefur aldrei
verið jafn náið.
Íslendingar aðstoðaðir heim
Í upphafi faraldursins var brýnast
að láta fólkið sem þurfti á þjónustu
okkar að halda vita af okkur – að við
værum reiðubúin að rétta því hjálp-
arhönd. Á fáum dögum náðum við
beint eða óbeint til flestra Íslendinga í
útlöndum – næstum allra, held ég að
sé óhætt að segja. Þar gegndi lyk-
ilhlutverki skráningargrunnurinn
sem var settur upp með hraði. Íslend-
ingar erlendis gátu notað hann til að
láta okkur vita af ferðum sínum og við
í staðinn komið til þeirra boðum án
nokkurra tafa og fengið ómetanlega
yfirsýn.
Staðreyndirnar tala sínu máli. Nær
tólf þúsund manns
skráðu sig í grunninn.
Frá lokum mars og
fram í miðjan apríl var
haft beint samband við
tæplega sex þúsund Ís-
lendinga erlendis, fyrst
utan Evrópu en svo
einnig í Evrópuríkjum.
Hringt var í á þriðja
þúsund manns en aðrir
fengu sérsniðin skilaboð
í tölvupósti, á sam-
félagsmiðlum og með
smáskilaboðum. Frá 10.
mars og til dagsins í dag
hafa yfir þrettán þúsund erindi verið
skráð hjá borgaraþjónustunni, tvö af
hverjum þremur tengjast Covid-19.
Dagana 14.-19. mars svaraði borg-
araþjónustan 400 erindum á dag. Til
samanburðar má nefna að allt árið
2018 bárust alls 550 erindi til borg-
araþjónustunnar, að frátöldum fjöl-
mörgum erindum sem sendi-
skrifstofur og ræðismenn afgreiddu
það árið.
Samstillt átak við
útvegun búnaðar
Þegar farsóttin skall á með fullum
þunga reið á að eiga nægar birgðir af
hlífðarbúnaði fyrir starfsfólk sjúkra-
húsa. Þá kom í hlut sendiráðsins í
Kína að semja um kaup á slíkum
vörum og tryggja leyfi fyrir útflutn-
ingi þeirra. Með samstilltu átaki
stjórnvalda, sendiráða, fyrirtækja og
einstaklinga tókst að útvega búnaðinn
og Icelandair flutti hann svo hingað
heim. Þá hafði utanríkisþjónustan
sömuleiðis milligöngu um að koma
gjörgæsluöndunarvélum til landsins
frá Kína sem Landspítalinn fékk að
gjöf frá íslenskum fyrirtækjum.
Nú þegar vonandi sér fyrir endann
á þessum fordæmalausa faraldri er
nauðsynlegt að draga af honum lær-
dóm. Ég er ekki í minnsta vafa um að
utanríkisþjónustan stóðst prófið og
stendur sterkari eftir en áður. Starfs-
fólkið fékk þjálfun í að vinna saman í
gríðarstóru verkefni þar sem mik-
ilvæg reynsla hvers og eins kom að
góðum notum. Ég hef aldrei verið jafn
stoltur af samstarfsfólki mínu og
þessar örlagaríku vikur sem sýndi
hvað það er mikilvægt að hafa öfluga
utanríkisþjónustu.
Eftir Guðlaug Þór
Þórðarson
Guðlaugur Þór
Þórðarson
»Nú þegar sér fyrir
endann á þessum
fordæmalausa faraldri
er ég ekki í vafa um að
utanríkisþjónustan
stóðst prófið og stendur
sterkari eftir en áður.
Höfundur er utanríkis- og þróunar-
samvinnuráðherra.
Þegar heimurinn
lokaðist